Að lifa heilbrigðu líferni og líða vel er eitt það allra mikilvægasta sama á hvaða aldri við erum. Það getur reynst öllum erfitt að takast á við breytingar sem verða á líkama okkar og sál með hækkandi aldri. Breytingar eiga sér stað alla lífsleiðina en gott er að hafa í huga að ekki er að finna samasemmerki á milli öldrunar og skertra gæða þegar kemur að heilsu.
Því miður er það algengt að með hækkandi aldri byrjum við að skapa hjá okkur kvíða, hræðslu og auknar áhyggjur af okkur sjálfum sem og þeim sem í kringum okkur eru. Sannleikurinn er sá að við erum flest öll sterkari líkamlega og andlega en við trúum og getum vel viðhaldið þeim styrk og jafnvel aukið hann með árunum. Það er aldrei of seint að viðhalda eða hefja heilbrigt líferni.
Í þessari grein verður fjallað um nokkra hluti fyrir eldri kynslóðina til þess að hafa í huga til þess að viðhalda góðri líkamlegri- og andlegri heilsu sem lengst. Greinin er unnin úr greinum af síðum HelpGuide og WebMD.
Næring
Það hefur sýnt sig og sannað með niðurstöðum fjölda rannsókna í gegnum tíðina að gott mataræði getur haft áhrif á langlífi og spornað gegn ýmsum sjúkdómum. Gott er að einbeita sér að því hvað maður ætlar að borða og hvers vegna, frekar en að einbeita sér að því hvað maður ætlar ekki að borða. Þetta er spurning um að velja betri kostinn þegar kemur að fæðu. Með þessu er átt við að reyna eftir bestu getu að ná inn næringu úr hreinni fæðu á borð við grænmeti, ávöxtum, hnetum og svo framvegis. Einnig að reyna að sniðganga mikið unna fæðu og neyta sykurs, koffíns og áfengis í mjög hóflegu magni.
Trefjarík fæða sem dæmi gefur góða seddu til lengri tíma og getur lækkað kólesteról magn líkamans. Trefjarík fæða hjálpar einnig til þegar kemur að hægðatregðu sem getur verið algengari hjá eldra fólki og því kjörið að einbeita sér að því að ná inn sínum trefjum daglega. Fullorðið fólk ætti að reyna að ná inn 25-30 grömmum af trefjum á hverjum degi.
Hreyfing
Hreyfing af einhverju tagi daglega hefur góð áhrif á langlífi. Gott er að setja sér það að markmiði að ná að minnsta kosti inn 30 mínútum af hreyfingu alla daga. Þessar mínútur þurfa ekki að gerast í einni æfingu heldur er vel hægt að brjóta hana upp í styttri æfingar yfir daginn. Það skilar af sér góðum heilsubótum að ná hjartslættinum aðeins upp hvern einasta dag. Hreyfing hjálpar til dæmis við að virkja frumur heilans og streymi súrefnis- og blóðflæðis til líffæra. Ekki sakar það heldur að hreyfing styrkir vöðva og bein, hefur góð áhrif á svefn, getur haft góð áhrif á þyngdina og síðast en ekki síst léttir lundina.
Félagslíf og áhugamál
Einmanaleiki getur haft neikvæð áhrif á heilsu einstaklinga. Margir hverjir uppgötva ný áhugamál þegar þeir komast á fullorðinsaldur, jafnvel eftir fimmtugt. Því miður eru margir sem binda sig við frasann „erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja“ og einfaldlega trúa því ekki að þeir hafi þann möguleika að læra nýja hluti eftir ákveðinn aldur. Sannleikurinn er sá að eldra fólk hefur að baki sér reynslu og fróðleik sem getur einfaldlega auðveldað þeim að aðlagast nýjum hlutum og áhugamálum. Hér snýst þetta um að hafa trú á eigin getu og sjálfstraust til nýrra verkefna.
Það getur reynst erfitt að viðhalda félagslegum tengslum þegar við eldumst og leiðir okkar við gamla vini liggja ekki endilega jafn oft saman. Þetta getur gerst sem dæmi við starfslok eða flutninga. Hér er þetta spurning um að drífa sig út úr húsi og skipuleggja hittinga með vinum og vandamönnum. Ef það reynist ógerlegt er hægt að taka upp símann eða senda bréf. Reyndu að eyða tíma með að minnsta kosti einni manneskju á hverjum degi sama hverjar aðstæður eru. Það hefur jákvæð áhrif á öldrun. Að ganga í félagsstarf eða íþróttir er einnig frábær leið til að auka áhugamál okkar og á sama tíma félagslegt tengslanet. Að læra nýjar athafnir bætir ekki aðeins andlega heilsu, heldur getur einnig haft góð áhrif á líkamlega heilsu.
Svefn
Svefnleysi er því miður algengt hjá fólki á öllum aldri og ekki síður fullorðnu fólki. Bæði vegna þess að við einfaldlega gefum okkur ekki nægan tíma fyrir svefn eða okkur reynist erfitt að sofna á kvöldin og halda okkur sofandi. Hér er lykilatriði að huga vel að svefni okkar og jafnvel halda úti svefndagbók. Það hjálpar einnig til að fara að sofa á svipuðum tíma öll kvöld og vakna á svipuðum tíma alla morgna. Við það helst líkamsklukkan á réttu róli. Allir ættu að ná inn 7-9 klukkustundum af svefni daglega.
Andlega hliðin
Að viðhalda góðri heilsu andlega er ekki síður mikilvægt en að viðhalda góðri heilsu líkamlega. Góð andleg heilsa hefur jákvæð áhrif á líkamlega heilsu og öfugt. Mikilvægt er að einbeita okkur að því sem við eru þakklát fyrir. Þegar við hættum að taka hlutum sem sjálfsögðum, þá byrjum við að meta betur og njóta þess sem við eigum og höfum.
Jákvætt og bjartsýnt hugarfar hefur góð áhrif á líkamlega heilsu. Það er aldrei of seint að temja sér jákvætt hugarfar, það tekur tíma og æfingu en þegar uppi er staðið er það algjörlega þess virði.
Hér eru nokkrar æfingar til þess að efla lífsgleðina:
– Brostu, jafnvel þó það sé erfitt, það getur hjálpað til við að draga úr streitu og vanlíðan.
– Snúðu hugsunum þínum að góðu hlutunum í stað þess að dvelja við það slæma.
– Haltu úti þakklætisdagbók, skrifaðu niður til dæmis þrjá hluti hvern dag sem þú ert þakklát/þakklátur fyrir einmitt núna.
– Gerðu góða hluti fyrir aðra í kringum þig.
– Umkringdu þig fólki sem efla þig og þín markmið með hvatningu og jákvæðni.
– Samþykktu þá hluti sem þú getur ekki breytt eða haft áhrif á.
Mikilvægast er að falla ekki fyrir þeirri trú að þegar við eldumst þá sjálfkrafa líði okkur ekki jafn vel eða að heilsa okkar hraki. Það er vissulega rétt að öldrun felur í sér líkamlegar breytingar en öldrun þarf ekki að fela í sér vanlíðan. Rétt mataræði, hreyfing, félagsleg tengsl og að hugsa um sjálfan sig eru allt þættir sem vinna bug á vanlíðan. Það er aldrei of seint að byrja. Sama hversu gömul við erum eða hversu óheilsusamleg við höfum verið áður, þá getum við alltaf byrjað að auka vellíðan okkar líkamlega og andlega.