Þegar okkur tekst að auka brennslu líkamans erum við þeim mun líklegri til þess að losa okkur við óæskileg aukakíló, svo lengi sem við höldum fjölda kaloría, þ.e. því magni af mat sem við borðum, innan eðlilegra marka. Sumt fólk er þannig úr garði gert að þau geta borðað eins og þau vilja en virðast aldrei bæta á sig aukakílóum, að neinu ráði. Aðrir hins vegar þurfa sífellt að gæta hófs og eru þannig með hægari brennslu að eðlisfari. Þá hægist á brennslunni hjá flestum þegar aldurinn færist yfir.
Þegar kemur að kaloríu inntöku eru ýmsir þættir sem við getum hugað að til þess að draga úr óæskilegri kaloríu inntöku, eða með öðrum orðum, óæskilegum matar venjum.
Hér að neðan má sjá nokkur góð ráð sem gætu hjálpað þér að auka brennsluna sem og draga úr kaloríu neyslu þinni. Það er þó ávallt ráðlagt að ráðfæra sig við þar til gerða sérfræðinga þegar kemur að breytingum á matarræði og lífsstíl og best er að forðast drastískar breytingar sem lofa öllu fögru á þeim mun styttri tíma.
Borðaðu morgunverð
Það að sleppa því að borða morgunverð hljómar eins og góð leið til þess að draga úr kaloríu inntöku þinni. Staðreyndin er hins vegar sú að ef þú sleppir því að borða morgunverð eru mun meiri líkur á því að þú borðir óhollari og stærri máltíðir yfir daginn sem allra jafna leiðir af sér meiri þyngdaraukningu. Morgunmatur sem inniheldur gott magn af trefjum, fitum og próteini gefur þér góða orku inn í daginn, viðheldur brennslu og hjálpar þér að stjórna löngunum þínum í óhollari valkosti. Morgunmaturinn er því án efa nauðsynlegur þegar kemur að því að stjórna kaloríu inntöku þinni og auka brennslu.
Ekki drekka kaloríurnar
Kaffi og te innihalda ekki mikið af kaloríum en þegar þú bætir við mjólk, sykri, rjóma og annarskonar bragðaukandi efnum verða þessir náttúrulegu drykkir ögn óhollari, með tilliti til fjölda kaloría. Þá er aldrei ráðlagt að drekka mikið af gosdrykkjum, ávaxtasöfum, áfengi og öðrum tengdum drykkjum. Slík neysla felur í sér verulegt magn kaloría sem berast hratt út í blóðið og valda auðveldlega þyngdaraukningu með tímanum.
Hugaðu að snakkinu þínu
Þú sparar kaloríurnar og eykur bæði trefja og prótein inntöku þína með því að skipta yfir í heilsusamlegra nasl, svo sem hummus, gulrætur, paprikur o.s.fr. Þá er ágætt að skipta úr kartöfluflögunum yfir í heimagert poppkorn. Einnig getur verið góð regla að setja naslið í skál eða á disk í stað þess að borða það beint úr pokanum. Þannig eykst meðvitund þín gagnvart magninu sem þú lætur ofan í þig.
Lyftu lóðum
Þegar kemur að því að brenna kaloríur er líkamsrækt sem inniheldur vöðvauppbyggingu þitt sterkasta vopn. Ástæðan er sú að líkami þinn brennir kaloríum öllum stundum, jafnvel þegar þú ert ekki að hreyfa þig og þeim mun meiri vöðvar, þeim mun hraðari brennsla. Þegar þú hefur lokið krefjandi æfingu í ræktinni, vinna vöðvar líkamans hraðar sem eykur brennsluna enn frekar.
Minnkaðu matarskammtinn
Það getur verið gott ráð að huga vel að matarskammtinum og hafa það fyrir reglu að borða ekki of stóra skammta í hverri máltíð þinni yfir daginn. Sumir ganga svo langt að telja kaloríurnar ofan í sig en það er eftir sem áður ekki nauðsynlegt, svo lengi sem þú ert nokkuð meðvituð/meðvitaður um fjölda kaloría í þeirri fæðu sem þú neytir.
Drekktu vatn
Eins og áður hefur komið fram getur reynst varasamt að drekka kaloríur og því er besta ráðið að drekka þess í stað vatn. Vatn hjálpar líkama þínum að viðhalda eðlilegu rakastigi og tryggja eðlilega líkamsstarfsemi heilt yfir. Þannig er vatnsdrykkja nauðsynleg þegar kemur að því að tryggja brennslu og endurheimt líkamans eftir góða æfingu, sem og að melta fæðuna þína. Þá getur glas af vatni, hálftíma áður en þú borðar og tveimur klukkustundum eftir að þú borðar, hjálpað þér að halda matarskammtinum innan eðlilegra marka. Hafðu þó hugfast að vatn er ekki það sama og sódavatn þar sem rannsóknir sýna að sódavatns neysla getur ýtt undir sykurlöngun og þyngdaraukningu.
Borðaðu meira af próteini
Líkami þinn brennir kaloríum hraðar við það að melta prótein fremur en fitu og kolvetni. Þá þarfnast líkami þinn próteins til þess að byggja upp og viðhalda vöðvamassa. Þannig er heilsusamlegt matarræði ríkt af próteini en rannsóknir sýna að mörg okkar borða ekki nægilegt magn próteins en þess í stað aukið magn kolvetna. Skiptu því brauðinu út fyrir egg og hafðu þeim mun meira af kjöti eða fiski á matardisknum og minna af kartöflum og pasta.
Borðaðu rólega
Þegar þú borðar rólega og meðvitað hjálpar þú líkama þínum að skynja hvenær hann er saddur. Þannig borðar þú minna en gefur jafnframt líkama þínum tækifæri á því að melta fæðuna hægar. Taktu því smærri bita og tyggðu hægar. Hugsaðu um hvaðan maturinn kom og hversu langan tíma það tók að elda hann og gera hann bragðgóðan.
Settu upp matarplan
Það getur reynst mun auðveldara að keyra framhjá skyndibita stöðunum á leið úr vinnunni ef þú hefur þá þegar ákveðið hvað þú ætlar að hafa í matinn heima fyrir. Veldu uppskriftir sem innihalda gott magn af hollum fitum, gæða kolvetnum og próteini en innihalda jafnframt minna magn af kaloríum.