Einbeiting og skerpa er án alls efa grundvöllur fyrir velgengni okkar. Skólafólk þarfnast góðrar einbeitingar til þess að læra nýja hluti og fyrir fólk á vinnumarkaði er mikilvægt að hafa góðan fókus og skerpu til að leysa ólík og fjölbreytt verkefni.
Þegar kemur að einbeitingu og skerpu hugans er margt sem þú getur gert til þess að halda toppstykkinu í góðu standi. Góður nætursvefn er gríðarlega mikilvægur og sömuleiðis hreyfing og líkamsrækt. Auk þess er mikilvægt að drekka nægan vökva og þá getur hugleiðsla, jóga og aðrar slökunaraðferðir hjálpað þér að róa hugann, sem aftur eykur fókus og skerpu þegar þú á því þarft að halda.
Síðast en ekki síst er það matarræðið sem spilar lykilhlutverk og gott heilafóður, ef svo má að orði komast, er að finna í fjölbreyttum og hollum fæðutegundum. Hér að neðan má sjá fæðutegundir, vítamín o.fl. sem hjálpa þér að halda einbeitingu og auka skerpu.
1. Koffín
Það er engin ein töfra pilla sem getur hjálpað þér að auka gáfur og getu en ákveðnar fæðutegundir geta eftir sem áður gefið þér aukna orku sem hjálpar þér að auka einbeitingu þína og þar kemur koffínið sterkt inn. Koffín má fyrst og fremst finna í kaffi en auk þess má finna koffín í te-drykkjum, súkkulaði og orkudrykkjum. Þess ber þó að geta að koffín er aðeins skammtímalausn og ef þú neytir of mikils koffíns getur það breyst í andstæðu sína og gert þig órólegri, örari og heilt yfir dregið úr getu þinni til þess að beinbeita þér. Hafðu því þá reglu að neyta koffíns í hófi, sem ætti, undir flestum kringumstæðum, að auka getu þína til þess að einbeita þér til skamms tíma.
2. Glúkósi
Glúkósi er aðal orkugjafi líkamans og þar með talið heilans en hann skapast þegar líkaminn meltir sykrur og kolvetni úr fæðunni. Það er því óneitanlega nauðsynlegt að líkaminn framleiði glúkósa þegar við þurfum á góðri orku og einbeitingu að halda. Því getur verið gott að borða ávexti eins og banana og appelsínur en slíkar fæðutegundir hjálpa þér að skerpa hugsun, minni og einbeitingu. Gættu þess þó að borða ekki of mikið af ávöxtum sem og öðrum kolvetnum, slíkt getur sannarlega valdið líkama þínum erfiðleikum og leitt til hinna ýmsu sjúkdóma og heilsufarslegra kvilla.
3. Borðaðu morgunmat
Rannsóknir hafa sýnt að morgunverður getur aukið skammtíma minni og einbeitingu. Þannig hafa niðurstöður rannsókna bent til þess að námsmenn sem borða morgunmat ná betri árangri en þeir sem ekki borða morgunverð. Samkvæmt sérfræðingum er þó mikilvægt að velja hollan morgunverð, til dæmis trefjaríka fæðu eins og hafragraut eða gróft brauðmeti, ávexti og jógúrt. Þó ber að hafa í huga að þung máltíð árla dags getur dregið úr einbeitingu og því er ágætt að fara hinn gullna meðalveg í fjölda kaloría.
4. Fiskur
Fiskur er ríkur af Omega 3 fitusýrum sem gegna lykilhlutverki í virkni heilans. Matarræði sem inniheldur mikið magn af áður nefndum fitusýrum getur dregið úr öldrunaráhrifum heilans, bætt minni, skerpu og jafnvel komið í veg fyrir elliglöp. Þá skemmir ekki fyrir að fiskurinn er próteinríkur og sneisafullur af öðrum næringarefnum sem bæta almenna heilsu og líðan.
5. Hnetur og súkkulaði
Ef þig skortir hugmyndir að eftirmiðdags nasli skaltu skella góðri blöndu af hnetum og dökku súkkulaði ofarlega í hugmyndabankann. Hnetur, fræ og dökkt súkkulaði eiga það sameiginlegt að innihalda verulegt magn af Omega 3 fitusýrum, andoxunarefnum og E-vítamíni en öll hafa þessi næringarefni jákvæð áhrif á heilastarfsemi. Borðaðu 50-60 grömm á dag af þessari næringarríku blöndu og njóttu bæði bragðsins sem og þeirra jákvæðu áhrifa sem blandan hefur á heilsu þína.
6. Avókadó og heilkorn
Öll líffæri líkamans eru háð eðlilegu blóðflæði, þá sér í lagi hjartað og heilinn. Matarræði sem inniheldur gott magn af heilkornum og ávöxtum, eins og avókadó, getur hjálpað líkamanum að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma, til dæmis með því að lækka kólesteról í blóðinu.
7. Bláber
Það getur margborgað sig að fara í berjamó á haustin þar sem rannsóknir hafa sýnt að bláber efla varnir heilans gegn sindurefnum og geta komið í veg fyrir Alzheimerssjúkdóm og elliglöp. Þá hafa rannsóknir á rottum sýnt að bláber bæta það svæði heilans sem hefur með lærdómsgetu að gera, sem, í þeim tilteknu rannsóknum, sýndi fram á auka lærdóms getu hjá eldri rottum sem var á pari við getu þeirra yngri.
8. Fæðubótarefni
Verslanir í dag eru yfirfullar af fæðubótarefnum sem lofa hinu og þessu gagnvart heilsu þinni. Svo lengi sem þú ert ekki að neyta hollrar og heilnæmar fæðu, sem inniheldur ofantalin næringarefni, getur verið skynsamlegt að taka inn vítamín og steinefni í töflu- eða duftformi. Mælst er þó með því að þú reynir eftir fremsta megni að fá öll þessi nauðsynlegu næringarefni beint úr fæðunni.
Heimild: WebMD