Skip to main content

„Réttu úr þér!“ – „Sittu bein í baki.“ Hljóma þessir frasar kunnuglega? Við höfum eflaust öll heyrt þá einhvern tímann á lífsleiðinni. Þeir minna óneitanlega á æskuárin, þegar foreldrar okkar hvöttu okkur til þess að sitja með bakið beint við matarborðið. Við segjum þetta svo gjarnan við börnin okkar í dag, jafnvel oftar en einu sinni við unglinginn á heimilinu sem hangir með höfuðið niður í símann í leit að næsta TikTok myndbandi.

Slíkir frasar eru þó ekki einungis í menningu okkar upp á punt. Það er ástæða fyrir því að við ættum að hvetja börnin okkar, sem og annað fullorðið samferðafólk okkar, að rétta úr sér og viðhalda góðri líkamsstöðu. Ástæðan er í raun afar einföld:

Það að rétta úr okkur og viðhalda góðri líkamsstöðu getur haft bein áhrif á sjálfstraust okkar.

Þessi staðreynd er að mörgu leyti mögnuð en fjölmargar rannsóknir styðja við þessa fullyrðingu. Sem dæmi má nefna eina rannsókn þar sem þátttakendur voru beðnir um að lýsa sjálfum sér, annars vegar sitjandi bein í baki með góða líkamsstöðu og hins vegar sitjandi með bogið bak og með „veikari“ líkamsstöðu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þeir sem sátu með sterka líkamsstöðu gáfu sjálfum sér töluvert hærri einkunn, þ.e. leiddi til betra sjálfsmats, heldur en þeir sem voru með veika líkamsstöðu.

Hvernig hefur líkamsstaðan áhrif á heilsuna okkar

Líkamsstaðan okkar hefur ekki bara með líðan okkar að gera, hún getur haft mikil áhrif á líkamlega heilsu okkar. Þannig getur góð líkamsstaða hjálpað okkur að:

  • Halda beinum og liðum í réttri stöðu þannig að við séum að nota vöðva líkamans með réttum hætti.

  • Koma í veg fyrir álag á liðamót og getur þannig virkað sem forvörn gegn til dæmis liðagigt.

  • Draga úr streitu og álagi á hryggjarsúluna. Tryggir að við festum ekki hryggjarsúluna í óeðlilegri stöðu sem seinna getur leitt til hinna ýmsu stoðkerfisvandamála.

  • Draga úr þreytu í líkamanum. Með góðri líkamsstöðu notum við líkamann rétt og erum þannig ekki að ofgera vöðvum og liðum líkamans.

Svona getum við öðlast sterka líkamsstöðu og þar með aukið sjálfstraust.

Það eru nokkrir lykilþættir sem geta hjálpað okkur að byggja upp og viðhalda góðri líkamsstöðu.

  • Hugaðu vel að líkamsstöðunni heilt yfir í gegnum allan daginn. Til dæmis þegar þú stendur, þegar þú situr við skrifborðið eða í sófanum, við heimilisþrifin, í bílnum o.s.fr.

  • Vertu á hreyfingu. Hverskonar æfingar og hreyfing getur hjálpað þér að bæta líkamsstöðuna og viðhalda henni. Oft getur reynst gott að framkvæma æfingar sem leggja sérstaka áherslu á kjarnavöðva líkamans og líkamsvitund. Má þar nefna jóga sem gott dæmi. Hér má sem dæmi nálgast 6 góðar æfingar sem hjálpa okkur að styrkja líkamsstöðuna og hægt er að framkvæma hvar sem er.

  • Viðhaltu góðri líkamsþyngd. Ofþyngd getur sett mikla pressu á liðamót og veikt kjarnavöðva líkamans. Slíkt getur haft slæm áhrif á grindina og hryggjarsúluna sem aftur leiðir af sér slæma líkamsstöðu.

  • Gakktu í þægilegum og góðum skóm. Háir hælar til dæmis eru ekki æskilegir þar sem þeir geta haft þau áhrif að viðkomandi breytir göngulagi sínu sem setur álag á vöðva og liðamót. Það getur svo valdið því að við beitum líkamanum vitlaust og þar með skekkjum eðlilega líkamsstöðu okkar.

  • Hugaðu að vinnuaðstöðunni. Léleg vinnuaðstaða, til dæmis skrifborð í rangri hæð, eða eldhúsbekkurinn sem þú eldar við, getur sett okkur í slæma líkamsstöðu sem, ef ekki er leiðrétt, getur skaðað líkamsstöðuna okkar.

Þegar við stöndum ættum við að:

  • Standa bein í baki

  • Halda öxlunum aftur

  • Draga inn naflann

  • Setja þyngdina á fæturna

  • Halda höfðinu beinu

  • Láta hendurnar síga náttúrulega niður eftir síðunum

  • Standa með fætur í axlarbreidd

Þegar við sitjum er gott að:

  • Skipta reglulega um stöðu

  • Standa reglulega upp og ganga

  • Teygja rólega á vöðvunum

  • Ekki krossleggja fætur

  • Tryggja að fæturnir snerti gólfið

  • Slaka á í öxlunum

  • Halda olnbogunum upp að líkamanum

  • Gæta að stuðningi við bakið

  • Gæta að stuðningi við mjaðmir, rass og læri. Lærin eiga að vera samsíða gólfinu

Að byggja upp og viðhalda góðri líkamsstöðu með kírópraktík

Það að venja komur okkar til kírópraktors getur gert magnaða hluti fyrir líkamsstöðuna okkar. Í meðferð á Kírópraktorstöðinni er leitast við að leiðrétta stöðu hryggjarsúlunnar og líkamsstöðu viðkomandi, minnka þrýsting/áreiti á taugar, liðka við stirða liði og annað sem tryggir eðlilegt flæði taugaboða, hreyfingar og virkni í líkamanum. Allt þetta hjálpar okkur að viðhalda líkamsstöðunni og byggja upp kjarnavöðva líkamans.