fbpx Skip to main content

Til eru fjölmargar leiðir sem miða að því að losa okkur við verki sem hrjá okkur dag frá degi. Flestir leita til kírópraktora, lækna, sjúkraþjálfara, nuddara eða annarra meðferðaraðila í þeirri von um að draga úr eymslum í líkamanum. Þá reyna margir að breyta lífsstíl sínum til hins betra með aukinni hreyfingu og hollara matarræði.

Þegar kemur að hollara matarræði er fyrsta verkefnið ávallt það að draga úr fæðutegundum sem ýta undir bólgumyndun og draga almennt úr heilbrigði líkamans, svo sem sælgæti, snakk, áfengi, unnar kjötvörur, ofneysla á brauði og þar fram eftir götunum. Á hinn bóginn eru hins vegar þær fæðutegundir sem allra jafna hafa getu til þess að draga úr verkjum með því að hamla bólgumyndun og auka blóðflæði, svo dæmi séu tekin.

Þessar verkjastillandi fæðutegundir má nálgast með auðveldum hætti í matvöru- og heilsuverslunum en hér að neðan má lesa um þær níu fæðutegundir sem eru hvað öflugastar þegar kemur að því að draga úr verkjum í líkamanum.

Engifer

Engifer er eflaust best þekkt fyrir þann eiginleika að draga úr ógleði og róa magann. Þessi fornfræga hitabeltisjurt er hins vegar talin gagnleg við hinum ýmsu verkjum, svo sem vegna gigtar, mígrenis sem og við tíðarverkjum. Engifer er talið hafa burði til þess að draga úr bólgum í líkamanum og þannig draga úr verkjum.

Bláber

Þessir litlu safaríku demantar náttúrunnar eru stútfull af næringarefnum sem draga úr bólgum og verkjum. Sömuleiðis geta aðrir ávextir sem ríkir eru af andoxunarefnum hjálpað, þar með talið jarðaber og appelsínur.

Graskersfræ

Þessi meinhollu fræ eru rík af magnesíum sem getur dregið úr hausverk og mígreni. Þá gæti aukið magn magnesíum  í líkamanum einnig dregið úr beinþynningu. Ef þú getur ómögulega borðað graskersfræ má finna ríkt magn af magnesíum í öðrum fæðutegundum, til dæmis möndlum, kasjúhnetum, dökku grænmeti og linsubaunum.

Lax

Laxinn er stútfullur af Omega-3 fitusýrum sem draga úr bólgumyndun en auk þess inniheldur lax fjölmörg önnur einstök næringarefni sem eru góð fyrir hjarta- og æðakerfi, liði og vöðva. Aðrar fiskitegundir sem innihialda ríkt magn af Omega-3 eru túnfiskur, sardínur og makríll.

Túrmerik

Ein tiltekin rannsókn á fólki sem þjáðist af slitgigt leiddi í ljós að þau sem tóku töflur sem innihéldu verulegt magn af túrmerik áttu auðveldar með að ganga um og hreyfa sig. Ef þú vilt prófa túrmerik er gott að bæta við svörtum pipar en hann hjálpar líkamanum að vinna úr því. Gott te með engifer, túrmerik, svörtum pipar og hunangi getur gert gæfumuninn.

Extra Virgin (jómfrúar) ólífuolía

Jómfrúar ólífuolían hefur verið ríkur partur af menningu landa við miðjarðarhafið svo árþúsundum skiptir. Í olíunni má finna næringarefni sem hjálpa til við að halda liðum líkamans mjúkum og góðum og koma í veg fyrir að brjóskið brotni niður. Gættu þess þó að elda olíuna við lágt hitastig þannig að hún glati ekki gildi sínu. Þá er auðvitað best að borða hana hráa, til dæmis út á salatið eða í grautinn.

Rauður pipar

Chillí, eða rauður pipar, er ríkur af efninu „capsaicin“ en það er efnið sem gerir chillí sterkt og er þekkt fyrir að draga úr verkjum og eymslum. Rannsóknir, sem eru þó skammt á veg komnar, sýna að neysla á sterkum chillí pipar geti dregið úr bólgumyndun í líkamanum. Þá getur brunatilfinningin sem þú finnur þegar þú borðar slíkan pipar platað heilann til þess að framleiða endorfín, sem aftur dregur úr verkjunum.

Mynta

Piparmyntu olía getur komið í veg fyrir krampa og þembu í þörmunum og almennt hjálpað til við að draga úr óþægindum í maga. Þannig gæti verið gott að fá sér piparmyntute til þess að róa magann og koma í veg fyrir slík óþægindi.

Rauðvín

Síðast en ekki síst er það rauðvínið góða. Þó vissulega sé mælst til þess að neyta þess í hófi, getur rauðvín dregið úr hinum ýmsu verkjum, þá sér í lagi í bakinu, þökk sé hinu virka efni „resveratrol“ sem finna má í miklu magni í rauðvíni.

Þessi grein byggir á áður birtu efni inn á vef WebMD.

This site is registered on wpml.org as a development site.