Hugleiðsla

Í stuttu máli er markmiðið með hugleiðslu að kynnast huganum sínum og læra að þekkja hugsanamynstur sín. Með hugleiðslu lærir þú að dvelja í augnablikinu, en auk þess eflir þú einbeitingu þína ef þú stundar hugleiðslu reglulega.

Hugleiðsla gerir öllum gott, hvert sem að þeir stefna í lífinu. Mikið af afreksíþróttamönnum stunda hugleiðslu til þess að hjálpa sér að verða betri íþróttamenn. Aðrir stunda hugleiðslu til þess að stíga út úr amstri dagsins og inn á stað þar sem þeir ná að hvíla huga og líkama.

Fjöldinn allur af vísindalegum rannsóknum hefur sýnt fram á jákvæð áhrif hugleiðslu. Það er í raun hægt að virkja, stækka og styrkja ákveðin hamingju- og einbeitingarsvæði í heilanum með reglulegri hugleiðsluiðkun. Það þarf ekki endilega rannsóknir til að sýna fram á þetta því að þeir sem iðka hugleiðslu að staðaldri eru sammála um að hugurinn verði rólegri, þeir öðlist betri stjórn á skapi og tilfinningum, dagleg orka aukist og að öll verkefni verði auðveldari. Hugleiðsla hefur einnig góð heilsufarsleg áhrif. Í hugleiðsluástandi verður öndunin dýpri og meðvitaðri, en með góðri öndun starfar líkaminn betur í heild sinni, blóðþrýstingur lækkar, stresshormón minnka og svefn verður betri. Kostir hugleiðsluiðkunar eru margir, en best er að upplifa góðu áhrifin sjálfur.

Það er ekkert vesen að stunda hugleiðslu. Í rauninni þarf aðeins að ákveða fyrirfram að ætla að gefa sér 10-20 mínútur á dag til þess að hugleiða, setjast síðan niður og byrja. Á þessum tíma ætti að vera hægt að ná góðri og djúpri einbeitingu sem skilar sér í mikilli vellíðan eftir á.

Góðir punktar um hugleiðslu

  • Finndu þér stað, einn með sjálfum þér, þar sem áreiti eins og hringjandi sími, tölva, önnur manneskja eða hávær umhverfishljóð trufla þig ekki. Ef einhver umhverfishljóð eru þá þarf að sætta sig við það og láta það ekki trufla sig.
  • Hugleiðslutónlist, kerti, reykelsi eða aðrir hlutir auðvelda sumum að undirbúa hugleiðsluástand.
  • Reyndu að hugleiða á sama tíma í sama umhverfi á hverjum degi. Það skapar rútínu sem auðveldar framkvæmd hugleiðslunnar.
  • Stilltu lágværa vekjaraklukku, til dæmis á símanum, en hafðu samt símann á „hljóðlaust“. Þá getur þú einbeitt þér að hugleiðslunni á meðan á henni stendur í stað þess að vera alltaf að hugsa um hvað tímanum líður.
  • Hugleiðslustellingar eru margar; að sitja á stól eða upp við vegg með beinar fætur, að sitja með krosslagðar fætur, standa, ganga, liggja, allt eru þetta ágætar stellingar. Einnig er val hvort að þú hugleiðir með opin eða lokuð augun. Gerðu það sem þér líður best með.
  • Hugurinn fer yfirleitt á fullt í byrjun hugleiðslu og það virðist sem lítil stjórn sé á þessum hugsunum. Markmiðið með hugleiðslu er ekki að tæma hugann, heldur að vera meðvitaðri um hugsanirnar sínar. Með aukinni meðvitund um hugsanir þínar, öðlast þú meira innra jafnvægi.
  • Hugleiðsla hefur einstaklega góð áhrif, bæði á huga og líkama. Margir segjast ná betri tengslum við sjálfan sig.
  • Þegar að hugleiðslunni líkur er gott að koma rólega til baka, til dæmis með því að veita umhverfishljóðum gaum, andvarpa, teygja sig og opna síðan augun.

Að iðka hugleiðslu og róa hugann einu sinni á dag er ávísun á meiri vellíðan dagsdaglega, andlega sem og líkamlega. Gefum okkur tíma til að næra andann með ástundun hugleiðslu á hverjum degi.