fbpx Skip to main content

Gigt er læknisfræðilegt hugtak sem er notað til þess að lýsa yfir 200 sjúkdómseinkennum sem hafa áhrif á liðina, vefinn sem umlykur liðina sem og aðra tengda vefi líkamans.

Ein algengasta tegund gigtar er liðagigt og slitgigt en aðrar algengar tegundir eru m.a. þvagsýrugigt og vefjagigt. Sjúkdómurinn er langvarandi og lýsir sér með bólgum og skemmdum í liðamótum á útlimum, venjulega sömu liðum hægra og vinstra megin. Gigt er hvað algengust meðal fólks 65 ára og eldri en þó getur fólk fengið gigt á öllum aldri, jafnvel börn. Talið er að um 1-2% fólks fái sjúkdóminn en hann er algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn virðist vera ámóta algengur meðal allra kynþátta, hvar sem er í heiminum.

Orsakir liðagigtar

Enga eina orsök er að finna þegar kemur að liðagigt og öllum þeim sjúkdómseinkennum sem henni fylgja. Orsakirnar eru þannig margvíslegar, stundum jafnvel ókunnar, allt eftir eðli og tegund gigtarinnar. Þó eru nokkrar orsakir algengari en aðrar, sem dæmi:

  • Meiðsli sem leiða til hrörnunar í liðum og liðamótum

  • Óeðlileg efnaskipti í líkamanum sem til dæmis leiða til þvagsýrugigtar

  • Erfðir, sem til dæmis leiða til slitgigtar

  • Reykingar

  • Sýkingar

  • Truflun eða vanvirkni í ónæmiskerfinu, þ.e. ónæmiskerfi líkamans ræðst gegn eigin frumum og skemmir þær

Í allmörgum tilvikum er um samspil nokkurra þátta að ræða, samanber þættina hér að ofan sem og fleiri. Sömuleiðis getur liðagigt byrjað skyndilega en algengara er að sjúkdómseinkennin komi fram hægt og bítandi á löngum tíma.

Áhættuþættir

Nokkrir áhættuþættir hafa verið tengdir við liðagigt samkvæmt rannsóknum síðastliðinna ára. Í sumum tilvikum geta einstaklingar dregið úr hættunni á því að fá liðagigt en svo eru aðrir þættir sem einfaldlega er ekki hægt að ráða við.

Dæmi um áhættuþætti sem ekki er hægt að hafa stjórn á:

  • Aldur: Hættan á að fá liðagigt eykst eftir því sem við verðum eldri

  • Kyn: 60% allra þeirra sem þjást af liðagigt eru konur og því líklegra að kvenfólk fái liðagigt. Aftur á móti er þvagsýrugigt líklegri meðal karlmanna.

  • Erfðir: Ákveðin gen og genasamsetningar auka líkur einstaklinga á því að fá ákveðnar tegundir liðagigtar.

Dæmi um áhættuþætti sem hægt er að hafa áhrif á:

  • Þyngdarstjórnun: Of þungir einstaklingar eru líklegri til þess að þjást af slitgigt í hnjám

  • Meiðsli: Allskyns meiðsli á liðum og liðamótum geta komið af stað þróun sem endar með slitgigt í þeim tiltekna lið.

  • Sýking: Margar bakteríur geta sýkt liði og valdið allskyns týpum af liðagigt.

  • Starfsvettvangur: Ákveðnar starfsgreinar, sem fela til dæmis í sér, síendurteknar hnébeygjur, hafa verið tengdar við slitgigt í hnjám.

  • Reykingar: Einn af hverjum fimm einstaklingum í Bandaríkjunum sem þjást af liðagigt reykja daglega.

  • Hár blóðþrýstingur: Meira en helmingur fullorðinna einstaklinga sem þjást af liðagigt í Bandaríkjunum eru með háan blóðþrýsting.

Hvað er til ráða?

Þegar kemur að meðferðum við liðagit er helsta markmið þeirra að draga úr og koma stjórn á verki, draga úr skemmdum á liðum og liðamótum sem og reyna að bæta heilt yfir hreyfigetu og líðan viðkomandi sjúklings. Algengustu meðferðirnar innihalda leiðir sem m.a. fela í sér:

  • Lyfjagjöf

  • Sjúkraþjálfun

  • Kírópraktík

  • Breytingar á lífsstíl viðkomandi

  • Meðferðir sem miða að því að upplýsa sjúklinginn

  • Breytingar á matarræði

  • Þyngdarstjórnun

  • Skurðaðgerðir

Náttúrulegar leiðir

Hollt fæði, viðeigandi hreyfing og heilsusamlegt líferni getur hjálpað fólki með liðagigt að draga úr einkennum og lifa heilt yfir betra lífi.

Þegar kemur að matarræðinu er ekki beint eitthvað eitt matarræði sem hentar öllum með liðagigt en ákveðnar fæðutegundir ber eftir sem áður að varast, þ.e. fæða sem veldur bólgum í líkamanum. Á sama tíma er þá ráðlagt að neyta fæðu sem dregur úr bólgusvörun, til dæmis fæðutegundir sem allra jafna eru tengdar miðjarðarhafs-matarræðinu, samanber:

  • Fiskur

  • Hnetur og fræ

  • Ávextir og grænmeti

  • Baunir

  • Heilkorn

  • Ólífuolía

Þess ber að geta að ákveðnar tegundir af grænmeti ber þó að varast, til dæmis tómatar en í þeim má finna efni sem heitir „solanine“ en rannsóknir hafa sýnt fylgni milli neyslu á tómötum og verkja í liðum og liðamótum hjá einstaklingum með liðagigt.

