fbpx Skip to main content

Við þekkjum það öll að lífið getur verið erilsamt á köflum. Við erum stöðugt að takast á við ólíkar áskoranir sem kunna þó að hafa misjöfn og mismikil áhrif á okkur. Við eigum það til að velta okkur upp úr hlutum og eyða orku í þætti sem valda okkur streitu og að sama skapi draga úr hamingju okkar og gleði. Til er tilvitnun eða hálfgerð regla sem gengið hefur undir nafninu „5 by 5 rule“ eða 5×5 reglan, sem virkar á þann hátt að eyða ekki meira en fimm mínútum í að hafa áhyggjur af einhverju sem kemur ekki til með að skipta máli eftir fimm ár. Þessi regla er ágæt til þess að minna okkur á hversu oft við eigum það til að eyða verðmætri orku okkar í óþarfa áhyggjur.

nr 1 .png

Áður en lengra er haldið er gagnlegt að kynna til leiks hormón sem er okkur lífsnauðsynlegt og ber nafnið Kortisól (e. Chortisol). Kortisól er framleitt í nýrnahettum og hefur stundum gengið undir nafninu Stresshormón á íslensku en hlutverk þess er að viðhalda jafnvægi í líkamanum. Mikilvægt er að sporna gegn offramleiðslu Kortisóls sem og of lítillar framleiðslu Kortisóls. Lækkað Kortisól getur leitt af sér streitu, slappleika, þreytu og svima svo fátt eitt sé nefnt. Til lengri tíma getur hækkað Kortisól leitt af sér háan blóðþrýsting, raskanir á svefni, orkuleysi, beinþynningu og fleira.

Í grein sem birt var á heimasíðu Health Line er farið yfir náttúrulegar aðferðir til þess að auðvelda okkur að halda Kortisól magni í réttum hlutföllum í líkamanum. Eins og við ættum nú öll að vera farin að þekkja þá skiptir það lykilmáli að fá nægan svefn daglega en skortur á svefni hefur áhrif á orku, einbeitingu og skapið okkar. Einnig kemur fram í greininni um jafnvægi hormónsins, mikilvægi þess að ná inn hæfilegri hreyfingu og slökun daglega, eiga heilbrigð samskipti við fólkið í kringum okkur, innbyrða góða næringu, rétt vítamín og huga að andlegri heilsu, það getur jafnvel hjálpað að fá okkur gæludýr.

Ef til vill það allra mikilvægasta, til þess að halda Kortísóli okkar í jafnvægi, er að stuðla að hamingju og minnka að sama skapi streitu og stress. Hamingja getur þó verið mjög vítt hugtak. Það sem veitir einum manni hamingju þarf ekki endilega að veita öðrum hamingju. Það eru nokkrir þættir sem geta hjálpað flestum við að finna sína hamingju og draga úr streitu á sama tíma. Á heimasíðu Psych Central eru settar fram hugmyndir af leiðum til þess að auka hamingju okkar og draga úr streitu á einfaldan og náttúrulegan hátt og verða hér tekin saman nokkur atriði sem geta hjálpað okkur.

Finna gleðina í litlu hlutunum og lifa í augnablikinu:

Lífið er fullt af litlum augnablikum sem við gerum okkur ekki endilega grein fyrir að eru að eiga sér stað. Þessi litlu en mikilvægu augnablik eiga það til að falla í skugga stærri og viðameiri augnablika sem ef til vill hafa meiri áhrif á okkur hvað varðar stóru myndina, til dæmis lífsviðburði sem breytir stefnu okkar í lífinu. Hversdagslífið heldur þó alltaf áfram, uppfullt af litlum augnablikum. Það er einmitt í þessum litlu augnablikum sem er mikilvægt að kunna að finna hamingjuna og gleðina. Þegar við gefum okkur sjálfum leyfi til þess að vera glöð þá er auðveldara fyrir okkur að finna gleðina. Þessir litlu hlutir geta verið sem dæmi að njóta þess að sitja í heita pottinum í 10 mínútur, hlusta á útvarpið í bílnum, sitja við matarborðið með fjölskyldunni og svo framvegis. Að finna gleðina í litlu augnablikunum er spurning um að lifa í augnablikinu. Áhyggjur af fortíðinni eða kvíði vegna framtíðarinnar eru oftast nær tímasóun líkt og 5×5 reglan sem útskýrð var hér að ofan tók mið af. Þess í stað ættum við að reyna að breyta hugarfarinu og einbeita okkur að því að lifa í augnablikinu, hér og nú. Þegar við einbeitum okkur að núinu, þessu augnabliki, verðum við meðvitaðri um nærumhverfið okkar, öndun, líðan og eigum auðveldara með að finna þakklætið í litlu hlutunum. Sem dæmi, góðum vinnufélögum, fjölskyldu, heimili og svo framvegis. Fyrir vikið verðum við meira lifandi.

