Öll höfum við heyrt um nauðsyn þess að teygja reglulega á líkamanum. Við erum hins vegar misjafnlega dugleg við það, hvort sem við stundum íþróttir af fullum krafti eða mætum annað slagið í ræktina. Kostir þess að teygja á líkamanum eru margvíslegir og því er gott, endrum og eins, að ítreka mikilvægi þess að fólk framkvæmi góðar og hentugar teygjur.
Teygjur hjálpa okkur að auka liðleika líkamans en það er ekki eini ávinningurinn sem hlýst af því að teygja á líkamanum. Rannsóknir sýna að með því að teygja reglulega getum við dregið úr streitu, minnkað verki og bólgur og bætt líkamsstöðu okkar. Þannig getum við aukið lífsgæði okkar og vellíðan með því að koma góðum og gildum teygjum inn í okkar daglegu rútínu.
Algengustu tegundir af teygjum
Tvær algengustu leiðirnar til þess að teygja á eru annars vegar hreyfanlegar teygjur (e. Dynamic) og hinsvegar kyrrstæðar teygjur (e. Static).
Hreyfanlegar teygjur eru teygjur þar sem við hreyfum líkamann með þeim hætti að við finnum fyrir teygju á ákveðnum stöðum líkamans, án þess þó að staldra við og halda teygjunni. Slíkar teygjur eru algengastar þegar við erum að hita upp fyrir æfingar eða líkamleg erfiði, til dæmis hlaup, kappleiki eða annað slíkt.
Kyrrstæðar teygjur eru aftur á móti hefðbundnar teygjur þar sem við stöndum eða sitjum í sömu stellingunni í ákveðinn tíma, til dæmis 30 sekúndur, þar sem við teygjum á afmörkuðu svæði líkamans allan þann tíma. Slíkar teygjur eru algengastar eftir æfingar eða aðra hreyfingu þegar vöðvar líkamans eru heitir og því auðveldara að komast niður í dýpri teygjur.
9 góðar ástæður fyrir því að teygja á líkamanum
1. Eykur liðleika okkar
Með því að teygja reglulega á eykst liðleiki líkamans sem er mikilvægt fyrir heilsu okkar. Aukinn liðleiki einfaldar okkur að framkvæma daglegar athafnir með auðveldum hætti og kemur í veg fyrir að líkaminn stirðni upp, sem aftur, gerir okkur erfiðara fyrir og eykur líkur á meiðslum og öðrum samskonar vandræðum.
2. Eykur hreyfigetu
Það að geta hreyft liðamót líkamans með fullnægjandi hætti eykur hreyfigetu okkar og gefur okkur meira frelsi til athafna. Þegar við teygjum á líkamanum tryggjum við það að liðamót líkamans geti starfað með fullnægjandi hætti.
3. Hjálpar okkur að hámarka árangur
Þegar við framkvæmum hreyfanlegar teygjur áður en við tökum vel á því gefum við vöðvum líkamans tækifæri á því að undirbúa sig fyrir átökin. Þá geta slíkar teygjur einnig hámarkað árangur þinn í þeirri íþrótt eða hreyfingu sem þú hyggst stunda.
4. Eykur blóðflæði til vöðva líkamans
Með því að teygja reglulega á líkamanum getur þú komið af stað auknu blóðflæði í líkama þínum. Aukið blóðflæði hjálpar líkamanum að jafna sig fljótar og betur eftir líkamlegt erfiði, til dæmis æfingu og dregur jafnframt úr verkjum og þreytu í vöðvum (e. delayed onset muscle soreness DOMS).
5. Styður við eðlilega líkamsstöðu
Misræmi og ójafnvægi í vöðvum líkamans getur leitt til slæmrar líkamsstöðu. Rannsókn ein leiddi í ljós að með því að þjálfa og teygja á ákveðnum vöðvum líkamans tryggjum við eðlilega stöðu vöðva, liðamóta, beina o.sfr. sem aftur hjálpar okkur að viðhalda eðlilegri og góðri líkamsstöðu.
