fbpx Skip to main content
Baunir.jpg

Ætla má að flestir hafi upplifað hægðatregðu af einhverjum toga á sinni lífsleið og oftast aukast líkurnar á því með hækkandi aldri. Sumir kjósa að taka inn hægðalosandi lyf en einnig er til fullt af góðum matvælum sem hægt er að borða sem geta haft jákvæð áhrif á meltinguna. Gott er að hafa það að markmiði að þeir sjúkdómar sem hægt er að stjórna að miklu leyti með réttu mataræði ættu að vera meðhöndlaðir á þann hátt.

Miklu máli skiptir að hugsa vel um meltingarfærin okkar með hreyfingu og hollri fæðu. Hér verða 10 fæðutegundir sem allir ættu að hafa greiðan aðgang að kynntar. Greinin er unnin úr birtri grein af powerofpositivity.

Sveskjur:

Sveskjur eru þurrkaðar plómur. Sveskjur innihalda mikið magn af trefjum og hafa þær þar af leiðandi góð áhrif á meltingu vegna mikils vatnsinnihalds og fitusýra sem eru líkamanum nauðsynlegar. Sveskjur innihalda einnig hátt magn af Sorbitóli sem mýkir upp harðar hægðir. Einnig örva sveskjur framleiðslu á góðum bakteríum. Sumir kjósa að drekka sveskjusafa frekar en að borða þær.

Hörfræ:

Það er löngum þekkt að inntaka á hörfræjum getur haft mjög góð áhrif á meltinguna. Líkt og sveskjur þá innihalda hörfræ mikið magn af trefjum. Bæði má finna vatnsuppleysanlegar og óuppleysanlegar trefjar í hörfræjum. Báðar þessar tegundir eru okkur mikilvægar en trefjar hjálpa okkur við að losa eiturefni úr líkamanum ásamt því að styrkja lifrina. Í hörfræjum má einnig finna mikið magn af steinefnum og fitusýrum sem meðal annars draga úr bólgumyndun í líkamanum. Ein matskeið af hörfræjum gefa þér rúmlega 11% af ráðlögðum dagskammti trefja. Hægt er að borða hörfræ á margan hátt en hörfræ hafa einnig verið mikið notuð í formi olíu.

Hindber og brómber:

Báðar þessar tegundir berja innihalda mikið magn af vatni og trefjum. Þökk sé háu C-vítamín innihaldi og kalsíum þá eru berin holl og góð til þess að borða reglulega. Samt sem áður er ekki ráðlegt að neyta of mikils af þessum berjum daglega vegna þess að þau innihalda mikinn ávaxtasykur en vissulega er óhætt að borða þau í litlum skömmtum og tilvalið að nota sem sætu út á skyr eða á hafragraut.

Heilhveiti brauðmeti:

Allar tegundir af heilhveitiafurðum eru frábærir staðgenglar fyrir hefðbundið brauðmeti á borð við pasta, hrísgrjón, brauð og þess háttar. Með þessu keyrist upp magn trefja daglega til muna sem eins og áður kom fram hefur jákvæð áhrif á meltingu okkar. Rúgbrauð eru þar sérstaklega talin vera töfrafæða.

Perur og epli:

Að borða peru og/eða epli getur lofað nokkrum ávinningi, ekki bara fyrir þarmaflóruna okkar heldur ennig fyrir heilsuna almennt. Báðir ávextirnir innihalda mikið magn af vatni og trefjum. Tegund af trefjum sem finna má í eplum eru Pektín. Pektín getur meðal annars lækkað kólesteról og blóðsykur. Epli og perur innihalda, líkt og sveskjur, Sorbitól sem er hægðalosandi.

Sítrus ávextir:

Sítrus ávextir á borð við appelsínur og mandarínur eru hlaðnir trefjum, þá sérstaklega Pektíni, líkt og finna má í eplum. Sítrus ávextir innihalda hátt sýrustig sem geta leyst upp massa sem annars hefði haft slæm áhrif á hægðir. Þessir ávextir hafa til dæmis reynst vel fyrir börn með hægðatregðu þar sem þeir eru einstaklega safaríkir og hressandi um leið og þeir eru trefjaríkir. Einnig eru þeir ríkir af C-vítamínum.

Kiwi:

Að borða kiwi reglulega hjálpar til við að viðhalda góðri þarmaflóru. Þetta er vegna trefjainnihalds þeirra. Líkt og með sítrus ávexti hefur reynst vel að gefa börnum kiwi til að hjálpa þörmum þeirra þar sem kiwi eru sæt og góð á bragðið. Kiwi inniheldur ensími sem kallast Aktinidín sem hjálpar meltingunni á góðan hátt og kemur í veg fyrir hægðatregðu.

Baunir:

Baunir má finna í mörgum og ólíkum afbrigðum. Sem dæmi, linsubaunir, kjúklingabaunir, bakaðar baunir og svartar baunir. Baunir eru flestar uppfullar af auðleysanlegum trefjum og eru baunir flokkaðar sem góð kolvetni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mataræði sem inniheldur auðleysanlegar trefjar getur minnkað kólesteról í blóði. Einn bolli af bökuðum baunum getur innihaldið um það bil 80% af ráðlögðum dagskammti af trefjum fyrir meðalmanneskju. Sem viðbótar bónus eru baunir oft ódýr og aðgengileg fæða.

Poppkorn:

Já þú last rétt, poppkorn getur haft jákvæð áhrif á meltinguna. Poppkorn er að sjálfsögðu komið frá maísbaunum sem innihalda dágott magn af trefjum. Því er góð regla að reyna að velja poppkorn frekar en franskar, nammi eða aðra óholla fæðu sem maður hefur oft löngun í. Reyndu að ganga í skugga um að poppkornið sé ekki of saltað eða umvafið smjöri til þess að halda því í hollari kantinum.

Grænmeti:

Síðast en ekki síst mælum við með að borða nóg af grænmeti alla daga. Það grænmeti sem hefur sérstaklega góð áhrif á meltinguna eru sem dæmi spínat, spergilkál og rósakál vegna trefjainnihalds þeirra. Spínat inniheldur einnig dágott magn af magnesíum, járni, kalki og A, C og K-vítamínum. Spergilkál inniheldur Súlforafan sem hjálpar meltingu og heldur meltingafærum heilbrigðum.

Rauði þráðurinn í gegnum þessar fæðutegundir er að þær innihalda mikið magn trefja. Talið er að meðalmaðurinn þurfi um 20-30 grömm af trefjum á hverjum degi. Trefjarík fæða gefur oft meiri seddu tilfinningu en önnur fæða og auðveldar okkur því að komast hjá því að finna fyrir mikilli svengd, einnig hjálpa trefjar við að halda blóðsykri stöðugum. Regluleg hreyfing er einnig hjálpleg til að viðhalda eðlilegri meltingu.
Að eiga í vandræðum með meltingu eða jafnvel hægðatregðu getur haft langvarandi áhrif á heilsu okkar með óþægindum bæði líkamlega og andlega. Með réttu mataræði, vatnsinntöku og hreyfingu er hægt að hjálpa til við að létta á slíkum vandamálum án þess jafnvel að fara á lyf. Við mælum þó auðvitað með að leita til viðeigandi læknis ef þess þarf fyrir viðeigandi meðferð.

This site is registered on wpml.org as a development site.