fbpx Skip to main content

Í hinum fullkomna heimi myndum við aðeins borða mat sem væri hundrað prósent náttúrulegur og þar með þyrfti enga innihaldslýsingu, samanber grænmeti, ávexti, hentur, fræ og aðra ferska matvöru. Við erum hins vegar öll mannleg og lifum í þannig samfélagi að oft á tíðum þurfum við að borða mat sem búið er að pakka inn fyrir okkur, sem í flestum tilvikum inniheldur einhverskonar viðbætt efni.
Til þess að sporna við óhollum valkosti er því mikilvægt fyrir okkur að skoða vel innihaldslýsinguna til þess að geta tekið greinargóða afstöðu um hvort varan sem við keyptum sé holl og góð eða stútfull af óæskilegum efnum sem valda líkama okkar vandræðum.

En hvað er það nákvæmlega sem þú þarft að leita eftir, til þess að koma í veg fyrir að þú innbyrðir eitthvað óhollt?

Hér að neðan má sjá lista frá næringarráðgjöfum, sem vefurinn Men‘s Health tók saman, þar sem þeir telja upp þá sex þætti í innihaldslýsingum sem þú ættir aldrei að láta framhjá þér fara.

Innihald

Þegar þú kaupir matvörur á annað borð er mikilvægt fyrir þig að vita hvað matvaran inniheldur. Innihaldslýsingin telur upp öll þau næringarefni sem og þau skaðlegu efni sem matvaran inniheldur. Efnunum er raðað niður eftir magni, þ.e. matvaran inniheldur mest af efnunum sem talin eru upp fyrst og minnst af þeim sem talin eru upp seinast. Gott er að hafa í huga að þeim mun styttri innihaldslýsing, þeim mun betra. Þá er mikilvægt að einblína á þau efni sem eru talin fyrst upp í innihaldslýsingunni og undir flestum kringumstæðum ættir þú að þekkja þau og skilja hvaða hlutverki þau gegna og hvaða áhrif þau hafa.

Skammtastærð

Oftar en ekki er innihaldslýsingum skipt upp í annars vegar 100gr og hins vegar skammtastærð. Sem dæmi; snakkpoki sem vegur 100gr er skipt upp í skammtastærð sem vegur 30gr og þar segir að kaloríufjöldi skammtastærðarinnar sé einungis 200 kolríur. Margir geta misskilið þetta og haldið að allur snakkpokinn innihaldi einungis 200 kaloríur, í stað rúmlega 600. Hafðu því augun opin fyrir mismunandi skammtastærðum og reyndu að reikna út sirka hversu mikið þú borðar í senn og hvort það samræmist skammtastærðinni.

Viðbættur sykur

Fullorðin manneskja má borða sirka 30-40gr af viðbættum sykri á dag, samkvæmt alþjóðlegu heilbrigðis stofnuninni. Inn í þessu viðmiði er ekki sykur sem þú færð úr ávöxtum eða öðrum náttúrulegum matvælum. Unnin matvæli og pakkamatur innihalda gjarnan viðbættan sykur og því mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu mikinn sykur maturinn inniheldur. Gott er að halda sig við áður nefnd viðmið og reyna eftir fremsta megni að fara ekki umfram þau. Þá er gott að hafa í huga að fjölmörg heiti eru notuð yfir sykur og því getur hann leynst inn í milli.

Prótein magn

Það er mikilvægt að þau matvæli sem við neytum innihaldi prótein. Reyndu því að fiska eftir matvörum sem eru með að lágmarki 10gr af próteini. Ef þú finnur ekki slíkar vörur, eða þú vilt heldur fá þér brauð, kex eða annað síkt, reyndu þá eftir fremsta megni að borða próteinríkar fæðutegundir með, svo sem hnetur og fræ. Prótein hjálpar okkur að byggja upp og viðhalda vöðvamassa, jafna okkur fljótar eftir æfingar og þá hjálpar það okkur að verða saddari eftir máltíð.

Trefjar

Eitt næringarefni sem oftar en ekki gleymist að nefna en er eftir sem áður gríðarlega nauðsynlegt fyrir okkur er trefjar. Þetta lífsnauðsynlega næringarefni er okkur mjög mikilvægt og því nauðsynlegt að matvælin innihaldi trefjar í góðu magni, a.m.k 3gr í hverjum skammti. Þegar kemur að pakkamat má finna trefjar í morgunkornum, orkustykkjum og grófu brauði.

Transfitur

Lífsnauðsynlegar fitur eru meinhollar en aftur á móti eru unnar fitur og þá sérstaklega transfitur einkar óhollar. Transfitur geta haft neikvæt áhrif á kólesteról og aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Pakkamatur inniheldur oft transfitur sem nauðsynlegt er að forðast. Aftur á móti er nauðsynlegt fyrir þig að fá mettaðar fitur og því algjör óþarfi að sneiða framhjá fituríkum matvælum, svo lengi sem það eru hollar og góðar fitur.

This site is registered on wpml.org as a development site.