Skip to main content

Bakverkir eru útbreiddur kvilli sem hrjáir milljónir manna um heim allan. Þeir eru ein af algengustu orsökum örorku og fjarveru frá vinnu og í verstu tilfellum geta þeir hamlað fólki verulega með tilheyrandi verkjum og skertri hreyfigetu.

Bakið okkar er í raun ótrúlegt fyrirbæri og með flóknu samspili vöðva, beina, liða og sina, geta ýmis vandamál komið upp ef við hugum ekki vel að því. Þá spilar heilbrigði hryggsúlunnar algjört lykilhlutverk þegar kemur að eðlilegri virkni taugakerfisins, þar sem hún verndar mænuna og taugarætur. Allt hnjask eða aðrar skekkjur sem hryggsúlan verður fyrir getur þannig haft bein áhrif á virkni taugakerfisins.

Heilt yfir er því gríðarlega mikilvægt að við hugum vel að bakinu okkar. Í þessari grein förum við yfir orsakir bakverkja, helstu einkenni og hvernig kírópraktík getur skipt höfuðmáli þegar kemur að því að byggja upp hraust og heilbrigt bak.

 

Orsakir bakverkja

Bakverkir geta stafað af ótal orsökum, allt frá meiðslum eða eymslum til langvarandi vandamála og verkja.

  • Vöðvaspenna: Þegar við lyftum þungum hlutum eða beitum okkur vitlaust getur myndast vöðvaspenna eða spenna í sinum og liðum, sér í lagi hjá þeim sem eru stirðir og viðkvæmir fyrir.
  • Útbungun eða rof á diskum: Diskar virka sem einskonar púðar milli hryggjarliða í mænunni. Ef mjúkt efni innan disksins bungar út eða rofnar getur það þrýst á taug og valdið sársauka.
  • Þrengingar í hryggjarliðum: Þegar opið milli hryggjarliðanna þrengist, getur það óhjákvæmilega valdið þrýstingi á taugar sem getur valdið verkjum, dofa eða öðrum kvillum á því tiltekna svæði líkamans sem tengist viðkomandi taug.
  • Liðagigt: Slitgigt getur haft áhrif á neðri hluta baksins. Stundum getur liðagigt í hryggnum leitt til þrengsla í rýminu í kringum mænuna.
  • Hryggskekkja: Þegar ákveðnar hryggskekkjur eru til staðar getur það oft leitt til bakverkja, sér í lagi eftir því sem við verðum eldri.
  • Beinþynning: Beinþynning (e. osteoporosis) er sjúkdómur sem einkennist af minnkuðum beinmassa og rýrnun beina sem veldur því að bein brotna auðveldlega. Úlnliðsbrot og samfallsbrot á hrygg eru algengustu brotin ásamt mjaðmabroti.

 

Einkenni bakverkja

Fyrsta skrefið í bataferlinu er að koma auga á einkennin sem og orsök þeirra. Þeim mun nákvæmari sem sú greining er, þeim mun líklegra er að hægt sé að ráða bug á vandanum með skjótum hætti. Þau einkenni sem allra jafna gera vart við sig eru meðal annars:

  • Daufur verkur eða seyðingur í bakinu (oft mjóbakinu) sem mögulega skerðir að einhverju leyti hreyfigetu sem og leiðir út í mjaðmir og grindarholið.
  • Verkur eða dofi sem ferðast niður í rassinn og fótleggina. Dæmi um slíkt er svokallað þjótak (e. sciatica).
  • Verkur sem versnar eftir mikla kyrrsetu.
  • Þá getur aftur á móti verkurinn skánað þegar viðkomandi stendur upp eða hallar sér fram á eitthvað. Það fer í raun allt eftir eðli verkjarins.
  • Verkur sem er hvað mestur á morgnana en skánar þegar líður á daginn sem og þegar viðkomandi heldur sér á hreyfingu.
  • Verkur sem þróast hægt og rólega með tímanum, til dæmis eftir mikla kyrrsetu svo mánuðum eða árum skiptir.
  • Verkur sem kemur og fer en versnar eftir því sem líður á.
  • Verkur sem kemur snögglega, til dæmis vegna meiðsla.

Þá geta auðvitað annarskonar verkir og einkenni komið upp hjá fólki með mjóbaks vandamál. Slíkir verkir geta verið mjög einstaklingsbundnir og þá geta orsakirnar sem og ólíkir þættir haft þar mikil áhrif, samanber andleg og líkamleg heilsa, streita, starfsvettvangur og hreyfing, svo fátt eitt sé nefnt.

Hins vegar er mikilvægt er að leita sér tafarlaust læknis aðstoðar ef eftirfarandi einkenni gera vart við sig:

  • Erfiðleikar með að kasta þvagi eða stjórna þvaglátum og hægðum.
  • Hiti og kuldaköst sem rekja má til verkja í bakinu
  • Skjót megrun sem ekki er hægt að rekja til æfinga eða breytinga á matarræði/lífsstíl
  • Ákafur og stanslaus verkur í kviðarholi
  • Dofi eða máttleysi í báðum fótum

 

Hvernig getur kírópraktík hjálpað?

Kírópraktík er ein allra besta leiðin til þess að vinna með bakið og hryggsúluna og tryggja að staða hennar og virkni sé í góðu ásigkomulagi. Hér hjá Kírópraktorstöðinni eru sem dæmi framkvæmdar röntgen myndatökur og tauga- og hitaskannar til þess að kanna heilbrigði hryggsúlunnar og taugakerfisins. Þannig er staða hryggsúlunnar skoðuð, leitað eftir bólgum, skekkjum og þar fram eftir götunum. Í framhaldinu er svo unnið að því hámarka hreyfanleika og stöðugleika í bakinu.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem kírópraktor vinnur gjarnan með í meðferðum:

  • Laga stöðu hryggsúlunnar: Ein algengasta meðferðin við bakverkum eru hnykkingar sem eru stór partur af kírópraktískri meðferð. Með því að leiðrétta stöðu hryggsúlunnar og koma henni í sem eðlilegast ástand, eykst hreyfigetan, verkir minnka og líkaminn fær tækifæri til þess að hefja bataferlið.

  • Draga úr sársauka: Kírópraktísk meðferð getur dregið úr sársauka með því að minnka þrýsting á viðkvæma taugavefi, auka liðleika í liðum, og bæta blóðflæði og vöðvastyrk.

  • Bæta virkni og veita ráðleggingar: Meðferð hjá kírópraktor felur í sér allsherjarmat á heilsufari viðkomandi og lífsstíl. Kírópraktor getur ráðlagt með mataræði og hreyfingu, svo dæmi séu tekin. Allt vinnur þetta saman að því að skapa betra umhverfi fyrir bakið okkar og þar með heilsuna okkar.

 

Niðurstaða

Bakverkir geta verið flóknir og erfiðir að eiga við og því mikilvægt að leita sér aðstoðar sem fyrst. Með kírópraktík er ráðist að rót vandans en með þeim hætti er hægt að takast á við vandamálið í heild sinni. Með réttri meðferð kírópraktors er oft hægt að leiðrétta vandamálið sem er til staðar, sem gerir einstaklingnum kleift að snúa aftur til síns venjulega daglega lífs án sársauka.