Samkvæmt hefðbundnum læknisfræðilegum heitum er fyrirbærið hryggþrengsli (e. Spinal stenosis) allra jafna lýst sem óeðlilegum þrengslum í hryggsúlu. Þó svo að sumir fæðist með ákveðna lögun á hryggsúlunni, eru hryggþrengsli allra jafna hluti af keðjuverkun sem á sér stað í hrörnunar ferli líkamans. Þó svo að sumir finni lítið fyrir hryggþrengslum fyrst um sinn koma einkennin gjarnan fram með tímanum. Þá er gjarnan um að ræða verki, dofa og þreytu í líkamanum, sem orsakast af klemmdum taugum í hryggsúlunni.
Hryggþrengsli og öldrun líkamans
Flestir þeir sem kljást við hryggþrengsli og einkenni vegna þess eru komnir yfir fimmtugt. Er þar í flestum tilvikum, eins og áður segir, orsökin einhverskonar hrörnun í hryggsúlunni. Í einstaka tilvikum geta hryggþrengsli hins vegar komð fram hjá ungu fólki en allra jafna gerist slíkt vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma, erfðagalla eða slysa.
Hryggþrengsli í mjóbaki og hálsi
Allra jafna er um tvennskonar hryggþrengsli að ræða hjá einstaklingum, þ.e.a.s. hryggþrengsli í mjóbaki (e. Lumbar stenosis) eða hryggþrengsli í hálsi/hnakka (e. Cervical stenosis).
Þegar um hryggþrengsli í mjóbaki er að ræða finnur viðkomandi einstaklingur fyrir einkennum vegna klemmdra tauga neðst í mjóbakinu sem aftur myndar óþægindi og/eða sársauka niður í rass og fótleggi, sérstaklega þegar viðkomandi er að hreyfa sig.
Hins vegar þegar um hryggþrengsli í hálsi/hnakka er að ræða myndast ákveðinn þrýstingur á mænuna sjálfa og þar með miðtaugakerfi líkamans. Hér er oft því um alvarlegri einkenni að ræða og oft þörf á róttækari aðgerðum, til dæmis skurðaðgerð, til þess að koma í veg fyrir óafturkræfar afleiðingar hryggþrengslanna.
Hver eru helstu einkenni hryggþrengsla?
Allra jafna finna einstaklingar með hryggþrengsli fyrir eftirfarandi einkennum, þó mismikið eftir atvikum.
Hryggþrengsli í hálsi og hnakka:
-
Dofi eða verkur í höndum og fótum
-
Þróttleysi í höndum og fótum
-
Vandamál með gang og jafnvægi
-
Verkur í hálsi eða hnakka sem jafnvel leiðir upp í höfuð
-
Ef um slæm hryggþrengsli er að ræða getur það haft áhrif á hægðir og þvaglát (hægðatregða – tíð þvaglát o.fl.)
Hryggþrenglsi í mjóbaki:
-
Dofi eða verkur í höndum og fótum
-
Þróttleysi í höndum og fótum
-
Verkir og krampar í öðrum eða báðum fótleggjunum eftir að hafa staðið í langan tíma eða eftir langar göngur, sem allra jafna lagast þegar þú hallar þér fram eða sest niður
-
Verkir í bakinu
Þessi einkenni koma gjarnan fram hægt og rólega yfir langt tímabil. Sömuleiðis eru einkennin ekki endilega viðvarandi heldur koma og fara, þá sérstaklega þegar um ákveðna hreyfingu er að ræða, til dæmis eftir göngu, hjólreiðar eða aðrar íþróttir sem krefjast ákveðna hreyfinga. Þá er líklegt að um hryggþrengsli sé að ræða ef þú finnur fyrir létti við það eitt að setjast niður eða halla þér fram.
Helstu meðferðarúrræði og fyrirbyggjandi aðgerðir við hryggþrengslum
Þegar kemur að því að fyrirbyggja og reyna að draga úr einkennum hryggþrengsla er hægt að notast við fjölmargar leiðir. Þær helstu eru meðal annars:
Hreyfing og líkamsrækt
Meðferð hjá kírópraktor eða öðrum viðurkenndum meðferðaraðilum
Breytingar á lífsstíl
Lyfjagjöf
Skurðaðgerðir í alvarlegustu tilvikunum