Milljónir manna um heim allan þjást af einhverskonar bakverkjum. Þessi þrálátu eymsl og verkir geta svo sannarlega haft áhrif á líf okkar og dregið úr alhliða lífsgæðum okkar. Hvort sem bakverkirnir koma í veg fyrir að þú getir sinnt vinnu og skóla, farið á æfingar eða tekið til hendinni heima við, þá er nokkuð ljóst að slíkir verkir koma í veg fyrir að við lifum lífi okkar til fulls.
Þegar við hugum að hryggsúlunni, þ.e. bakinu og hálsinum, getur það hjálpað okkur að sigrast á verkjum í stoðkerfinu eða komið alfarið í veg fyrir þá. Fjölmargir þættir í okkar daglega lífi geta haft áhrif á hryggsúluna okkar og heilbrigði hennar, til dæmis líkamsbeiting, svefn, næring, hreyfing og fleira. Með því að gera nokkrar breytingar á lífsstíl okkar getum við styrkt áður nefnda hryggsúlu og þannig komið í veg fyrir hin ýmsu stoðkerfis vandamál.
Hér að neðan gefur að líta á nokkur góð ráð sem geta hjálpað þér að halda hryggsúlunni í góðu standi.
Lyftu rétt
Hvort sem það er í ræktinni eða þegar þú ert að hjálpa nágrannanum að flytja, þá er mikilvægt að huga að því hvernig við beitum líkama okkar við að lyfta þungum hlutum. Til þess að fara rétt að skaltu standa eins nálægt hlutnum og þú mögulega getur og nota styrkinn frá fótleggjunum, fremur en bakið og efri líkamann, til þess að lyfta hlutnum upp. Þá hjálpar það að beygja hnéin þannig að hendurnar séu í svipaðri hæð og hluturinn sem þú ætlar þér að lyfta upp. Gættu þess að halda höfðinu niðrávið og hafðu bakið beint. Ef hluturinn er verulega þungur, fáðu þá hjálp frá öðrum til þess að lyfta honum.
Sofðu rótt
Svefn er mikilvægur heilsu þinni á allan hátt. Líkami þinn þarf góðan nætursvefn til þess að laga sjálfan sig og þar með talið hryggsúluna. Reyndu eftir fremsta megni að sofa á hliðinni þar sem það veitir mestu hvíldina. Að sofa á maganum getur sett aukið álag á hryggsúluna og hliðin því betri kostur. Fjárfestu í góðri dýnu og kodda sem veitir líkama þínum nauðsynlegan stuðning.
Teygðu á
Þegar þú teygir á líkamanum tryggir þú hreyfigetu hans sem og eðlilega starfsemi vöðva og liða. Þá geta góðar teygjuæfingar komið í veg fyrir meiðsli. Að byrja daginn á léttum teygjum hjálpar þér að auka liðleika og hjálpar hryggsúlunni að viðhalda náttúrulegri virkni hennar.
Hreyfðu þig
Það eru meiri líkur en ella á því að þú upplifir verki í mjóbaki ef þú hreyfir þig lítið og ert í lélegu formi. Hvort sem það er regluleg mæting í ræktina, hjólreiðar, fótbolti, hlaup, fjallgöngur eða sund, svo dæmi séu tekin, þá er öll hreyfing holl fyrir hryggsúluna og kemur í veg fyrir að spenna, stirðleiki og önnur óþægindi í líkamanum láta á sér kræla. Bestu æfingarnar fyrir bakið þitt og hálsinn eru blanda af styrktaræfingum, þolæfingum og teygjum.
Vertu í kjörþyngd
Hreyfing í bland við hollt matarræði hjálpar þér að viðhalda kjörþyngd og vera í góðu líkamlegu formi. Fólk í ofþyngd er í meiri hættu á því að þróa með sér bakvandamál þar sem aukin þyngd, sérstaklega í kringum mittismálið, getur aukið álagið á vöðvum, liðböndum og sinum í bakinu.
Drekktu nóg af vatni
Þegar þú drekkur nóg af vatni viðheldur þú nauðsynlegum sveigjanleika í mjúkvef og liðamótum líkamans. Brjóskið á milli hryggjarliðanna er nokkuð berskjaldað og ónægur vökvi í líkamanum getur gert það að verkum að brjóskið glatar hæð sinni sem getur leitt til fjölda vandamála í hryggnum.
Hugaðu vel að vinnuaðstöðu þinni
Þegar þú hugar vel að því hvernig þú beitir þér í vinnunni getur þú komið í veg fyrir bakverki sem og verki í hálsi og öðrum útlimum. Tryggðu því að vinnuaðstaðan þín sé sniðin að þínum þörfum. Til dæmis, fyrir fólk í skrifstofustörfum, er mikilvægt að skrifborðið sé í réttri hæð, tölvan í hæfilegri fjarlægð, stóllinn rétt stilltur o.s.fr. Veldu skrifborðsstól sem stiður vel við mjóbakið þitt. Gættu þess að hnéin séu í 90 gráðu halla og fæturnir hvíli þægilega á gólfinu. Notaðu handfrjálsan búnað til þess að draga úr spennu í hálsinum. Síðast en ekki síst er gríðarlega mikilvægt að standa upp frá borðinu reglulega og fá sér göngutúr þar sem kyrrseta leiðir til þess að vöðvar líkamans stirðna upp.
Ekki líta framhjá viðvörunarbjöllunum
Þegar þig verkjar í bakið, hryggsúluna eða tengd svæði, ekki líta framhjá því. Þó svo að bakverkir séu algengir geta þeir eftir sem áður gefið til kynna að stærra vandamál sé í uppsiglingu. Ef þú vinnur ekki á þessum verkjum, til dæmis með meðferð hjá kírópraktor, getur eitthvað sem byrjaði sem smávægilegur bakverkur orðið eitthvað mikið stærra og alvarlegra. Hlustaðu á það sem líkaminn segir þér og hægðu á þér ef þarf í vinnu, á æfingum o.s.fr. – að minnsta kosti þar til þú hefur látið skoða þig og fengið leiðsögn um næstu skref.
Heimsókn til kírópraktors
Síðast en ekki síst er heimsókn til kírópraktors ávísun á bætta heilsu, líkamsstöðu og heilbrigðari hryggsúlu. Fyrir marga er heimsókn til kírópraktors leið til að enduruppgötva heilbrigði og vellíðan sem áður hafði gleymst. Fyrir aðra er hún ný upplifun og tækifæri til bættrar heilsu. Með því að vera í meðferð hjá kírópraktor eykur þú möguleika þína á heilbrigði, vellíðan og á því að vera í toppformi, andlega og líkamlega.