fbpx Skip to main content
shutterstock_243483301 (1).jpg

Mörg þekkjum við þá tilfinningu, dagana eftir jólahátíðina, að vilja kveðja veisluhöldin og setja okkur markmið um hollara mataræði. Við viljum gjarnan segja bless við konfektkassana, kveðja saltið og ofátið og taka á móti nýju ári, full af orku og geislandi af heilbrigði. Slík markmið eru að sjálfsögðu af hinu góða en mikilvægt er að huga vel að markmiðunum sjálfum, setja okkur raunhæf viðmið og muna að heilbrigður lífsstíll er langhlaup, ekki spretthlaup.

Þá er algjört lykilatriði að þakka fyrir allt það góða og leyfa okkur að njóta alls þess sem hátíðin færði okkur, án samviskubits, þar með talið í mat og drykk.

Fyrstu skrefin í átt að heilsusamlegra mataræði

Þegar kemur að því að núlstilla okkur og skipta um gír er mikilvægt að hafa nokkra þætti í huga. Á vef WebMD er einmitt farið yfir sjö góð ráð sem gott er að tileinka sér í ferlinu, nánar tiltekið:

1. Heilbrigt matarplan

Þegar talað er um heilbrigt matarplan skal ekki taka því sem svo að hér sé eingöngu um brokkolí og soðinn fisk að ræða. Hugtakið felur í sér heilbrigði sem er sjálfbært til lengri tíma litið, þ.e. matarplan sem samanstendur af annars vegar hollri fæðu, að sjálfsögðu, en hins vegar af fæðu sem þér þykir bragðgóð og hefur dálæti á. Eitthvað sem þú getur hugsað þér að borða til lengri tíma litið og er vissulega í hollari kantinum. Sem dæmi má nefna grænmeti, ávexti, fisk, kjöt, kornmeti, hnetur og fræ. Haltu þig frá unnum matvörum sem og matvörum sem innnihalda einföld kolvetni, eins og til dæmis kex, kökur, sælgæti o.s.fr.

Þá er mikilvægt að gæta meðalhófs og hafa matseðilinn fjölbreyttan.

2. Taktu eitt skref í einu

Breytingar geta verið erfiðar. Það að taka eitt skref í einu og brjóta markmiðið niður í smærri einingar getur hjálpað þegar kemur að því að bæta mataræðið. Sumir sérfræðingar mæla jafnvel með því að gera einungis eina breytingu í hverri viku, sem gefur þér þá tækifæri til þess að venjast breytingunum. Sitt sýnist hverjum í þessum málum en lykilatriðið er að muna það að ekki er þörf á stórkostlegum breytingum fyrsta daginn. Markmiðið er að gera hollt mataræði að lífsstíl, ekki skammtíma megrunarkúr.

3. Settu þér raunhæf markmið

Líkt og kom fram í skrefi tvö snýst þetta um að setja sér raunhæf markmið sem eru mælanleg og sérsniðin að hverri manneskju fyrir sig. Skilgreindu hvað það er nákvæmlega sem þú vilt ná fram og lestu þér til um hvað þarf til þess að ná settum markmiðum.

4. Verðlaunaðu þig í stað þess að refsa þér

Til þess að halda dampi og fókus á markmiðin er mikilvægt að verðlauna sig á vegferðinni í átt að hollara mataræði og betri heilsu. Þegar þú hefur skilgreint markmiðin og brotið þau niður í smærri skref, skilgreindu þá hvenær þú getur fagnað öllum þeim árangri sem þú kemur til með að ná á leiðinni. Það að gera mistök er svo eðlilegur hluti af ferlinu og þó svo að þú misstígir þig skaltu ekki refsa þér fyrir það. Í stað þess skaltu einfaldlega sýna sjálfri/sjálfum þér skilning og halda svo ótrauð/ur áfram í átt að settum markmiðum.

5. Fáðu vini eða fjölskyldu með þér í lið

Stuðningur er mikilvægur partur þegar kemur að stórkostlegum breytingum á okkar lífsháttum. Það að geta deilt með öðrum eigin líðan, rætt áskoranir, fagnað sigrum og fengið hjálp í gegnum þá hóla og hæðir sem verða á vegi okkar, í átt að settum markmiðum, er gríðarlega mikilvægt. Reyndu því að sannfæra fólkið í kringum þig um ágæti þess að skipta um gír og setja markið hærra þegar kemur að mataræðinu og heilsunni. Það hjálpar bæði þeim sem og þér í átt að betra lífi og líðan.

6. Skrifaðu niður það sem þú borðar

Það eitt að skrifa niður það sem þú borðar getur hjálpað þér að skapa yfirsýn og gert verkefnið raunverulegra.

7. Bættu hreyfingu við rútínuna

Í þessari grein er mataræðið vissulega til umræðu en nátengt hollu mataræði er hreyfingin. Ástæðan er einfaldlega sú að hollt mataræði og hreyfing helst gjarnan í hendur. Það að við hreyfum okkur hvetur okkur til þess að borða hollt. Sem og öfugt, það að borða hollt gefur okkur aukna orku til þess að hreyfa okkur. Það að ætla að taka mataræðið í gegn gefur þér því aukinn kraft og fleiri ástæður til þess að hreyfa þig líka.

Settu því hreyfinguna á dagskrá yfir daginn þinn. Gættu þess að hafa alltaf lausan tíma fyrir hreyfinguna og fáðu aðstoð frá vinum eða sérfræðingum við að setja saman gott æfingaplan sem hjálpar þér í átt að betri heilsu.

This site is registered on wpml.org as a development site.