fbpx Skip to main content

Hryggsúlan gegnir því hlutverki að halda eftri hluta líkama okkar uppréttum. Hún er samansett úr 26 hryggjarliðum og brjóskþófum sem tengja beinin saman en auk þess umlykur hryggsúlan mænuna sjálfa sem liggur frá heilastofni og tryggir að taugaboð frá heila berist til mismunandi svæða líkamans, í gegnum taugarætur sem liggja út úr beingöngum í hryggsúlunni. Hryggnum er gjarnan skipt í hálshluta, brjósthluta, lendarhluta, spjaldhrygg og rófubein. Brjóskþófarnir sem tengja saman hryggjarliðina eru samsettir úr bandvefshring sem liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna. Brjóskþófinn er 80% vatn sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur það á hreyfigetu hryggjarins og styður einnig við hann. Á hryggjarliðina og hliðar brjóskþófanna festast svo þeir vöðvar sem taka þátt í hreyfingum hryggsúlunnar og gera okkur kleift að beygja okkur og snúa.

 

Hvað er brjósklos?

Þegar kjarninn í brjóskþófunum þrýstir á bandvefshringinn veldur það bungu sem aftur veldur þrýstingi á aðliggjandi taugarætur á milli hryggjarliðanna. Ekki er alltaf þekkt ástæða fyrir því að kjarninn bungar út en hrörnun á bandvef getur orsakað slíkt sem og áreynsla ýmiskonar. Þess ber þó að geta að brjóskþófi getur bungað út hjá einstaklingum án þess þó að þeir finni fyrir einkennum eða verkjum. Brjósklos verður oftast í lendarhrygg (mjóbaki) og er það algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára. Brjósklos í hálsliðshlutanum er sjaldgæfara og brjósklos í brjósthlutanum er einnig sjaldgæft.

 

Hvað getur orsakað brjósklos?

Þegar kemur að beinum orsökum eru ýmsar aðstæður og þættir sem geta aukið hættuna á því að fá brjósklos. Einn augljósasti þátturinn snýr að þeim sem vinna erfiðis vinnu þar sem þörf er á að lyfta þungum hlutum en oft á tíðum hefur slíkt í för með sér beygjur, snúninga og aðrar hreyfingar sem setja álag á bakið. Með tímanum getur álagið leitt út í brjósklos. Þá getur kyrrseta vegna vinnu einnig leitt af sér brjósklos en þar eru bílstjórar og þeir sem vinna skrifstofuvinnu í áhættuhóp. Ef einstaklingur er í slæmu líkamlegu ásigkomulagi aukast líkurnar á brjósklosi enn frekar ef sá hinn sami starfar við ofangreind störf eða við önnur störf sem valda samskonar álagi á bakið. Slæmt líkamlegt ástand og stífir bakvöðvar gera það að verkum að hreyfingar hryggsúlunnar verða takmarkaðar og slappir magavöðvar valda því að staða mjaðmagrindarinnar breytist og aukið álag verður á mjóbakið. Það er þó ekki gefið að þeir sem stunda líkamsrækt sleppi alfarið við brjósklos þar sem dæmi eru um að fólk beiti sér á rangan hátt við æfingar, þá einkum þegar um lóð og þyngdir er að ræða, sem getur leitt til meiðsla og jafnvel orsakað brjósklos. Það er því mikilvægt að allar æfingar séu framkvæmdar með réttum hætti og viðkomandi ráði vel við þær þyngdir sem um er að ræða.

 

Hvernig lýsir brjósklos sér?

Einkennin sem fylgja brjósklosi eru aðallega vegna þrýstings á taugaenda. Helstu einkennin sem fylgja brjósklosi eru meðal annars:

  • Verkur og dofi, oft í aðeins öðrum helming líkamans
  • Verkur sem leiðir út í hendur og fætur
  • Verkur sem jafnvel versnar á nóttinni eða þegar þú hreyfir þig með ákveðnum hætti
  • Verkur sem versnar eftir að hafa setið eða staðið í langan tíma
  • Verkur sem kemur eftir stutta göngu
  • Óútskýrt máttleysi í vöðvum líkamans
  • Þrýstingur á mænutagl sem veldur truflunum á þvaglátum og/eða skyntruflunum við endaþarm
  • Stingandi verkur, dofi eða máttleysi á því svæði sem brjósklosið er staðsett

Þessi einkenni eru mismunandi milli einstaklinga en mikilvægt er að leita sér strax aðstoðar hjá þar til gerðum sérfræðingum ef þú upplifir ofangreind einkenni, svo ekki sé talað um ef þessi einkenni eru farin að hafa áhrif á þitt daglega líf.

