Hlaup eru einstaklega skemmtileg og holl hreyfing sem er til þess fallin að veita okkur aukna líkamlega og andlega heilsu. Hlaup eru sömuleiðis einstaklega hentug þar sem það má sníða þau að þörfum hvers og eins. Sem dæmi eru margir sem gefa sig alla í hlaupin, taka þátt í maraþoni o.s.fr. Aðrir láta styttri vegalengdir duga og eru ef til vill ekki jafn uppteknir af vegalengdum og tímaskráningu.
Hvort sem þú tilheyrir fyrri eða seinni hópnum, þá er mikilvægt að huga vel að líkamanum þegar kemur að hlaupum, til þess að forðast meiðsli og önnur óþægindi, sem og til að hámarka árangur þinn af hlaupunum.
Í þessar grein förum við einmitt yfir þetta tvennt, þ.e. hvernig kírópraktík getur hjálpað þér að lágmarka hættu á meiðslum og hámarka árangur.
Líkamsstaða og jafnvægi
Eðlileg lögun hryggjarsúlunnar sem og jafnvægi í hreyfifærni og taugakerfi líkamans er algjört lykilatriði fyrir alla þá sem stunda íþróttir, og þar með talið hlaupara. Með kírópraktík er hægt að koma auga á hryggvandamál, svo sem óeðlilega líkamsstöðu, og leiðrétta líkamsstöðuna. Með réttri líkamsstöðu kemst líkaminn í jafnvægi sem kemur í veg fyrir skekkjur og skerta hreyfigetu. Þannig er hægt að tryggja betri afköst og bætta hlaupatækni sem aftur hjálpar hlauparanum að hámarka árangur og endurheimt.
Fyrirbyggja og draga úr meiðslahættu
Eins og með aðrar íþróttir þá geta hlauparar átt á hættu að meiðast. Algengustu meiðslin eru tognanir, beinhimnubólga, hásinbólga og hnémeiðsli. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er vel hægt að draga úr meiðslahættu og þar kemur kírópraktík sterk inn. Eins og áður segir getur kíróprakík hjálpað hlaupurum að byggja upp góða líkamsstöðu og jafnvægi. Með sterkri líkamsstöðu er hægt að lágmarka það álag sem myndast á liði og vöðva við hlaup. Þá er kírópraktík í eðli sínu hönnuð til þess að hámarka virkni taugakerfisins og vernda viðkvæmt miðtaugakerfið, með réttri lögun hryggjarsúlunnar. Þannig getur kírópraktík og hnykkingar komið í veg fyrir klemmdar taugar, til dæmis í mjóbaki sem annars getur leitt til verkja í hnjám, settaugabólgu, verkja í mjóbaki og sinadráttar.
Þá hafa kírópraktorar mikla sérþekkingu þegar kemur að virkni líkamans og samspili ólíkra þátta. Þannig geta kírópraktorar veitt leiðbeiningar um æfingar og teygjur, sem hjálpa einstaklingnum að byggja upp styrk og leiðleika sem dregur enn frekar úr líkum á meiðslum.
Aukinn árangur
Kírópraktík getur sannarlega veitt hlaupurum forskot þegar kemur að því að auka árangur og hámarka afköst líkamans. Með reglulegum heimsóknum til kírópraktors er hægt að tryggja eðlilega virkni taugakerfisins. Kírópraktorar á Kírópraktorstöðinni nota sem dæmi taugaskanna til þess að mæla taugaboð frá mænu út til vöðva og líffæra líkamans og geta þannig metið með mikilli fullvissu hvaða annmarkar eru á taugakerfi og taugaboðum hverju sinni.
Þegar taugakerfið starfar með eðlilegum hætti er taugaflæði líkamans í jafnvægi, sem hámarkar getu líkamans til þess að ná árangri. Þannig getur sem dæmi eðlileg virkni taugakerfisins bætt viðbragðsflýti hjá hlaupurum, eflt virkni vöðva og bætt hreyfiflæðið heilt yfir. Það skilar sér að sjálfsögðu í aukinni getu til að bæta tíma og ná betri árangri.
Aukin hreyfifærni
Það að tryggja góða hreyfifærni og liðleika í líkamanum er gríðarlega mikilvægt fyrir hlaupara. Kírópraktorar nota allskyns aðferðir til þess að tryggja aukinn liðleika og hreyfifærni í líkamanum. Slíkar aðferðir koma hlaupurum einstaklega vel þar sem aukinn liðleiki og lágmörkun á vöðvaspennu bæði eykur árangur og dregur úr líkum á meiðslum.
Hraðari endurheimt
Það að hlaupa langar vegalengdir á góðum hraða getur sannarlega tekið sinn toll á líkamann. Undir miklu álagi getur skapast mikil þreyta sem gerir líkamanum erfiðara fyrir að ná endurheimt. Með kírópraktík er hins vegar hægt að flýta fyrir endurheimt með því að draga úr bólgum, bæta blóðrásina og efla náttúrulega endurheimt líkamans, þ.e. hjálpa líkamanum að lækna sig sjálfan. Að auki geta kírópraktorar veitt ráðgjöf um næringu, teygjur og æfingar til að styðja við endurheimt og almenna vellíðan.
Þegar allt kemur til alls
Þeir sem stunda hlaup og sér í lagi þeir sem stunda hlaup af miklum krafti, ættu að huga vel að líkamlegri heilsu og reyna að fyrirbyggja meiðsli og mæta því álagi sem fylgir íþróttinni. Með kírópraktík að vopni er einmitt hægt að ná því markmiði, þ.e. með því að tryggja eðlilega starfsemi taugakerfisins, byggja upp liðleika og aukna hreyfifærni, skapa jafnvægi og tryggja eðlilega legu hryggjarsúlunnar. Þannig næst besti árangurinn fyrir hlaupara.