fbpx Skip to main content
shutterstock_1156208521 (1).jpg

Farsímar eru orðnir samtvinnaðir nútíma samfélagi, þessi mögnuðu og fjölbreyttu tæki eru orðin ómissandi fyrir flesta í hinum iðnvædda heimi. Að mörgu leyti líður fólki eins og það sé týnt ef það finnur ekki símann sinn. Því er gott að velta því fyrir sér hvort síminn sé einungis menningarfyrirbrigði 21. aldarinnar eða hvort þetta sé raunveruleg fíkn sem mun umbreyta lífum notenda.

Til að svara þessu skulum við fara yfir helstu einkenni ofnotkunar á farsímum og hvernig er hægt að losna undan ávananum sem síminn kann að valda.

Er farsímafíkn raunverulegt vandamál?

Rannsókn í Bandaríkjunum bendir til þess að notkun farsíma hafi aukist úr 35% árið 2011 í um 81%. Samhliða því hefur leitarfyrirtækið ,,Google”  sýnt fram á vaxandi leit notenda um farsímafíkn. Auk þess hafa komið alls konar nýyrði um geðræn áhrif símanotkunar.

,,Nomophobia”: Heiti yfir hóp af fólki sem hræðist að fara eitthvert án símans.

,,Textaphrenia”: Ótti um að þú getir ekki sent eða fengið skilaboð.

,,phantom vibrations”: Eins konar skuggatitringur þar sem einstaklingum líður eins og síminn sé að senda tilkynningu þegar það er ekki raunin.

Það er lítill vafi á að ofnotkun á farsímum leiði til vandræða fyrir fjölda fólks. Aftur á móti er það deilumál meðal fagaðila í heilsugeiranum um hvort vandamálin stafi vegna fíknar eða hvort þetta sé orsakað af lélegri sjálfstjórn notenda. Margir sérfræðingar eru tregir við að nota orðið ,,fíkn” fyrir hlut sem er ekki síendurtekin misnotkun á vímuefnagjöfum.

Þrátt fyrir það er ein undantekning í handbók læknageirans um greiningu á geðrænum vandamálum, sú undantekning er veðmálafíkn. Það má líka sjá margar hliðstæður í farsímafíkn og veðmálafíkn sem eru eftirfarandi:

*Einstaklingur missir stjórn á eigin hegðun.

*Einstaklingur á erfitt með að takmarka þessa hegðun.

*Ávanabindandi, einstaklingar þurfa að nota búnaðinn meira eða veðja meira til að fá sömu upplifun.

*Fráhvarfseinkenni, einstaklingur er pirraður og finnur fyrir kvíða þegar hann getur ekki notað símann.

*Fall, einstaklingur tekur ávanann fljótt upp aftur eftir aðlögunartímabil án síma.

Tengsl við heilann og dópamín framleiðslu

Enn fremur þá eru fleiri samlíkingar á milli ofnotkunar á farsímum og öðrum fíknvaldandi hlutum/efnum, það losar til dæmis um sama efni í heilanum sem eykur þörfina fyrir hegðuninni. Heilinn inniheldur nokkrar brautir sem seyta frá sér sæluefni sem heitir dópamín, meðal annars þegar einstaklingur er í félagslegu umhverfi og er að skemmta sér eða gera eitthvað spennandi.

Þess vegna eru farsímar svona ávanabindandi þar sem mikið af fólki notar þá sem félagstengingu, fólk verður háð því að skoða stöðugt snjallsímann í von um ,,skot” af dópamíni sem er seytt í heilanum þegar einstaklingur tengist öðrum á samfélagsmiðlum eða öðrum smáforritum.

Hönnuðir smáforritana treysta á þessa gleðitilfinningu notenda til að láta þá halda áfram að skoða símann sinn, þetta er gert með eiginleikum eins og ,,like” eða ,,comment” .  Ofnotkun getur fljótt breyst í vítahring þar sem notandi hættir að njóta tækisins og byrjar að skoða það vegna þess að hann hefur geðræna þörf til þess.