Heilsusamlegur lífsstíll

Það skiptir miklu máli fyrir fólk sem þjáist af liðagigt að lifa nokkuð heilsusamlegu lífi og huga að þáttum sem hjálpa þeim að draga úr verkjum og bæta líðan. Dæmi um slíka þætti er m.a.

  • Hreyfing – reyndu að finna rétta hreyfingu fyrir þig sem hjálpar þér að viðhalda góðri heilsu án þess að það leiði til aukinna verkja. Hlaup, sund og hjólreiðar eru dæmi um hreyfingu sem henta fólki með liðagigt nokkuð vel. Þó er hætt við því að verkirnir geti aukist fyrst um sinn en eftir því sem hreyfingin verður tíðari þeim mun líklegra er að hún dragi úr verkjum til lengri tíma litið.

  • Halda sér í kjörþyngd – Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að halda sér í kjörþyngd þar sem öll auka þyngd getur lagt aukinn þrýsting á liði og liðamót.

  • Hitta meðferðaraðila – Til dæmis lækni, kírópraktor, nuddara eða sjúkraþjálfara sem hjálpa þér að draga úr einkennum og leiðbeina þér í átt að bata.

  • Draga úr streitu – Bæði líkamlegri og andlegri en langvarandi streituástand getur hæglega haft áhrif á líkamann og þar með talið liði og liðamót.

Auk þess er mikilvægt að:

  • Halda góðu skipulagi – reyndu að finna út einkennin, tíðni og styrk verkja, hvaða lyf virka vel og hvaða aukaverkanir þú finnur fyrir. Slíkt getur hjálpað læknum og öðrum meðferðarðilum við að finna lausnir og meðferðir fyrir þig

  • Tryggja góðan svefn – Slæmur svefn getur aukið á verki og þreytu hjá þeim sem þjást af liðagigt. Taktu nauðsynleg skref til þess að tryggja góðan nætursvefn og finndu leiðir sem hjálpa þér að sofna auðveldlega og sofa vel. Ekki nota símann eða sjónvarpið rétt fyrir svefninn, ekki drekka koffín eða taka æfingar seint á kvöldin. Hafðu svefnherbergið kalt og dimmt og tileinkaðu þér svefn rútínur sem meðal annars fela í sér að sofna á sama tíma öll kvöld.

  • Forðast mikla kyrrsetu – Ef þú starfar við skrifborð allan liðlangan daginn er mikilvægt að standa reglulega upp og teygja úr sér til þess að forðast stirðleika.

Hvernig hjálpar kírópraktík við liðagigt?

Í stuttu máli hjálpar meðferð hjá kírópraktor einstaklingum sem þjást af liðagigt á nokkra vegu, meðal annars:

  • Dregur úr verkjum og óþægindum

  • Minnkar bólgur

  • Eykur hreyfigetu

  • Eykur liðleika

Þegar kírópraktor meðhöndlar einstakling með liðagigt er hans helsta markmið að auka hæfni og getu viðkomandi til þess að sinna daglegum verkefnum sínum og lifa lífi sínu án mikilla verkja og skertrar hreyfigetu. Meðferðin getur falið í sér að losa um vefi líkamans, draga úr bólgum, tryggja eðlilegt flæði í taugakerfi og hryggsúlu sem og teygja á liðum og liðamótum. Þannig reynir kírópraktorinn eftir fremsta megni að halda einkennum sjúkdómsins niðri og draga úr niðursveiflum sem fela í sér mikla verki, skerta hreyfigetu og skert lífsgæði.

Með kírópraktík er öll saga viðkomandi einstaklings einnig skoðuð með viðtölum, líkamsskoðun, mælingum á taugakerfi, mati á líkamsstöðu og röntgenmyndum, ef þörf er talin á. Það gefur viðkomandi kírópraktor aukna innsýn inn í heilsu viðkomandi skjólstæðings og hjálpar honum að meta ástand hans með tilliti til liðagigtarinnar.

Að lokum

Því miður er sjúkdómurinn sem slíkur ólæknandi, en margt er hægt að gera til að draga úr einkennunum og seinka framgangi sjúkdómsins svo og seinka tilkomu ýmissa aukaverkana. Meðhöndlun við liðagigt byggir á þverfaglegri samvinnu ýmissa sérfræðinga eins og til dæmis gigtlækna, gigtarskurðlækna, sjúkra- og iðjuþjálfara, kírópraktora, hjúkrunarfræðinga, félagsfræðinga og e.t.v. sálfræðinga. Meðferðin er margþætt og hver þáttur gegnir sínu hlutverki. Þessir mismunandi meðferðarmöguleikar einir sér eða fleiri saman gera það að verkum að hægt er að seinka framgangi sjúkdómsins og þar með viðhalda starfsgetu sjúklinganna til hagsbóta fyrir alla.

This site is registered on wpml.org as a development site.