fbpx Skip to main content

Nýtt ár er senn að ganga í garð og margir eflaust sest niður síðastliðna daga og hugað að markmiðum og óskum fyrir nýja árið. Eflaust eru margir þarna úti að huga að sömu markmiðum, þ.e. að vilja bæta heilsuna, þá bæði andlega og líkamlega. Aðrir beina athyglinni að menntun eða starfsframa og sumir einsetja sér að eyða meiri tíma með fjölskyldunni og þar fram eftir götunum. Flóran er sannarlega fjölbreytt en öll eiga þessi markmið sér eitt sameiginlegt. Réttara sagt, það er einn lykilþáttur sem liggur til grundvallar því að öllum þessum markmiðum verði náð:

Við þurfum að halda taktinum.

Að halda takti

Við getum ímyndað okkur að við séum að horfa á tvo einstaklinga dansa Tango. Parið byrjar býsna vel og hvert spor virðist þaulæft og skipulagt. Fyrir vikið verður dansinn flottur og það geislar af parinu. Hægt og rólega byrja þau að missa taktinn. Þau taka eitt feilspor hér og eitt feilspor þar. Þau byrja að glata einbeitingunni, skammast út í hvort annað og að endingu gefast þau upp. Atriðið klikkar og þau strunsa út af gólfinu. Algjört klúður!

Líkt og í Tango þurfa ákveðnir hlutir í okkar lífi að vera í takti. Þegar við setjum okkur markmið um að ætla að komast í betra líkamlegt form, sem dæmi, er takturinn fólginn í því að við hreyfum okkur jafnt og þétt yfir árið. Líkt og hjá dansparinu hér að ofan byrjar nýja árið oft vel þegar kemur að hreyfingu, stútfullir líkamsræktarsalir eru til marks um það. Hægt og rólega koma svo feilsporin, fólk hættir að mæta og að endingu gefst það upp. Þeir sem halda takti vita hins vegar að það þarf ekki að fara af stað með offorsi. Markmiðið er stærra og meira en það, langhlaup en ekki spretthlaup. Það sættir sig við feilsporin þegar þau koma en halda ótrauð áfram. Þau halda takti.

Það sama má segja um mataræðið. Margir falla í þá gryfju að taka allt út sem þeim þykir gott, svo sem sykur og kolvetni. Það gengur upp í nokkrar vikur, jafnvel mánuði en á endanum gefast margir upp og byrja að gúffa í sig aftur líkt og þeir séu að vinna upp allt góðgætið sem það fór á mis við. Þeir sem kunna að halda takti hér, líkt og í hreyfingunni, setja sér raunhæf markmið í mataræðinu. Þeir vita að það þarf ekki að taka allt út og lifa eins og sársvangur maður á eyðieyju. Það heldur sig við hollt mataræði en engar öfgar. Þannig verðlaunar það hollt mataræði með kræsingum sem það girnist hér og þar.

Það sama má segja um öll önnur markmið sem við setjum okkur. Ef við höldum ekki taktinum á leið okkur að settum markmiðum, er þeim mun líklegra að markmiðum verði ekki náð. Á heildina litið vitum við lika innst inni að lífið verður þeim mun betra þegar við höfum hlutina í rútínu.

En hvaða hluti í okkar lífi viljum við að séu í góðum takti?

Sem dæmi um mikilvæga þætti sem ráðlagt er að hafa í góðum takti:

·       Hreyfing og líkamsrækt

·       Mataræði

·       Hugleiðsla og núvitund

·       Svefn

·       Samverustundir með fólkinu okkar

·       Vinna og/eða skóli

·       Komur til kírópraktors

 

Hreyfing og líkamsrækt

Reyndu að hreyfa þig 4-6 sinnum í viku og finndu út hvaða hreyfing hentar þér best. Þá getur verið gott að hafa hreyfinguna fjölbreytta en þannig er líklegra að þú haldir takti og gefist ekki upp. Sem dæmi er hægt að stunda líkamsrækt eða CrossFit í bland við sund, göngur og útivist. Þá getur verið gott að eiga æfinga félaga sem heldur þér við efnið og hjálpar þér þannig að halda taktinum.