Þakklæti, bros og jákvæðni

Gott er að taka sér tíma og hugsa um það sem við erum þakklát fyrir. Allt frá litlu sjálfsögðu hlutunum, líkt og farið var í hér á undan, til þeirra sem stærri eru líkt og fjölskyldan. Síðasta verkefni dagsins gæti til dæmis verið að hugsa þrjá til fimm hluti sem við erum þakklát fyrir þann daginn. Á þann hátt förum við þakklátari að sofa og leggjum línurnar fyrir komandi dag.

Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á það að bros leiðir af sér vellíðan og hamingju á sama tíma og það dregur úr streitu og kvíða. Að byrja alla daga með bros á vör hefur góð áhrif á komandi verkefni dagsins. Að sama skapi verður auðveldara fyrir okkur að takast á við daginn með jákvæðu hugarfari en jákvætt hugarfar hefur einnig verið sannað sem aukin hamingja og vellíðan. Það krefst æfingar og viljastyrks að yfirstíga ótta og tækla hann með jákvæðu hugarfari en hér snýst þetta um æfingu og að vera meðvituð um okkur sjálf og okkar viðhorf. Markmiðið er að ná að sleppa takinu af hugsunum um vonbrigði og svekkelsi.

Bros er auðvitað bara lítið inngrip í langtíma hamingju en fyrst eitthvað svo einfalt, líkt og að brosa, getur glatt okkur sjálf og aðra (bros er smitandi og spennulosandi), jafnvel þó svo um er að ræða í stutta stund, þá ættum við öll að tileinka okkur að gera meira af því. Margt smátt gerir eitt stórt!

Samvera, samskipti og nánd

Það tengslanet sem er í kringum okkur daglega skiptir miklu máli þegar kemur að hamingju og vellíðan. Góð samskipti og félagsleg tengsl, hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnufélagar eða æfingafélagar er mikilvægt tól til þess að minnka streitu. Að deila vandamáli eða fá ráð og annað sjónarhorn á erfiðar aðstæður frá góðum vini getur skipt sköpum í streitu og vanlíðan. Að eignast vini er aldrei of seint, góð vinátta getur bæði orðið til á eldri árum en auðvitað er æskuvinátta einnig mjög dýrmæt. Líkamleg nánd, til dæmis í formi faðmlaga, við þá sem okkur þykir vænt um getur einnig hjálpað við streitulosun.

nr 2.png

Hreyfing og hvíld

Hreyfing, sama í hvaða formi hún er, hefur losandi áhrif á streitu. Allt frá léttri göngu yfir í erfiða fjallgöngu. Við hreyfingu losnar spenna. Að sama skapi er hvíld og slökun ekki síður mikilvæg. Slökun getur verið í fjölbreyttri mynd, til dæmis öndunaræfingar, hugleiðsla, jóga, djúpar teygjur, nudd eða einfaldlega að hlusta á tónlist. Gott markmið er að ná inn hreyfingu, súrefni og slökun daglega.

Það er mikið til undir okkur sjálfum komið að leyfa okkur að vera hamingjusöm. Auðvitað hefur fólkið í kringum okkur og nærumhverfið áhrif á gleði og vellíðan en lítið gerist án þess að við sjálf ákveðum að leyfa okkur að vera hamingjusöm. Að við séum meðvituð um streitu og streituvaldandi þætti í okkar lífi er fyrsta og mikilvægasta skrefið í því að takast á við það. Okkar besta aðferð til þess að auka hamingju og draga úr streitu er að rækta okkur sjálf með því að vera þakklát fyrir það sem við höfum og njóta augnabliksins. Það gerum við meðal annars með því að brosa, sinna áhugamálum, eiga góð samskipti og félagsleg tengsl við okkar nánustu.

 

Í greinina var notast við heimildir af heimasíðum Health Line og Psych Central.

This site is registered on wpml.org as a development site.