fbpx Skip to main content

Góðar venjur eru mikilvægur þáttur þegar kemur að líkamlegu heilbrigði og andlegri heilsu. Góðar venjur fela í sér ákveðna rútínu sem þú fylgir dagsdaglega og verður óhjákvæmilega stór partur af lífi þínu.

Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á það að heilbrigður lífsstíll hefur mikil áhrif á þær niðurstöður sem fólk fær úr heilbrigðisskoðun. Heilbrigður lífsstíll hefur þau áhrif að fólk er alla jafna með betra ónæmiskerfi, getur viðhaldið heilsu sinni lengur og líður betur almennt. Auk þess hefur fólk meiri möguleika á að jafna sig á veikindum sínum ef þau koma upp.

Hér að neðan má lesa um 14 góðar venjur sem þú getur tileinkað þér í dag sem allar eiga það sameiginlegt að auka heilsu þína og lífsgæði.

 

Blandaðu geði við annað fólk

Það skiptir ekki öllu máli hversu margt fólk þú þekkir. Það sem skiptir raunverulega máli eru tengsl þín við þetta fólk, hversu djúpstæð, tilfinningaleg og einlæg þau eru. Raunveruleg tengsl við fólk getur fært þér aukna hamingju, aukið afköst þín og komið í veg fyrir hina ýmsu lífsstíls tengdu sjúkdóma. Taktu því upp símann og hringdu í fjölskyldumeðlim eða vin, farðu út að borða eða í heimsókn. Það mun auka vellíðan þína og heilsu til lengri tíma litið.

 

Haltu hryggjarsúlunni í lagi með aðstoð Kírópraktors

Kírópraktík er kerfi sem er notað til að meðhöndla líkamann. Þetta kerfi lítur á líkamann sem eina heild, þar sem allir partar hafa sinn tilgang og stuðla að því að heildin virki sem best. Sérstök áhersla er lögð á hrygginn og taugakerfi líkamans. Þá felur meðferð hjá kírópraktor einnig í sér heildarmat á lífsstíl viðkomandi, með tilliti til hreyfingar, matarræðis og almennrar heilsu. Með kíróraktískri nálgun er hægt að bæta heilsuna og draga úr verkjum með ýmsum hætti. Sem dæmi getur kírópraktor hjálpað þér að draga úr verkjum, bætt liðleika og hreyfifærni, tryggt rétta og góða líkamsstöðu og bætt virkni taugakerfisins. Allt vinnur þetta saman að því að veita einstaklingnum bætta heilsu og vellíðan.

 

Borðaðu ávexti í stað þess að drekka ávaxtasafa

Ef þér finnst appelsínusafi góður, prófaðu þá þess í stað að fá þér appelsínu. Jafnvel ávaxtasafar sem innihalda 100% hreinan ávaxtasafa glata eftir sem áður ákveðnum eiginleikum og næringarefnum við framleiðslu. Þá eru slíkir safar gjarnan ríkir af ávaxtasykri en snauðir af trefjum. Aftur á móti er appelsínan sjálf rík af C-vítamíni, trefjum, fólín sýru og kalíum. Reyndu því eftir fremsta megni að minnka ávaxtasafa drykkju og borða þess í stað ávexti á degi hverjum.

 

Passaðu upp á frítíma þinn

Það að eyða tíma með fjölskyldum og vinum, eins og áður hefur komið fram, skapar góðan grunn fyrir líkamlega og andlega heilsu þína. Fólk sem fer oftar í frí lifir lengur og er ólíklegra til þess að þjást af hjartasjúkdómum og öðrum heilsufarslegum vandamálum.

 

Gættu þín á óhollri fitu

Þú vilt án efa reyna eftir fremsta megni að halda þig frá óæskilegri fitu, svo sem transfitu. Slíka fitu má gjarnan finna í snakki, sætabrauði, kexi og skyndibita. Rannsóknir hafa sýnt að mikil neysla á transfitu getur leitt til hjartasjúkdóma. Þess ber þó að geta að holl fita úr hnetum, eggjum, fiski, avókadó og sumum mjólkurvörum er mikilvægur hluti af hollu og góðu fæðuvali.