Hvaða hópur er viðkvæmastur?

Rannsakendur eru flestir sammála að unglingar séu líklegasti hópurinn til að sýna einkenni fíknar þegar það kemur að farsímum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að notkun er mest á táningsárunum og fer síðan minnkandi. Ofnotkun á farsímum er orðin svo algeng að um þriðjungur 13 ára unglinga slökkva aldrei á símanum sínum, hvorki dag né nótt. Einnig virðist líklegra að einstaklingur þrói með sér vandamál því fyrr sem hann fær sinn fyrsta síma á lífsleiðinni.

Eru fleiri hlutir en aldur sem auka líkur á ofnotkun og skaðsemi?

Rannsókn leiddi í ljós að ákveðnir persónueiginleikar og aðstæður tengjast óhóflegri farsímanotkun.

Þessir helstu eiginleikar eru eftirfarandi:

  • Lágt sjálfstraust

  • Lítil sjálfstjórn

  • Kvíði

  • Þunglyndi

Rannsakendur hafa bent á að það er misjafnt í hvora áttina orsakasambandið liggur, það er hvort veldur óhófleg farsímanotkun ofantöldum persónueiginleikum eða eru það eiginleikarnir sem stuðla að ofnotkun.

Einkenni farsímafíknar

Hvernig er best að sjá hvort þú eigir við vandamál að stríða? Eftirfarandi eru nokkur atriði sem geta gefið vísbendingu um ofnotkun.

  • Þú ferð í símann samstundis þegar þú ert einn eða þér leiðist.

  • Þú vaknar oft á nóttunni til að skoða símann.

  • Þú verður kvíðinn, geðstirður eða kemst í tilfinningalegt uppnám ef þú kemst ekki í símann.

  • Símanotkunin olli slysi eða meiðslum.

  • Þú eyðir stöðugt lengri tíma dagsins í símanum.

  • Símanotkunin kemur niður á starfsgetu, námi eða samböndum.

  • Fólkið í kringum þig hefur áhyggjur af símanotkuninni þinni.

  • Þegar þú reynir að forðast símann en fellur hratt aftur í sama farið.

Hverjar eru aukaverkanir símanotkunar?

Eitt stærsta merki fíknar er að viðhalda mynstrinu þrátt fyrir að það valdi alvarlegum afleiðingum. Til dæmis að senda smáskilaboð eða tala í símann undir stýri. Slík hegðun hefur mikil áhrif á aksturgetu einstaklingsins þar sem augun eru ekki lengur á veginum, hendurnar ekki á stýrinu og athyglin beinist ekki að réttu hlutunum.

Í Bandaríkjunum deyja 9 manns á dag vegna símanotkunar undir stýri og skaðleg slys sem leiða þó ekki til dauða eru mikið fleiri. Áhættur þess að nota farsíma undir stýri eru alþekktar en samt sem áður kýs fólk að taka áhættuna til að fá smá ,,skot” af dópamíni sem fylgir spennandi viðfangsefninu í símanum.

Frekari afleiðingar símnotkunar eru til dæmis

  • Kvíði

  • Þunglyndi

  • Svefnleysi

  • Erfiðleikar í samböndum við vini og elskhuga.

  • Slök frammistaða í námi eða vinnu.

Þetta er með engu móti tæmandi listi en óhófleg farsímanotkun hefur líka dulin áhrif á mann frá degi til dags. Ein rannsókn sýndi að einbeiting að mikilvægum starfstengdum verkefnum sé trufluð að miklu leyti vegna tilkynninga frá símanum, jafnvel þó að einstaklingur sé ekki að nota símann.

