Það er þekkt staðreynd að þegar þú reynir að létta þig berst líkaminn að einhverju leyti gegn því. Önnur þekkt staðreynd er sú að í fyrstu reynist okkur auðvelt að missa mörg kíló en eftir því sem líða tekur á átakið verða aukakílóin óbugandi og jafnvel kemst fólk á þann stað að vonlaust virðist að missa fleiri kíló en það hefur gert.
Hvar svo sem þú er staddur eða stödd í ferlinu er uppgjöf ekki valkostur. Það gætu verið vissar ástæður fyrir því að þér gengur illa að losa þig við aukakílóin og hér að neðan má sjá nokkrar algengar ástæður sem fólk gjarnan áttar sig ekki á.
Renndu yfir listann og sjáðu hvort eitthvað af þessu eigi við um þig. Það kann að hjálpa þér að ná settum markmiðum þínum.
1. Þú fókuserar of mikið á megrunarkúra
Þeir eru eins margir megrunarkúrarnir eins og þeir eru mis árangursríkir. Heilt yfir sýna rannsóknir að þeir sem taka megrunarkúra oft og títt bæta jafnvel meira á sig þegar til lengri tíma er litið. Það gæti því verið góð hugmynd að nálgast verkefnið, ekki út frá megrunarsjónarmiðum, heldur út frá því markmiði að verða heilsusamlegri, í betra líkamlegu formi og hamingjusamari í eigin líkama. Leggðu því áherslu á að rækta líkamann en ekki vannæra hann. Með öðrum orðum, ekki neita þér um mat heldur veldu þess í stað að borða hollan mat sem gefur þér aukna orku og hjálpar þér þannig að auka hreyfinguna og styrkja líkama þinn heilt yfir. Með þeirri nálgun munu aukakílóin hverfa af þér, jafnt og þétt yfir lengra tímabil.
2. Þú setur þér óraunhæf markmið
Þegar við hefjum ákveðið ferli með það að markmiði að losa okkur um svo og svo mikið af aukakílóum er mjög mikilvægt að setja raunhæf markmið. Þó svo að það sé tiltölulega algengt að við missum aukakílóin hratt í byrjun ferlisins eru fáir sem geta haldið út að missa meira en hálft til eitt kíló á viku. Það er því mikilvægt að átta sig á því, hvað sé raunhæft að missa mörg kíló, áður en við höldum af stað í átt að settum markmiðum. Ef við ætlum okkur of stóra hluti í byrjun, sem við náum svo engan veginn, er hætt við því að við gefumst upp og förum aftur í sama gamla farið sem kom okkur á þann stað sem við finnum okkur á í byrjun ferlisins. Hafðu það líka hugfast að ekki allir geta litið út eins og vaxtaræktar módel og að þær myndir sem þú gjarnan sérð á samfélagsmiðlunum eru mögulega unnar í þar til gerðum myndvinnsluforritum sem eru til þess fallin að láta viðkomandi líta betur út en raun ber vitni.
3. Þú borðar með skertri athygli og án núvitundar
Tækni sem heitir á enskri tungu „mindful eating“, þ.e. að borða í nokkurskonar núvitundar ástandi, er af mörgum talin ein besta leiðin til þess að missa aukakíló og tryggja heilbrigðari líkama og aukið vellíðan. Þessi tækni felur í sér að slaka á, borða matinn án allrar truflunar, njóta hvers bita, finna lyktina af matnum, bragðið og hlusta á líkamann sem sendir skilaboð til heilans um að hann sé búinn að borða sig fullsaddann. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að slík nálgun getur hjálpað þegar kemur að því að losna við aukakílóin og koma í veg fyrir ofát (e. binge eating).
Hér eru nokkur góð ráð sem hjálpa þér að borða með fulla athygli:
· Sestu niður við matarborðið bara með matinn þinn, enga síma, sjónvörp eða aðrar truflanir
· Borðaðu rólega og tyggðu matinn vel. Hugaðu að bragðinu, litnum á matnum, lyktinni og áferðinni.
· Þegar þú finnur að þú ert að verða södd/saddur, drekktu þá vatn og hættu að borða.
4. Þú velur ruslfæði fram yfir holla fæðu
Það er ekki bara nóg að draga úr þeim kaloríufjölda sem þú borðar, þó svo að það hjálpi alltaf líka, heldur þarft þú líka að huga að því hvað þú borðar. Þannig eru gæði fæðunnar jafn mikilvæg og magn hennar. Þegar þú borðar holla fæðu tryggir þú upptöku mikilvægra næringarefna líkamans sem þú allra jafna færð ekki úr hinu týpíska ruslfæði.
