fbpx Skip to main content

D vítamín er lífsnauðsynlegt vítamín sem hefur margþætt áhrif á líkama þinn. Ólíkt öðrum vítamínum vinnur D-vítamín líkt og hormón og allar frumur líkamans hafa viðtaka fyrir því.

Líkaminn fær D-vítamín frá sólarljósi sem og úr ákveðnum matvælum, s.s. feitum fiski og sumum mjólkurvörum en þess ber þó að geta að erfitt er að fá D-vítamín þörf líkamans úr fæðunni einni saman. Því er mikilvægt að taka inn D-vítamín þegar sólarljósins nýtur ekki við, til dæmis yfir vetrartímann hér á landi.

Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni er vanalega í kringum 400-800 IU en þó eru margir sérfræðingar sem telja að líkaminn þurfi meira en það.

Talið er að um 1 milljarður manna í heiminum hafi of lítið magn D-vítamíns í blóðinu.

Hér eru 7 algengir áhætturþættir sem gjarnan einkenna fólk sem þjáist af D-vítamín skorti:

Ef þú ert dökk/ur á hörund

Ef þú ert í yfirþyngd eða átt við offitu vandamál að stríða

Ef þú ert komin/n yfir sextugt

Ef þú borðar lítið af fiski og mjólkurvörum

Ef þú býrð þar sem sólarljós er takmarkað stóran hluta ársins

Ef þú notar alltaf sólarvörn þegar þú ferð út í sólina

Ef þú eyðir flestum stundum dagsins innandyra.

Fólk sem býr í nálægð við miðbaug og eyðir hluta dags út í sólinni fær allra jafna nægt D-vítamín frá sólinni og er þannig ólíklegra til þess að þjást af D-vítamín skorti.

Aðrir sem ekki njóta góðs af sólinni allan ársins hring eru því í áhættuhópi. Margir jafnvel átta sig ekki á því að þá skorti D-vítamín þar sem einkennin geta verið nokkuð lúmsk og jafnvel finna margir aðrar ástæður en D-vítamín skort fyrir þessum einkennum. Það getur hins vegar verið gott að átta sig á þessum einkennum og grípa í taumana með því að taka inn D-vítamín.

 

Hér að neðan má lesa um átta einkenni D-vítamín skorts:

Þú færð oft flensu eða annarskonar veikindi

Eitt af mikilvægari hlutverkum D-vítamíns í líkama okkar er að byggja upp ónæmiskerfið svo það sé betur í stakk búið til þess að verjast bakteríu- og veirusýkingum. Þannig tengist D-vítamínið beint við þær frumur líkamans sem bera ábyrgð á því að verja okkur fyrir sýkingum. Ef þú veikist oft, þ.e. færð flensur eða önnur árstíðarbundin veikindi, gæti þig skort D-vítamín sem ýtir undir líkur þess að þú fáir flensu.

Þú upplifir oft þreytu og slen

Það að upplifa oft þreytu getur verið eitt einkenni þess að þig skorti D-vítamín en oft tengjum við eftir sem áður ekki þreytu við þann umrædda skort. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á tengsl milli þreytu og skorts á D-vítamíni í blóði og hefur fjöldi fólks greint frá góðum bata með því einu að taka inn aukið magn af D-vítamíni.

Leiðir til verkja í beinum og baki

D-vítamín gegnir því lykilhlutverki að byggja upp og viðhalda beinum líkamans og tryggja að þau haldist heil, sterk og heilbrigð. Þannig hjálpar D-vítamín líkamanum að vinna úr kalki sem er lykilforsenda heilbrigðra beina. Af þessu leiðir að D-vítamín skortur getur leitt til verkja í beinum og bakinu. Þá hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á tengsl á milli skorts á D-vítamíni og krónískum verkjum í mjóbaki. Ein rannsókn, sem dæmi, sem náði til yfir 9 þúsund eldri kvenna, leiddi í ljós að þær sem skorti D-vítamín voru mun líklegri til þess að þjást af bakverkjum sem komu í veg fyrir að þær gætu framkvæmt daglegar rútínur og lifað heilbrigðu lífi.

Beinþynning

Þegar kemur að beinþynningu spilar D-vítamín algjört lykilhlutverk. Margt eldra fólk sem upplifir beinþynningu heldur gjarnan að það skorti kalk en oftar en ekki er sökin sú að það skortir einfaldlega D-vítamín til þess að vinna úr kalkinu.

Getur leitt til þunglyndis

Skapsveiflur, leiði og jafnvel þunglyndi geta verið afleiðing D-vítamín skorts. Rannsóknir hafa gefið til kynna að tengsl séu á milli þunglyndis og ónægs D-vítamíns, þá sér í lagi hjá eldra fólki. Þess ber þó að geta að aðrar rannsóknir þessu tengdu, þær sem gátu betur stjórnað aðstæðum viðfanga sinna, gáfu ekki til kynna að tengsl væru þarna á milli. Aftur á móti var í þessum rannsóknum notast við mjög lágan skammt af D-vítamíni, auk þess sem þær náðu ekki yfir langt tímabil, sem mögulega gæti skýrt niðurstöðurnar. Margir sérfræðingar leyfa sér því að áætla að tengsl séu á milli D-vítamín skorts og þunglyndis.

Sár taka lengri tíma að gróa

Þegar D-vítamín forði líkamans er lítill getur eitt einkenni þess verið það að sár taka lengri tíma að gróa, til dæmis eftir slys eða aðgerðir. Þannig hefur D-vítamín ákveðna eiginleika sem eru nauðsynlegir fyrir endurnýjun húðarinnar sem er stór partur af því að sár geti gróið fyllilega. Þá hefur einnig verið leitt í ljós að eiginleikar D-vítamíns til þess að minnka bólgur og berjast gegn sýkingum hjálpar ennfrekar í bataferlinu.

Aukið hárlos

Hárlos á oft rætur sínar að rekja til streitu, erfða og annarra genatískra og umhverfislegra þátta en hárlos getur einnig stafað af næringarskorti og þar með talið skorti á D-vítamíni.

Færð aukna verki í vöðvum líkamans

Það geta verið margar ástæður fyrir því að við finnum fyrir verkjum í vöðvum líkamans og oft getur reynst erfitt að finna orsök þess. Það eru hins vegar ákveðnar vísbendingar um það að D-vítamín skortur geti verið möguleg orsök slíkra verkja, þó svo að sjálfsögðu, eins og áður segir, að aðrar ástæður geti legið þar að baki. Í einni rannsókn kom í ljós að þátttakendur sem fundu til krónískra verkja í vöðvum líkamans voru í 71% tilvika með of lágt magn D-vítamíns í blóðinu. Sömuleiðis hafa fáeinar rannsóknir leitt í ljós að stórir skammtar af D-vítamíni gætu dregið úr ýmsum verkjum hjá fólki sem skortir D-vítamín.

 

Þegar allt kemur til alls

Á heildina litið spilar D-vítamín stórt hlutverk þegar kemur að heilsunni okkar og því virkilega mikilvægt fyrir okkur öll að fá nægt D-vítamín í skrokkinn. Nú þegar sólarljósið fer dvínandi hér á landi á komandi mánuðum er gott að huga vel að D vítamín forða líkamans og tryggja það að þú fáir hæfilegt magn til þess að viðhalda heilsu þinni.

 

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni af vef Healthline

This site is registered on wpml.org as a development site.