Áhrif símanotkunar á líkamsstöðu

Hin klassíska líkamsstaða þess sem heldur á snjallsíma í höndunum er ávallt sú að halla höfðinu örlítið fram á við, þ.e. í átt að símanum, til þess að rýna ofan í skjáinn. Hinn almenni notandi er allra jafna lítið að spá í því hvaða áhrif slík staða, til lengri tíma litið, hefur á líkamsstöðuna, hnakkann, hálsinn og bakið. Þeir sem hafa hins vegar rannsakað slíkt, sem dæmi  Dr. Kenneth K. Hansraj, yfirmaður mænuskurðdeildar hjá New York Spine Surgery and Rehabilitation Medicine, hafa sýnt fram á það að þegar höfuðið hallar 45° fram á við, sem er nokkuð algeng staða hjá þeim sem eru skoða símann sinn, myndast þrýstingur á hálsinn sem nemur um 22kg þyngd. Til samanburðar er þyngdin sem myndast á hálsinum í eðlilegri líkamsstöðu aðeins um 5-6kg. Það gefur því auga leið, til lengri tíma litið, að álagið sem myndast á hálsinn og líkamann í heild sinni getur verið gríðarlegt við mikla símanotkun.

Hvernig er best að sigrast á fíkninni?

Ef síminn er farinn að trufla andlega heilsu, sambönd og skyldur þá er mögulega kominn tími á breytingar. Það eru til nokkur góð ráð til að lágmarka skaðsemi farsímans á daglegt líf. Rannsakendur hafa fundið tengsl á frestunaráráttu hjá fólki sem hefur erfið verkefni fyrir höndum og óhóflegrar símanotkunar. Þess vegna getur verið gagnlegt að spyrja sjálfan sig hvort það sé eitthvað djúpstæðara að verki. Með því að greina vandann og leysa úr honum er hægt að draga stórvægilega úr kvíða sem dregur jafnframt úr hvötunum að hverfa inn í símann.

 Aðrar lausnir eru eftirfarandi:

  • Fjarlægðu smáforritin sem soga til sín mestan tíma úr snjalltækinu og notaðu þau frekar í tækjum sem þú hefur ekki alltaf í vasanum yfir daginn.

  • Breyttu stillingum til að slökkva á truflandi tilkynningum.

  • Það er hægt að búa til hindranir með því t.d. að láta tækið spyrja einfaldra spurninga eins og af hverju núna? Eða til hvers? Slíkar spurningar er hægt að setja á skjáinn þegar maður slær inn lykilorðið.

  • Haltu símanum úr augsýn og einnig er gott að hlaða hann í öðru herbergi en svefnherberginu.

  • Önnur lausn er að sökkva sér í áhugamálin sín sem afvegaleiða hugann frá samfélagsmiðlum og smáforritaleikjum.

  • Taktu lítil skref í einu, ekki missa móðinn þó að þú finnir fyrir fráhvarfseinkennum eða fellur aftur í sama farið. Það er ekki sjálfgefið að laga fíkn í fyrstu tilraun og því er gott að gera ráð fyrir bakslagi og læra af þeirri reynslu.

Hvenær er best að leita til fagaðila?

Það er alltaf skynsamlegt að leita ráða hjá fagfólki útaf einhverju sem kann að valda áhyggjum eða ef hætta er á að þú hafir ekki stjórn á eigin gjörðum. Ef þú tekur eftir fíkn eða verður háð/ur einhverju þá getur það reynst vel að leita sér aðstoðar. Auk þess er gott að hlusta á fólk í kringum þig ef það hefur áhyggjur af einhverju í þínu fari.

Niðurstaðan

Ofnotkun á farsímum svipar að miklu leyti til veðmálafíknar þar sem fólk missir almennt stjórn á hegðun sinni. Oft á tíðum getur óhófleg símanotkun skaðað lífsgæði einstaklinga og þá er mikilvægt að endurþjálfa sig í að nota símann á heilbrigðari hátt.

Þessi grein byggir á áður birtu efni af vef Healthline.

This site is registered on wpml.org as a development site.