fbpx Skip to main content

Hefur þú hugsað um hvar þú vilt vera eftir fimm ár? Ertu með á hreinu hver markmið þín eru í vinnunni þessa dagana? Hverju vilt þú hafa áorkað í lok dags?

Ef þú vilt ná árangri í lífinu getur verið gott að setja þér markmið. Án markmiða skortir þér áherslur og skýra stefnu. Markmið geta veitt þér aðhald og út frá þeim getur þú sett viðmið og mælikvarða sem nýtast þér á vegferð þinni í átt að settu takmarki.

Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu markmiðið sjálft, þ.e. að setja sér markmið en áður en þú gerir það getur verið gott að fræðast örlítið betur um markmiðasetningu. Markmiðasetning er ákveðið ferli sem byrjar með vandlegri íhugun um hverju þú vilt áorka og hversu mikla vinnu þú ætlar þér að leggja í vegferðina. Mikilvægt er að markmiðin séu vel ígrunduð og innan ákveðins ramma sem bæði gerir þau raunhæf og ákjósanleg.

Hér að neðan má sjá fimm góðar reglur markmiðasetningar sem ættu að gagnast þér við að setja góð og skýr markmið í lífi þínu.

1. Settu þér markmið sem veita þér hvatningu

Þegar þú setur þér markmið er mikilvægt að það veiti þér hvatningu. Það þýðir í raun að markmiðið í sjálfu sér þarf að vera þér mikilvægt og færa þér aukin gildi og lífsfyllingu. Ef þú setur þér markmið sem hefur litla þýðingu fyrir þig er líklegt að þú munir ekki leggja á þig þá nauðsynlegu vinnu sem þarf til þess að ná settu markmiði. Hafðu því markmiðin á þá leið að þau höfði til þeirra þátta sem skipta þig raunverulegu máli og þegar þú nærð markmiðinu færi það þér betra líf. Með þessu móti skapar þú þér næga hvatningu til þess að leggja í þá erfiðisvinnu sem þarf til þess að ná markmiðinu. Góð leið til þess að finna út hvaða markmið eru þess virði að sækjast eftir er að skrifa þau niður á blað og láta fylgja með röksemdarfærslu um hvers vegna þetta markmið mun bæta líf þitt. Berðu það jafnvel undir þína nánustu og notaðu röksemdarfærsluna til þess að sannfæra þá um að þetta sé markmið sem vert sé að sækjast eftir.

2. Settu þér svokölluð „SMART“ markmið

Hér er tilvísun í enska tungu en með „SMART“ markmiðasetningu er átt við að markmiðin þurfi að vera:

Nákvæm og afmörkuð (specific)

Mælanleg (Measurable)

Raunhæf (Attainable)

Viðeigandi fyrir þig (Relevant)

Innan ákveðins tímaramma (Time Bound)

Þegar talað er um að markmið þurfi að vera nákvæm og afmörkuð er átt við nauðsyn þess að skilgreina markmiðin vel og hafa þau skýr og skilmerkileg. Ef markmið þitt er að létta þig, ekki hafa þá markmiðið „að létta mig“ heldur „að léttast um 10kg“, svo dæmi séu tekin. Þetta dæmi nær líka til mælanlega hlutans, þ.e. nauðsyn þess að markmiðið sé mælanlegt þannig að hægt sé að meta árangur og raunverulega frammistöðu. Þá er mikilvægt að hægt sé að ná markmiðinu og að það sé raunhæft. Markmiðið þarf auk þess að vera viðeigandi fyrir þig, þ.e. að veita þér einhverja lífsfyllingu, gildi og bæta líf þitt heilt yfir. Ekki setja þér markmið byggð á skoðunum, þörfum eða löngunum annarra. Að lokum þarf markmiðið að vera sett innan ákveðins tímaramma. Ef aftur er litið til þess markmiðs að missa nokkur aukakíló getur verið gott að segja sem dæmi; „ég ætla að missa 10kg á næstu 6 mánuðum“.

3. Skrifaðu markmiðin niður

Það að skrifa markmiðin niður á blað gerir þau bæði raunverulegri og áþreifanlegri. Með þessu móti hefur þú enga afsökun fyrir því að gleyma markmiðunum. Þá er mikilvægt að nota rétt orðalag þegar þú skrifar markmiðin niður. Skrifðu frekar „ég mun“ í stað „mig langar“ þar sem það fyrra setur jákvæða pressu á þig en það síðara gerir þér auðveldara fyrir að gefast upp.

4. Settu upp aðgerðaráætlun

Þetta skref gleymist gjarnan þegar kemur að markmiðasetningu. Þegar öll einbeitingin er á markmiðinu sjálfu gleymist oft vegferðin að settu marki. Stór og mikilvæg markmið krefjast allra jafna fjölda smærri skrefa í ákveðnu ferli. Því getur verið gott að setja upp aðgerðaráætlun sem inniheldur áður nefnd skref og smærri áfangasigra. Sem dæmi gætir þú skrifað upp markmið þitt efst á blað og svo fyrir neðan skrifar þú alla þá hluti sem þú þarft að gera til þess að ná settu markmiði. Þegar hverjum hluta plansins er lokið getur þú strikað yfir viðkomandi hlut og þannig verður aðgerðaráætlunin, sem og markmiðið sjálft, meira lifandi.

5. Haltu vegferðina út!

Mundu það að markmiðasetning er langt ferli en ekki endastöð. Taktu þér tíma til þess að fara yfir markmiðin og aðgerðarplanið. Þú getur þurft að gera breytingar á miðri leið, skipta um áherslur o.s.fr. Þó svo að markmiðin eigi ekki að breytast geta nauðsynlegar breytingar verið af hinu góða til þess að halda út vegferðina og að endingu ná settum markmiðum.

Þessi grein er byggð á áður birtri grein á vefsíðu Mind Tools

This site is registered on wpml.org as a development site.