Jólin eru sannarlega tími ferðalaga fyrir marga, hvort sem það er innanlands eða utan landsteinanna. Fyrir þá sem koma til með að þurfa að ferðast tímunum saman í bíl og eru veikir fyrir í bakinu, er ágætt að hafa nokkur góð ráð í pokahorninu, ef til þess kemur að bakverkirnir láti á sér kræla, sem og auðvitað til þess að fyrirbyggja þá.
Hér að neðan gefur að líta á sjö ráð sem hjálpa þér vonandi að gera bílferðina bærilegri.
Komdu þér vel fyrir strax í byrjun ferðarinnar
Taktu þér góðan tíma til þess að koma þér vel fyrir um leið og þú sest upp í bílinn. Hinn minnsti pirringur eða sársauki sem þú finnur fyrir í byrjun ferðar gæti leitt til mikils sársauka síðar í ferðinni og því nauðsynlegt að tryggja þægindi frá fyrstu mínútu.
-
Fjarlægðu sem dæmi alla hluti úr vösunum. Það að geyma til dæmis veski í rassvösunum getur sett hryggsúluna í ójafnvægi og valdið sársauka. Hafðu bakið þétt upp við og samsíða stólbakinu.
-
Sittu með bakið beint og hnéin örlítið hærra en mjaðmirnar. Gættu þess að tylla hökunni eilítið inn á við þannig að þungi höfuðsins hvíli beint fyrir ofan hrygginn.
-
Ef þú ert sá sem keyrir bílinn, stilltu sætið vel af þannig að þú sitjir ekki of nálægt stýrinu en þó ekki of langt frá, því ef þú þarft að fara að teygja þig fram á við til þess að ná í stýrið, getur þú sett álag á hendur, axlir, bakið og úlnliðina.
Gott er þó að hafa í huga að engin ein stelling hentar öllum og því mikilvægt að finna það jafnvægi sem kemur þér best.
Stöðvaðu reglulega og stattu upp og hreyfðu þig
Það að sitja í sömu stellingunni í langan tíma er ávísun á bakverki þegar líða tekur á ferðina. Því er nauðsynlegt að stoppa sem oftast og hreyfa sig þannig að vöðvar og liðir stirðni ekki upp og valdi krampa, verkjum og öðrum óþægindum. Það er góð regla að keyra aldrei lengur en tvo tíma í senn og hreyfa sig að minnsta kosti í um 15 mínútur fyrir hverjar tvær klukkustundir. Þeir sem eru verulega bakveikir ættu að stoppa til að hreyfa sig á 30-60 mínútna fresti. Hreyfingin hjálpar þér að koma flóðflæðinu af stað sem kemur næringu og súrefni til vöðvanna.
Breyttu um stellingu og teygðu úr þér reglulega
Þegar þú hefur tækifæri til þess, reyndu að breyta um stellingu og hreyfa þig örlítið til í sætinu. Jafnvel bara tíu sekúndna teygjur og hreyfing í sætinu geta gert ferðina bærilegri. Reyndu að hafa það sem reglu að teygja úr þér og hreyfa þig til í sætinu á 15 mínútna fresti. Hreyfðu til fótinn þannig að þú fáir hreyfingu í öklanna og teygðu létt á kálfunum ef þú hefur tækifæri til.
Reyndu að leiða hugann að einhverju öðru
Það getur skipt sköpum að hafa eitthvað í bílnum sem hjálpar þér að hugsa um eitthvað annað en verkina og óþægindin sem fylgir bílferðinni. Hvort sem það er góður félagsskapur, tónlist í útvarpinu, gott hlaðvarp í eyrun, spil, tölvuleikir eða bók. Veldu eitthvað sem hjálpar þér að gleyma verkjunum meðan á ferðinni stendur og styttir mögulega ferðatímann á huglægan hátt.
Veittu bakinu stuðning með fótunum
Stuðningur við hryggsúluna byrjar í fótunum. Þú þarft að gæta þess að hafa fæturnar þétt við gólfið, á hörðu undirlagi. Þá þarftu að gæta þess að fæturnir séu í réttri hæð, þ.e. hnéin örlítið hærra en mjaðmirnar, þannig að þú leggir ekki of mikinn þrýsting á mjóbakið. Ef þú ert að keyra bílinn er upplagt að nota „cruise control“ ef slíkt er fyrir hendi. Þannig getur þú mögulega, á lengri bílferðum þar sem umferð er lítil, stigið með báðum fótum niður í gólf endrum og eins til þess að lágmarka álag á mjóbakið.
Notaðu hita- og kæli aðferðir ef það hjálpar
Mörgum þykir gott að annaðhvort kæla eða hita bakið á löngum ferðalögum.
-
Með kælingu getur þú dregið úr bólgum og bjúgmyndun. Þannig getur þú ferðast með kælibox sem veitir þér tækifæri til þess að nota kælipoka (með hléum) meðan á ferðinni stendur eða nota kælikrem.
-
Með hita meðferð getur þú aukið blóðflæðið og veitt vöðvunum slökun. Hægt er að notast við bæði hitapúða sem og hitakrem.
Ráðlagt er að nota hita eða kulda í um 15-20 mínútur í senn en gefa svo húðinni um 1-2 klst hið minnsta til þess að jafna sig áður en næsta umferð af kælingu/hita hefst.
Reyndu að lágmarka hossur og hristing
Holur í veginum, ójafn vegur og þar fram eftir götunum, getur sannarlega sett líkamsstöðuna úr jafnvægi og valdið ónotum hjá bakveikum meðan á ferðinni stendur. Reyndu því eftir fremsta megni að lágmarka allt slíkt, til dæmis með því að aka varlega, sitja ofan á púða eða nota annan stuðning undir rassinn sem og huga vel að bílnum sjálfum og gæta þess að nóg loft sé í dekkjunum, demparar séu í lagi o.s.fr.
Að lokum má nefna að fyrir suma getur verið nauðsynlegt að taka inn einhverskonar verkjatöflur til þess að draga úr verkjunum meðan á ferðinni stendur. Þá getur einnig verið gott að ráðfæra þig við sérfræðing, til dæmis kírópraktor eða sjúkraþjálfara, sem getur aðstoðað þig og veitt þér ráð varðandi ferðalagið og hvernig sé best fyrir þig að sitja og ferðast, með tilliti til bakverkjanna.
Þessi grein byggir á áður birtu efni af vef Spine-Health.