 

Hvernig er brjósklos meðhöndlað?

Brjósklos sem ekki er meðhöndlað getur orsakað varanlegan skaða á taugum og jafnvel skorið af taugaboð til mjóbaksins sem getur valdið því að viðkomandi einstaklingur missir stjórn á þvagblöðru og þörmum. Sömuleiðis getur brjósklos sem virt er að vettugi valdið taugaskaða með þeim afleiðingum að viðkomandi missir mátt og tilfinningu í fótleggjum og við endaþarm. Það er því gríðarlega mikilvægt að meðhöndla brjósklosið eins fljótt og unnt er svo hægt sé að koma í veg fyrir frekari skaða.

Þegar þú leitar þér aðstoðar, til dæmis hjá lækni eða kírópraktor, er brjósklosið betur metið, ýmist með athugun á líðan, líkamsstöðu, staðsetningu verkja o.s.fr. Í kjölfarið kann að vera tekin röntgenmynd eða segulómun til þess að greina betur stöðuna. Út frá því er hægt að sjá alvarleika málsins og ákvarða viðeigandi meðferð. Í sumum tilvikum þarf viðkomandi að fara í skurðaðgerð en oftast er reynt eftir fremsta megni að koma í veg fyrir slíkt, þá oft með meðferð hjá kírópraktor eða sjúkraþjálfara.

Ein besta meðferðin við brjósklosi, sem ekki felur í sér skurðaðgerð, eru teygjur á líkamanum. Á Kírópraktorstöðinni má sem dæmi finna einn fullkomnasta bekk sinnar tegundar sem er hannaður til þess að vinna á brjósklosi með því að teygja á bakinu. Slík meðferð felur í sér endurkomur þar sem stöðugt endurmat á líðan og framförum á sér stað en þannig er hægt að tryggja að brjósklosið gangi tilbaka og viðkomandi nái fullum bata að nýju. Slíkir teygjubekkir eru þó sjaldséðir á Íslandi.

Aðrar leiðir eru eins og áður segir meðferðir hjá kírópraktor og sjúkraþjálfara þar sem viðkomandi setur saman meðferð fyrir sjúklinginn sem oftast inniheldur teygjur og æfingar. Þó er mikilvægt að byrja rólega þegar um æfingar er að ræða og ráðlagt að notast við styrktaræfingar sem fela í sér litlar sem engar þyngdir, þannig að þjálfað er upp að sársaukamörkum en alls ekki farið yfir mörkin. Þá eru góð hvíld og svefn algjör lykilatriði en auk þess getur verið gott að kæla og hita bakið til skiptis til þess að auka blóðflæðið. Þá getur verið nauðsynlegt að taka inn einhverskonar verkja- og bólgueyðandi lyf, sér í lagi á fyrstu dögunum og vikunum sem viðkomandi er með verki.

 

Er hægt að fyrirbyggja brjósklos?

Þó það sé e.t.v. erfitt að segja til um hvort hægt sé yfir höfuð að koma í veg fyrir brjósklos er vissulega hægt að minnka líkurnar á því sem og draga úr neikvæðum afleiðingum og einkennum sem kunna að stafa frá brjósklosi. Helstu skrefin sem viðkomandi getur tekið eru meðal annars:

Taka meðvitaðar hreyfingar þegar lyft er þungum hlutum. Beygja hnéin og nota styrkinn í fótleggjunum til þess að lyfta hlutnum.

  • Halda sér í góðu líkamlegu ásigkomulagi
  • Reyna eftir fremsta megni að forðast kyrrsetu til langs tíma.
  • Gera æfingar sem styrkja kjarnavöðva líkamans, fætur, bakið og kviðvöðva.
  • Fara reglulega til kírópraktors og nýta aðrar fyrirbyggjandi meðferðir sem miða að því að halda heilsu þinni í lagi.

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni frá Vísindavef HÍ og vefsíðu Healthline.

This site is registered on wpml.org as a development site.