 

Fáðu þér einn drykk

Já, hér er um áfenga drykki að ræða en taktu þó eftir orðinu „einn“. Það að fá sér til dæmis eitt rauðvínsglas endrum og eins getur verið gott fyrir heilsu þína en áhrifin geta fljótt breyst í andhverfu sína ef drykkjunum fjölgar. Rannsóknir hafa sýnt að áfengi í hóflegu magni, til dæmis glas af rauðvíni, getur haft góð áhrif á hjarta- og æðakerfi, dregið úr streitu og jafnvel aukið kynorku.

 

Dragðu úr streitu og álagi

Öll finnum við fyrir streitu af og til og flest þekkjum við viðbrögðin þegar vöðvarnir spennast upp og hjartað slær hraðar og fastar. Ef þú hins vegar upplifir streitu dag eftir dag og átt erfitt með að ráða við hana getur það leitt af sér alvarleg heilsufarsleg vandamál, til dæmis háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma og jafnvel magasár. Reyndu því eftir fremsta megni að róa taugarnar, anda djúpt, hreyfa þig reglulega, hugleiða og koma röð og reglu á þitt daglega líf.

 

Dragðu úr sykurneyslunni

Flest okkar fá mun meiri sykur en við þurfum. Vandamálið með hvítan sykur er ekki einungis sú staðreynd að hann er með öllu næringarlaus og bætir ónauðsynlegum hitaeiningum við matinn okkar, heldur hafa rannsóknir enn fremur sýnt að sykur eykur líkur á hinum ýmsu lífsstílstengdu sjúkdómum. Auk þess veldur hann hröðu blóðsykurs skoti sem síðar fellur hratt niður, sem gerir okkur þreytt, svöng og pirruð.

 

Stundaðu líkamsrækt

Hreyfing eða líkamsrækt bætir heilsu þína, andlega líðan og gefur þér aukna orku. Þú þarft þó ekki að skrá þig í Reykjavíkurmaraþonið, það nægir að koma púlsinum í gang í 30 mínútur í senn á degi hverjum. Jafnvel göngutúr um hverfið eða garðvinna getur hjálpað þér að auka hjartsláttinn og koma brennslunni í gang. Þá getur hreyfing verið einstaklega skemmtileg í góðra vina hópi og því tilvalið að velja líkamsrækt sem hægt er að stunda með góðum vinum.

 

Haltu þér á hreyfingu

Ef þú starfar á skrifstofu, reyndu þá eftir fremsta megni að standa reglulega upp frá borðinu og ganga um. Þá væri tilvalið að fjárfesta í skrifborði sem hægt er að standa við. Með þessu móti heldur þú vöðvum og liðum líkamans í góðu standi og kemur í veg fyrir að stirðna upp eða, það sem verra er, þróa með þér önnur heilsufarsleg vandamál, svo sem bakvandamál, sykursýki eða of háan blóðþrýsting.

 

Borðaðu grænmetið þitt

Kál, spínat, brokkolí o.s.fr. – vertu viss um að borða nóg af grænu grænmeti. Það inniheldur fjöldan allan af lífsnauðsynlegum næringarefnum, til dæmis vítamín, steinefni og trefjar og inniheldur auk þess afar fáar hitaeiningar. Þessi einstaka blanda af næringarefnum tryggir eðlilega líkamsstarfsemi og gefur þér aukna seddu tilfinningu sem ætti allra jafna að halda þér frá sætindum og annarri óhollustu.

 

Fáðu nægan svefn

Svefnleysi getur almennt leitt til sykursýki, hjartasjúkdóma, offitu og þunglyndis, svo dæmi séu tekin. Fullorðið fólk ætti undir flestum kringumstæðum að sofa 7-9 klst á nóttunni, helst óslitinn svefn.

 

Njóttu útiverunnar

Sólarljósið og dagsbirtan hjálpar þér að stilla af þína náttúrulega líkamsklukku og gefur þér aukna orku og eykur vellíðan. Þá er sólin að sjálfsögðu besta uppspretta D-vítamíns í líkama þínum og því gott að eyða sem flestum stundum útivið yfir sumartímann.

This site is registered on wpml.org as a development site.