Skip to main content

Það er ekkert leyndarmál að vatn er lífsnauðsynlegt tilvist okkar. Hvenær við drekkum vatn og hversu mikið vatn við drekkum er misjafnt manna á milli. Sumir vilja frekar drekka kaffi að morgni, eða gos í hádeginu, en eitt er víst: ekkert er betra en ískalt og svalandi vatnsglas. Það er vissulega gagnlegt að drekka vatn hvenær sem er dags en að drekka stórt vatnsglas um leið og þú vaknar á morgnana getur fært þér aukna heilsufarslega ávinninga.

 

Hér að neðan má lesa um kosti þess að drekka vatn á fastandi maga sem og almenna kosti þess að drekka vatn, jafnt og þétt yfir daginn.

 

Þægindi

Flestir drekka vatn með matnum sem vissulega hefur sína kosti en að vissu leyti getur það einnig verið neikvætt. Samkvæmt meltingarsérfræðingnum Don Colbert M.D. getur mikil vatnsdrykkja yfir matnum komið í veg fyrir framleiðslu á mikilvægum meltingarensímum sem veldur því að líkaminn meltir fæðuna verr en ella. Hann mælir frekar með því að drekka fyrir og eftir mat og þá sérstaklega um leið og við vöknum á morgnana. Á þeim tímapunkti er maginn galtómur sem þýðir að vatnið sem þú neytir mun ekki hafa áhrif á meltinguna en mun jafnframt veita þér þá nauðsynlegu vökvun sem líkaminn þarf árla dags.

shutterstock_479158981.jpg

Vatnsdrykkja dregur úr sýru-myndun í maga

Mörg okkar finna fyrir brjóstsviða sem er afleiðing af háu sýrustigi í maganum. Þegar við erum sofandi á nóttunni framleiðir maginn svokallaðar „hydrochloric“ magasýrur. Vanalega mun maturinn sem þú neytir draga úr magasýrunum en þar sem við erum sjaldnast að borða mat á nóttunni er líklegt að upplifa brjóstsviða árla dags. Þú getur hins vegar dregið úr þessum óþægindum með því að drekka vatnsglas um leið og þú vaknar en vatnið mun þannig draga úr magasýrunum og hindra það ferli sem veldur þér óþægindum, þ.e. brjóstsviða.

 

Hjálpar þörmunum að starfa með eðlilegum hætti

Samkvæmt vefsíðunni Medical Daily getur heitt vatnsglas í morgunsárið hjálpað þörmunum að starfa eðlilega og komið í veg fyrir harðlífi. Þegar um harðlífi er að ræða er orsökin oft vökvaskortur og þegar við vöknum fyrst á morgnana skortir líkamanum gjarnan vökva, sem gerir það að verkum að líkur á harðlífi í morgunsárið aukast. Með því að drekka volgt eða heitt vatn, fyrst á morgnana, hjálpar þú líkama þínum að melta fæðu gærdagsins og þannig halda meltingarveginum góðum.

shutterstock_420688300.jpg

Dregur úr líkum á ofáti og hjálpar okkur að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd

Ef þú hefur það að markmiði að missa nokkur aukakíló eða stjórna kaloríu inntöku þinni er vatnssopinn til þess fallinn að hjálpa þér við það. Gættu þess að drekka nóg af vatni yfir daginn. Þannig hægir þú á meltingunni þannig að þér líður eins og þú sért að borða meira en þú í raun og veru gerir.

 

shutterstock_383061205.jpg

Gefur vöðvum líkamans aukna orku

Samkvæmt vefsíðunni WebMD eru frumur líkamans háðar jafnvægi milli fjölmargra vökva og steinefna. Ef þetta jafnvægi er ekki til staðar í líkamanum getur það leitt til þreytu í líkamanum og þar með talið vöðvum líkamans. Til þess að koma í veg fyrir slíkt er mælt með því að fólk drekki um hálfan líter af vatni, um tveimur tímum fyrir æfingu. Að sama skapi er mælt með því að fólk drekki vel af vatni meðan á æfingunni stendur. Þannig er hægt að bæta upp vökvatapið sem hlýst af æfingunni.

 

Húðin ljómar

Húðin sjálf inniheldur mikinn vökva sem hjálpar henni að vernda sig gegn vökvatapi. Þegar við fáum ekki nægan vökva inn í kerfið verður húðin þurrari og hrukkur verða sýnilegri. Því getur stórt vatnsglas jafnt og þétt yfir daginn hjálpað þér að ljóma.

 

Hjálpar gegn þynnkunni

Þegar við förum út á lífið og innbyrðum mikið alkóhól getur verið gott að drekka vel af vatni, bæði fyrir, meðan á skemmtuninni stendur sem og í kjölfar herlegheitanna. Þessi rútína getur hjálpað þér að draga úr timburmönnum daginn eftir.