Þegar þú hefur lokið við erfiða æfingu og æfingafatnaðurinn er gegnvotur af svita er ekkert eðlilegra en að hoppa í heita og góða sturtu. Heita vatnið eykur blóðflæðið og hjálpar þér að slaka á og róa þreytta vöðva líkamans. Það getur hins vegar verið álíka góð ástæða fyrir því að taka einnig kaldar sturtur eða kalt bað.
Af hverju að taka kaldar sturtur eða fara í kalt bað?
Öll þekkjum við það ferli sem á sér stað þegar meiðsli eru annars vegar en þá er brugðið á það ráð að setja kælingu strax til þess að draga úr bólgu. Þegar um kaldar sturtur og köld böð er að ræða er í raun um svipað ferli að ræða, þvert yfir allan líkamann. Þegar þú sest ofan í kalt bað eða stígur inn í kalda sturtu hægir það á hjartslættinum, dregur úr bólgumyndun og hjálpar vöðvum líkamans að jafna sig fyrr eftir langa og stranga æfingu.
Í rannsókn einni voru framkvæmdar 17 tilraunir á yfir 360 manns þar sem þátttakendur annars vegar hvíldu sig eftir æfingar eða fóru í kalt bað beint eftir átökin. Æfingarnar fólu í sér lyftingar, hjólreiðar og hlaup. Rannsóknin leiddi í ljós að á 1-4 dögum eftir æfingarnar voru þeir sem fóru í kalt bað mun fljótari að jafna sig samanborið við þá sem einungis hvíldu sig. Í rannsókninni var kalda vatnið um 10-15°C og lágu þátttakendur allra jafna í vatninu í 24 mínútur. Sumir þátttakendanna fóru í gegnum svokallað „contrast immersion“ sem fól í sér að skiptast á að fara í kalt og heitt vatn. Ekki var hægt að sýna fram á hins vegar að þeir þátttakendur sem skiptust á að fara í heit og kalt bað væru fljótari að jafna sig en aftur á móti telja margir sérfræðingar að slíkt geti hjálpað til við að auka súrefni og næringarefni til líffæra líkamans og hvetji jafnframt til losunar á óæskilegum efnum úr líkamanum.
Aðrar rannsóknir á þessu tiltekna málefni hafa sýnt að kalt vatn geti aukið þol líkamans gegn streitu og jafnvel sjúkdómum. Sem dæmi má nefna rannsókn sem náði til 10 þátttakenda sem allir stunduðu sund í köldu vatni og sýndi fram á að viðvera þeirra í kalda vatninu jók framleiðslu glútaþíons, sem er eitt allra öflugasta andoxunarefni líkamans og ver frumur hans gegn sindurefnum. Þessi sama rannsókn leiddi einnig í ljós að kalt vatn getur dregið úr líkum á hjartasjúkdómum, offitu, sykursýki og vandamálum tengdum lifrinni og nýrunum.
Heilt yfir benda flestar rannsóknir til þess að köld böð eða kaldar sturtur hafi einhverskonar heilsufarslega ábata og ekki sé vitað um alvarlegar hliðarverkanir af þessari vinsælu iðju. Að því sögðu skal ávallt hafa skynsemina að leiðarljósi. Það gefur auga leið að þegar þú leggst í kalt bað fær líkami þinn ákveðið áfall, ef svo má að orði komast og það getur tekið hann tíma að venjast slíkri iðju. Því skal gæta þess að hafa vatnið ekki of kalt til þess að byrja með og vera stutt í einu þannig að líkaminn venjist hægt og rólega hitastigi vatnsins.
Þessi grein byggir á annarri grein sem birtist á vef Dr. Mercola