Öll förum við í gegnum tímabil þar sem við erum ekki upp á okkar besta þegar kemur að matarræðinu. Hvort sem það er að drekka of mikið kaffi, borða of mikið af ruslfæði eða drekka of mikið áfengi, þá eru afleðingarnar oftast þær sömu; okkur líður ekki nægilega vel í eigin líkama.
Góðu fréttirnar eru aftur á móti þær að við getum með tiltölulega auðveldum hætti náð okkur aftur á gott skrið, svo lengi sem við erum tilbúin að kveðja tilteknar fæðutegundir og taka upp nýjar og betri venjur þegar kemur að matarvali og lífsstíl. Hér er þó ekki átt við langa og stranga megrunarkúra, þar sem þú mátt ekkert láta ofan í þig annað en fljótandi fæði, heldur einungis breytingar á fæðuvali þínu. Sem dæmi getur aukin vatnsdrykkja, nokkrar ferðir í gufubað og það að taka út mjólkurvörur í eina viku gert kraftaverk fyrir þig og lifrina þína, sem gegnir einmitt því lykil hlutverki að hreinsa út óæskileg efni úr líkama þínum.
Hér að neðan má sjá 10 góð ráð til þess að hreinsa líkama þinn. Fylgdu þessum ráðum og fáðu aukna orku og vellíðan.
Taktu kaffipásu
Hér er ekki átt við 5 mínútna hlé frá vinnu, heldur nokkra vikna hlé frá koffíni. Dr. Mark Hyman, höfundur metsölubókarinnar „The blood sugar solution“ hvetur lesendur sína til þess að draga úr koffín neyslu þar sem hann telur ákveðin efni í koffíni geta dregið úr eðlilegum efnaskiptum lifrinnar og þannig takmarka getu hennar til þess að losa út eiturefni úr líkamanum.
Segðu bless við áfengi
Of mikil áfengisneysla getur dregið úr getu líkamans til þess að losa út óæskileg efni. Lifrin brýtur niður áfengi þannig að hægt sé að fjarlægja það úr líkama þínum en of mikið áfengi, sem lifrin nær ekki að vinna fyllega úr, getur haft skaðleg áhrif fyrir lifrina. Þegar þú dregur úr drykkju gefur þú lifrinni tækifæri til þess að vinna sína vinnu og fjarlægja eiturefni eftir bestu getu.
Auktu trefja inntöku þína
Það sem fer inn verður að fara út en stundum á líkami þinn erfitt með að losa sig við fæðuna sökum vandamála í þörmum og meltingarvegi. Heimsþekktar heilsu-stofnanir hafa á undanförnum árum vakið athygli á mikilvægi þess að borða trefjar. Hin þekkta „Mayo Clinic“ heilsustöð hefur hvatt fólk undir fimmtugt til þess að borða allt að 38 grömm af trefjum á hverjum degi og 31 grömm á dag fyrir fólk yfir fimmtugt. Trefjar hjálpa líkamanum að melta fæðuna og tryggja eðlilega virkni í þörmum sem er nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi líkamans. Gamli góði hafragrauturinn kemur hér sterkur inn.
Drekktu sítrónuvatn
Það er lífsnauðsynlegt að drekka vatn og mikilvægur þáttur í því að halda frumum líkamans, nýrum og öðrum líffærum og innyflum í toppstandi. Þegar þú bætir svo við sítrónu út í vatnið færðu góðan skammt af C-vítamíni í kroppinn sem eykur hið svokallaða „glutathione“ í líkamanum sem bæði styrkir og hjálpar lifrinni að starfa með eðlilegum hætti.
Skelltu þér í ræktina
Ein besta leiðin til þess að losa út eiturefni úr líkamanum er að stunda einhverskonar líkamsrækt. Þolþjálfun í a.m.k. 20-30 mínútur á dag, jóga og önnur góð hreyfing hjálpar líkamanum að losa sig við eiturefni sem hafa safnast fyrir í fituvef líkamans.
Borðaðu fæðu sem styrkir lifrina
Bættu við fæðu í matarræði þitt sem styrkir lifrina. Fjórir til fimm skammtar á dag af grænkáli, brokkolí, rófum, gulrótum, lauk, hvítlauk, ætiþistlum ásamt öðru spíruðu grænmeti tryggja næringarefni sem eru lifrinni mikilvæg. Að auki geta hin ýmsu bætiefni til inntöku hjálpað lifrinni að ná sér á gott skrið og losa út eiturefni hratt og örugglega. Þá má gjarnan finna holl og góð te sem hafa hreinsandi áhrif á líkamann.
Taktu vítamín
Eins og áður segir getur verið gott að taka inn vítamín og bætiefni til þess að tryggja eðlilega virkni lifrinnar. C-vítamín, B-vítamín og magnesíum eru nauðsynleg líkama þínum og hjálpa honum að hreinsa sig og byggja upp eðlilega starfsemi líkamans.
Slakaðu á og njóttu kyrrðarinnar í gufubaði
Að svitna vel í gufubaði nokkra daga í viku getur flýtt fyrir hreinsun á óæskilegum efnum. Gott er að nota skrúbb á húðina þar sem sum eiturefni leita fram í húðina og þannig hægt að skrúbba þau í burtu. Notaðu tækifærið og hugleiddu og sláðu þannig tvær flugur í einu höggi.
Veldu lífræn matvæli
Lífræn matvæli eru án efa umdeilanleg í nútíma samfélögum og skiptast sérfræðingar og vísindamenn gjarnan í tvo hópa, annars vegar telur annar hópurinn engan mun vera á lífrænum matvælum og hefðbundnum matvælum, á meðan hinn hópurinn telur lífræn matvæli hollari. Samkvæmt hinum þekkta næringarlækni, Dr. Ivy Bravin, getur verið gott að velja lífræn matvæli og sneyða þannig framhjá matvælum sem innihalda stera, sýklalyf og meindýraeitur.
Taktu út mjólkurvörur
Sumir eiga auðvelt með að melta mjólkurvörur og fyrir þá eru slík matvæli góð viðbót við hollt og næringarríkt matarræði. Aðrir hins vegar gætu átt erfitt með að melta viss prótein sem finna má í mjólkurvörum og getur það haft slæmar heilsufarslegar afleiðingar fyrir viðkomandi hóp fólks. Má þar nefna vandamál í meltingarfærum, erfðileika með hægðir, þreytu ásamt því að draga úr eðlilegri virkni lifrinnar, sem aftur hægir á hreinsunarferli líkamans.
Listinn hér að ofan er vissulega ekki tæmandi en góð byrjun í átt að betri heilsu.