Mataræði

Þegar mataræðið er annars vegar getur oft reynst krefjandi að halda takti. Það er þó einmitt með því mikilvægara sem við gerum þar sem mataræðið er undirstaða heilsu okkar. Hér er þó ekki verið að kalla á neinar öfgar, eins og áður segir, þar sem öfgarnar eru einmitt andstæðan við taktinn. En reynum að velja hollt fæði sem inniheldur góð prótín, trefjar og holla fitu. Sem dæmi má nefna fisk, kjöt, grænmeti, ávexti, fræ, hnetur, hafra, egg og skyr. Gott getur verið að halda matardagbók og skipuleggja vikuna fyrirfram, til þess að einfalda okkur lífið og skipulagið.

Svefn

Svefninn er gríðarlega mikilvægur þegar kemur að heilsunni. Því er nauðsynlegt að halda taktinum þegar kemur að svefnvenjunum okkar. Temjum okkur að fara að sofa á sama tíma heilt yfir. Sleppum því að skoða símann rétt fyrir svefninn. Höldum herberginu tiltölulega köldu og dimmu og hugum að mataræði og hreyfingu til þess að tryggja að svefninn verði sem bestur.

Samverustundir með fólkinu okkar

Það er nauðsynlegt að eiga dýrmætar samverustundir með fjölskyldu og/eða vinum. Það eru einmitt þessar stundir sem geta gefið okkur hvað mest og nært okkur andlega. Slíkar samverustundir ættu því að vera hluti af taktinum okkar, þ.e. að skipuleggja og taka frá tíma með fólkinu okkar með reglubundnum hætti. Það kann að hljóma skrýtið að skipuleggja slíkt í þaula en ef við gerum það ekki gæti tímanum hreinlega fleytt áfram án þess að við séum að rækta mikilvægustu samböndin í okkar lífi.

Vinna og skóli

Líkt og með hreyfinguna og mataræðið er klassískt að setja allt á fullt í vinnu og skóla nú í janúar mánuði sem svo fjarar hægt og rólega út þegar líða fer að vori. Ástæðan er sú að við förum af stað með offorsi og ætlum að sigra heiminn. Við sigrum hins vegar ekki heiminn nema að við náum að halda takti og dampi. Skipuleggjum okkur í vinnunni og skólanum, sækjum tímastjórnunarnámskeið sem dæmi. Skilgreinum persónuleg markmið og undirbúum svo ferðalagið þannig að það verði raunsætt og takturinn í góðu samræmi.

Komur til kírópraktors

Það að venja komur okkar til kírópraktors getur gert magnaða hluti fyrir heilsuna okkar. Í meðferð á Kírópraktorstöðinni er leitast við að leiðrétta stöðu hryggjarsúlunnar og líkamsstöðu viðkomandi, minnka þrýsting/áreiti á taugar, liðka við stirða liði og annað sem tryggir eðlilegt flæði taugaboða, hreyfingar og virkni í líkamanum. Í byrjun meðferðar getur þannig verið mikilvægt fyrir viðkomandi að koma 1-3 í viku, allt eftir alvarleika veikindanna/verkjanna. Þegar við færum svo viðkomandi í átt að betri heilsu fækkar skiptunum og að endingu, þegar viðkomandi er farinn að upplifa betri heilsu og bætt lífsgæði, er oft nóg að mæta 2svar sinnum í mánuði, eða sjaldnar, til þess að viðhalda heilsunni. Það er einmitt mergur málsins; að mæta reglulega og þannig viðhalda árangrinum og tryggja stöðuga bætingu. Hér er því lykilatriði að halda taktinum, okkur til heilsubóta.

Haltu taktinum á árinu 2024 – og þar með heilsunni.

Þegar öllu er á botninn hvolft er best að skilgreina hvað það er sem við viljum áorka og setja það í forgang. Við þurfum að áætla tíma og orku í markmiðin og setja upp langtíma plön. Reynum sem dæmi að festa tíma fyrir hreyfingu í hverri viku. Höldum matardagbók og hugum að því sem við látum ofan í okkur. Reynum að sofna á vissum tíma og sömuleiðis vakna á sama tíma dag hvern. Setjum niður tíma sem við eyðum með fólkinu okkar. Festum heimsóknir til kírópraktorsins okkar í hverjum mánuði og höldum okkur þannig heilsumegin í lífinu, langt fram eftir aldri.

Höldum takti á nýju ári!

This site is registered on wpml.org as a development site.