6. Dregur úr verkjum í bakinu
Stirðir vöðvar geta leitt af sér skerta hreyfigetu. Þegar það gerist aukast líkurnar á því að við ofreynum vissa vöðvahópa í bakinu. Þannig geta reglulegar teygjur komið í veg fyrir slíkt og hjálpað þeim sem þá þegar finna til verkja í baki, með því að styrkja og liðka við vöðva líkamans.
7. Dregur úr streitu
Þegar við upplifum streitu eru góðar líkur á því að aukinn spenna myndist í líkama okkar sem verður til þess að vöðvarnir stirðna upp. Ástæðan er sú að þegar við upplifum streitu, hvort sem hún er andleg eða líkamleg, svarar taugakerfi líkamans með þeim hætti að spenna vöðvana, líkt og við séum að búa okkur undir mikil átök. Þegar slíkt ástand verður viðverandi getur það haft slæm áhrif á heilsu okkar almennt. Reyndu því eftir fremsta megni að teygja á þeim vöðvum líkamans sem þú veist að þú spennir hvað mest undir miklu álagi, til dæmis í öxlunum, hálsinum, bakinu eða grindarbotninum, svo dæmi séu tekin.
8. Róar hugann
Það að teygja reglulega á líkamanum gerir ekki einungis vöðvum og stoðkerfi líkamans gott, heldur hjálpar það einnig huganum að slaka á. Þegar þú teygir á, reyndu eftir fremsta megni að tæma hugann og einbeita þér að andardrættinum og teygjunni sjálfri.
9. Getur dregið úr hausverkjum
Hausverkur sem orsakast af streitu og líkamlegri spennu hefur svo sannarlega áhrif á okkar daglega líf og skerðir verulega lífsgæði okkar. Með því að teygja reglulega á getum við dregið úr ákveðnum tegundum af slíkum hausverkjum en góðar teygjur í bland við hollt matarræði, hvíld og hreyfingu, vinnur saman að því að draga úr bólgum og verkjum sem geta leitt af sér slíka hausverki.
Hvað ber að varast?
Þó svo að teygjur séu almennt góðar fyrir líkama okkar eru viss líkamleg einkenni sem geta versnað við teygjur, sem dæmi:
-
Ef þú hefur orðið fyrir meiðslum eða finnur til mikilla verkja, er mikilvægt að ráðfæra sig við sérfræðing áður en þú teygir á líkamanum, sérstaklega á þeim svæðum sem þú finnur til verkja.
-
Ef þú ert að glíma við skerta hreyfigetu getur einnig verið gott að ráðfæra þig við sérfræðing áður en þú framkvæmir vissar teygjur.
Nokkur góð ráð að lokum
-
Ekki teygja þannig að þú finnir fyrir miklum óþægindum. Vissulega er eðlilegt að finna fyrir smá spennu í þeim vöðvum sem við teygjum á hverju sinni en um leið og við finnum fyrir verkjum er nauðsynlegt að draga úr teygjunni og mögulega sleppa henni alfarið þar til verkurinn er horfinn.
-
Ekki ofgera þér. Teygjur eru vissulega mikilvægar og hjálpa okkur á margvíslegan hátt, eins og fram hefur komið, en ef þú teygir á sömu vöðvahópunum, jafnvel nokkrum sinnum á dag, er hætt við því að þú valdir of mikilli spennu sem aftur orskar meiðsli í þeim tilteknu vöðvum.
-
Ekki framkvæma djúpar teygjur án upphitunar. Kaldir vöðvar eru síður sveigjanlegir sem gerir teygjurnar erfiðari fyrir vikið. Besti tíminn til þess að teygja á er eftir æfingar, þegar við höfum hitað vöðva líkamans vel upp og þannig hámarkað liðleika líkamans. Ef þú hins vegar vilt teygja á, án þess að hafa hreyft þig, er ágætis hugmynd að taka létta göngu eða skokk í 5-10 mínútur og teygja svo á vöðvunum.
Þessi grein byggir á áður útgefnu efni af vef Healthline.