Vissulega eru til fleiri en tíu hollar fæðutegundir og erfitt getur reynst að velja tíu hollustu fæðutegundirnar. Ástæðan er sú að hver fæðutegund fyrir sig hefur eitthvað einstakt fram að færa fyrir heilsu okkar. Þannig getur ein fæðutegund verið rík af próteini eða trefjum en skort vítamín og steinefni, á meðan að önnur fæðutegund er rík af vítamínum og andoxunarefnum en skortir e.t.v. prótein.
Þetta er einmitt ástæða þess að sérfræðingar og næringarfræðingar hvetja fólk til þess að borða fjölbreytta og holla fæðu. Með því móti tryggjum við nauðsynlega upptöku ólíkra næringarefna sem líkamar okkar þurfa á að halda.
En hvað telst þá til hollra fæðutegunda?
Eins og kom fram hér á undan er til fjöldinn allur af hollum fæðutegundum en ef þú ættir að byrja einhversstaðar, væri ekki vitlaust að bæta við fæðuval þitt, þeim tíu meðfylgjandi fæðutegundum sem taldar eru upp hér að neðan.
Bláber
Bláber eru rík af andoxunarefnum sem gera þau að sterku vopni í baráttunni við krabbamein, hjartasjúkdóma, elliglöp og suma hrörnunarsjúkdóma. Þar að auki gefa bláber góða vörn gegn þvagfærasýkingum og eru rík af vatni sem hjálpar líkama þínum að halda rakastiginu í jafnvægi fyrir frumur líkamans.
Hafrar
Hafrar eru ríkir af auðleysanlegum trefjum sem hjálpa líkamanum að viðhalda eðlilegu kólesteróli og halda blóðþrýstingnum í skefjum. Hafrar eru í eðli sínu „góð kolvetni“ og hjálpa líkama þínum að hægja á meltingunni sem tryggir að blóðsykurinn fari ekki úr skorðum. Þar að auki innihalda hafrar gott magn af próteini sem hjálpar þér að byggja upp og viðhalda vöðvamassa. Auðveldasta leiðin til þess að borða meiri hafra er að sjálfsögðu að bæta við morgunverðinn gamla góða hafragrautinum.
Epli
Eitt epli á dag kemur heilsunni í lag eru orð að sönnu. Epli eru stútfull af andoxunarefnunum „quercetin“ og „catechin“ en þessi andoxunarefni verja frumur líkamans og geta dregið úr líkum á krabbameini og hjartasjúkdómum. Þá innihalda epli einnig fjölmörg vítamín og trefjar en þessi blanda gerir epli tilvalin í baráttunni við aukakílóin, þar sem epli veita aukna seddu tilfinningu en eru um leið næringarrík. Svo eru þau skrambi góð á bragðið!
Egg
Þegar kemur að próteini eru eggin ansi hátt skrifuð enda sneisafull af gæða próteini sem finna má í eggjahvítunni. Í ofanálag eru egg rík af öðrum næringarefnum, til dæmis andoxunarefnunum „lutein“ og zeaxanthin“, sem hjálpa þér að halda sjóninni í lagi með því að draga úr kölkun í aungbotnum. Þá má bæta við að egg innihalda góðar fitur, járn, vítamín og steinefni.
Hörfræ
Ekki nóg með það að hörfræ séu rík af trefjum þá eru þau einnig sneisafull af lífsnauðsynlegum fitusýrum, svokölluðum „Alpha-linolenic acid“. Þessar fitusýrur gegna meðal annars því hlutverki í líkamanum að draga úr bólgumyndun. Þessir eiginleikar hörfræa geta til dæmis hjálpað þegar kemur að astma og húðvandamálum. Hörfræin innihalda einnig verulegt magn af próteini og steinefnum.
Jógúrt
Jógúrtin er þekkt fyrir góð-gerla sem hjálpa okkur að draga úr bakteríumyndun í meltingarveginum og viðhalda stöðugu sýrustigi í líkamanum. Að borða jógúrt hjálpar okkur þannig að berjast gegn hinum ýmsu sjúkdómum og sýkingum. Þar að auki inniheldur jógúrt gott magn af kalki og próteini. Gættu þess þó að velja hreina jógúrt þar sem oft á tíðum er búið að bæta við verulegu magni af sykri í þá jógúrt sem við gjarnan sjáum í matvöruverslunum.
Brokkolí
Þegar kemur að toppnum í ofurfæðu flokknum er brokkolí allra jafna að finna í efstu sætunum. Brokkolí er af mörgum talið vera okkar besta vörn gegn krabbameini og er stútfullt af andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Þar að auki er brokkolí hitaeininga-snautt í eðli sínu og því frábær fæða fyrir þá sem vilja fækka aukakílóunum en eftir sem áður tryggja nauðsynlega upptöku næringarefna. Þar að auki má nefna fjölmarga aðra heilsufarslega kosti þess að borða brokkolí en eiginleikar þess hjálpa okkur að byggja upp ónæmiskerfið og beinin okkar ásamt því að stuðla að góðu hjarta- og æðakerfi.
Spínat
Líkt og annað dökkgrænt grænmeti er spínat stútfullt af næringarefnum á borð við A,C og K vítamín en auk þess inniheldur spínat gott magn af járni, kalki, magnesíum, kalín og trefjum. Þannig getur spínat verið hluti af hollu og góðu matarræði og hjálpað þér að losa um aukakílóin, dregið úr líkum á sykursýki, haldið heilastarfseminni í lagi og hjálpað til í baráttunni við krabbamein.
Baunir
Baunir eru frábær uppspretta auðleysanlegra trefja og eru flokkaðar sem góð-kolvetni. Rannsóknir sýna að matarræði sem inniheldur gott magn af auðleysanlegum trefjum getur minnkað kólesteról í blóðinu um allt að 15% og dregur þannig úr líkum á hjartasjúkdómum. Svartar baunir, sem dæmi, innihalda andoxunarefni sem kallast „anthocyanins“ sem hjálpar og styður við heilastarfsemi okkar. Svartar baunir innihalda einnig verulegt magn af próteini en gott er að borða brún hrísgrjón með baununum til þess að mynda „heil prótein“ (e. Complete protein).
Lax
Þegar kemur að laxinum er engin vöntun á næringarefnum. Lax er sneisafullur af Omega3 fitusýrum en er auk þess ríkur af próteini, B-vítamíni og kalín. Þessi næringarefni, sem og fleiri, gera laxinn að tilvaldri viðbót við heilsusamlegt matarræði.