5. Þú hreyfir þig takmarkað
Þegar kemur að því að létta af sér aukakílóum er mikilvægt að hreyfa sig reglulega og stunda einhverskonar líkamsrækt. Þá getur verið gott að blanda saman brennslu æfingum í takt við æfingar sem reyna meira á vöðvastyrk, til dæmis að lyfta lóðum. Þannig viðheldur þú vöðvamassanum meðan á megruninni stendur og hjálpar líkamanum að viðhalda góðri brennslu og almennu heilbrigði.
6. Þú drekkur of mikið alkóhól
Ef þér finnst gott að fá þér einn til tvo drykki af og til en vilt eftir sem áður missa aukakílóin, skaltu velja áfenga drykki á borð við gin eða vodka, blandað út í sykurlausa gosdrykki, til dæmis sódavatn með bragðefnum. Bjór, vín og aðrir drykkir sem innihalda sykur hjálpa svo sannarlega ekki þegar kemur að því að losa þig við aukakílóin. Þá er alkóhól eitt og sér nokkuð ríkt af kaloríum og í of miklu magni getur það hægt á brennslu líkamans, haldið þér frá góðri rútínu og komið í veg fyrir að þú hreyfir þig og viðhaldir heilbrigðum lífsstíl. Haltu áfenginu því í algjöru lágmarki.
7. Þú drekkur of lítið af vatni
Það er nauðsynlegt að drekka vel af vatni til þess að halda líkamanum við efnið og tryggja eðlilega starfsemi sem hjálpar þér að losna við aukakílóin. Þá hafa rannsóknir sýnt að þeir sem drekka hálfan líter af vatni, hálftíma fyrir máltíð, ná mun betri árangri þegar kemur að þyngdarstjórnun.
8. Þú sefur ekki nægilega vel
Góður nætursvefn er lykilforsenda líkamlegrar og andlegrar heilsu okkar og því mikilvægur þáttur þegar kemur að þyngdarstjórnun. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að þeir sem sofa illa á nóttunni og fá sömuleiðis ekki nægan svefn, eru mun líklegri til þess að þjást af offitu og öðrum heilsutengdum vandamálum.
9. Undirliggjandi sjúkdómar eða aðrir læknisfræðilegir þættir gera þér erfiðara fyrir
Því miður geta oft verið undirliggjandi ástæður, sem við höfum oft litla stjórn á, fyrir því að okkur tekst illa að losna við aukakílóin. Þá er átt við ástæður sem tengjast erfðum eða áunnum sjúkdómum og öðrum læknisfræðilegum ástæðum. Sem dæmi um slíkt má nefna vanvirkan skjaldkirtil eða aðra erfðafræðilega sjúkdóma sem tengjast efnaskiptum og brennslu líkamans. Ef þú hefur grun um eitthvað slíkt er ráðlagt að leita til læknis og fá úr því skorið sem og þá hjálp sem þú þarft á að halda. Þá geta sum lyf einnig gert það að verkum að við bætum á okkur aukakílóum sem og eigum erfitt með að losna við þau.
10. Þú borðar of mikið af kolvetnum
Þó svo að þú farir ekki á ketó fæði er eftir sem áður gott að skoða hvort kolvetnin séu e.t.v þinn versti óvinur. Ef þú ert í ofþyngd og/eða með hæga brennslu ættir þú mögulega að skoða hvort þú þurfir að draga úr neyslu þinni á fæðu sem inniheldur verulagt magn kolvetna. Í stuttu máli hafa rannsóknir sýnt fram á það að fæðuval sem inniheldur lágt hlutfall kolvetna er mun áhrifaríkara samanborið við fæðuval sem inniheldur lágt magn fitu. Þar að auki hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif slíks matarræðis á blóðsykur, kólesteról og metabólisma líkamans.
Það er gott að hafa það bakvið eyrað að líkamar okkar eru mögnuð fyrirbæri og þegar við erum komin á þann stað að vera heilbrigð og líða vel í eigin skinni er gott að staldra við þar og njóta þess.
Það að reyna að fara lengra en það til þess að ná óraunhæfum kröfum boðar ekkert gott og gæti jafnvel orsakað neikvæðu ferli sem kæmi niður á heilsu viðkomandi.
Leggðu frekar upp með strategíu sem miðar að því að lifa heilsusamlegu lífi og hámarka vellíðan þína. Sú strategía felur óhjákvæmilega í sér að borða holla fæðu, hreyfa þig reglulega, huga að andlegri heilsu og þar fram eftir götunum.
Síðast enn ekki síst skaltu hafa markmið þín til lengri tíma litið og horfa til framtíðar. Þér vegnar best þannig!
Þessi grein byggir á efni úr grein sem birtist á vefsíðu Healthline.