Að borða ákveðnar fæðutegundir getur sannarlega hjálpað þér að styrkja ónæmiskerfið. Gott ónæmiskerfi er gulli betra og nauðsynlegt í baráttunni gegn hinum ýmsu kvillum. Fyrsta skrefið í átt að betri heilsu er því að styrkja ónæmiskerfið og þar skiptir fæðuval miklu máli.
Hér að neðan má finna 15 fæðutegundir sem hjálpa þér að efla ónæmiskerfið og gera þig betur í stakk búin til þess að berjast gegn komandi flensum og heilsufarslegum áskorunum.
Sítrónur, appelsínur og greipaldin
Hinir svokölluðu „Citrus“ ávextir eru stútfullir af C-vítamíni sem hjálpar til við að byggja upp ónæmiskerfið. C-vítamín eykur framleiðslu hvítra blóðkorna en hlutverk þeirra er m.a. að berjast gegn sýkingum. Líkami þinn hvorki framleiðir né geymir C-vítamín og því mikilvægt að fá þetta lífsnauðsynlega vítamín á hverjum degi.
Rauðar paprikur
Rauðar paprikur innihalda tvöfalt magn af C-vítamíni, samanborið við hina hefðbundnu „citrus“ ávexti. Að auki innihalda paprikur ríkt magn af beta-karótíni sem styrkir bæði húðina og sjónina.
Brokkolí
Brokkolí er án efa ein hollasta fæðan á jarðríki enda ríkt af vítamínum og steinefnum. Mælst er til þess að elda brokkolí á sem lægstum hita en besta leiðin til þess að tryggja að öll næringarefnin haldi sér er að borða það ferskt, án allrar eldunar.
Hvítlaukur
Hvítlaukur er afar vinsæl viðbót þegar kemur að eldamennsku. Hvítlaukurinn er hins vegar ekki einungis bragðbætandi heldur er hann líka nauðsynlegur heilsu okkar. Samfélög til forna notuðu hvítlauk til þess að berjast gegn sýkingum og samkvæmt rannsóknum getur hvítlaukur hjálpað til við að lækka blóðþrýsting og haldið slagæðunum í góðu standi.
Engifer
Margir grípa gjarnan í engifer þegar flensan lætur á sér kræla en engifer hjálpar til við að draga úr bólgum í líkamanum, sem gjarnan er fylgifiskur flensu. Engifer gagnast þegar kemur að því að minnka ógleði og flökurleika. Rannsóknir á seinni árum hafa leitt í ljós gagnsemi engifers gegn þrálátum verkjum í líkama ásamt því að lækka blóðþrýsting.
Spínat
Líkt og paprika er spínat fullt af C-vítamíni, andoxunarefnum og beta-karótíni en þessi næringarefni eiga það sameiginlegt að byggja upp og styrkja ónæmiskerfið.
Jógúrt
Jógúrt er ríkt af lifandi gerlum sem hjálpa til í baráttunni gegn flensu og öðrum sjúkdómum. Gættu þess þó að velja hreina jógúrt til þess að lágmarka viðbættan sykur. Þar að auki getur jógúrt innihaldið D-vítamín sem einnig styrkir ónæmiskerfið og er Íslendingum sérstaklega nauðsynlegt yfir vetrarmánuðina.
Möndlur
E-vítamín er fituleysanlegt vítamín og er mikilvægt ónæmiskerfi okkar. Möndlur eru ríkar af vítamíninu og innihalda einnig hollar fitur sem eru nauðsynlegar þegar kemur að því að brjóta niður E-vítamín. Hálfur bolli af möndlum inniheldur nærri því 100% af ráðlögðum dagskammti af E-vítamíni.
Túrmerik
Túermerik, líkt og engifer, dregur úr bólgum í líkamanum og hefur verið notað í baráttunni gegn slitgigt og liðagigt. Þar að auki getur túrmerik verið nytsamlegt þegar kemur að því að draga úr eymslum í vöðvum eftir æfingar.
Grænt te
Grænt te er ríkt af andoxunarefnum og þá sérstaklega EGCG sem er tegund af andoxunarefni sem styrkir ónæmiskerfið. Þar að auki inniheldur grænt te L-theanine en þessi amínósýra hjálpar líkamanum að framleiða efnasambönd í frumunum sem gagnast líkamanum í baráttunni við sýkla.
Papaja ávöxtur
Papaja er enn einn ávöxturinn sem er ríkur af C-vítamíni en auk þess inniheldur Papaja meltingarensím sem hafa bólgueyðandi eiginleika. Þar að auki inniheldur Papaja ávöxturinn ríkt magn af B-vítamínum, fólat og kalíum, næringarefni sem öll eru nauðsynleg heilsu okkar.
Kíví
Í kíví má finna K-vítamín, kalíum, C-vítamín og önnur lífsnauðsynleg næringarefni sem gagnast ónæmiskerfinu sem og heilsu okkar yfir höfuð.
Kjúklingur
Þegar flensan lætur á sér kræla getur verið gott að fá sér kjúklingasúpu. Næringarefni sem leynast í kjúkling geta bæði hjálpað að minnka einkenni flensunnar sem og koma í veg fyrir hana alfarið. Kjúklingur, ásamt öðru alifuglakjöti, er ríkur af B-6 vítamíni en það er mikilvægt fyrir hin ýmsu efnaskipti líkamans. Þá inniheldur kjúklingasoð næringarefni sem hjálpa bæði ónæmiskerfinu sem og þörmunum.
Sólblómafræ
Sólblómafræ innihalda fjölmörg vítamín og steinefni, s.s fosfór, magnesíum, E-vítamín og B-6 vítamín. Þar að auki innihalda sólblómafræ hæfilegt magn af prótein og hollri fitu.
Skelfiskur
Skelfiskur er e.t.v. ekki það fyrsta sem kemur upp í huga þinn þegar ónæmiskerfið er annars vegar. Nokkrar tegundir skelfisks innihalda hins vegar ríkt magn af sinki, sem hjálpar frumum líkamans sem og ónæmiskerfinu að starfa með eðlilegum hætti. Umræddar tegundir skelfisks eru m.a. kræklingur, krabbi og humar. Það er því tilvalið að henda í góða humarsúpu í kvöld!