
Við könnumst mörg við það að fá samviskubit eftir jól og áramót því við teljum okkur hafa borðað óhóflega mikið, æfingin okkar dottið úr rútínu og fleira. Mikilvægt er að hlúa að líkamlegri- og andlegri heilsu yfir hátíðirnar og leyfa okkur að njóta án samviskubits. Hér ætlum við að fara yfir nokkra þætti sem gott er að minna sig á og geta aðstoðað okkur við að njóta jóla og áramóta sem best og í núvitund.
Samverustundir og þakklæti
Flest öll tengjum við jólin við góðar samverustundir með vinum og fjölskyldu. Gott er að minna sig á það reglulega að jólin snúast hvað mest um þann mikilvæga tíma, vináttu, þakklæti og kærleika. Þrátt fyrir sóttvarnaraðgerðir og tilheyrandi takmarkanir þetta árið er jafnvel en mikilvægara að njóta sem mest með sínum allra nánustu upp á andlega heilsu að gera. Samverustundir geta verið fjölbreyttar, allt frá því að horfa á góða jólamynd, spila spil eða fara í göngutúr.
Næring
Það fylgir gjarnan jólum og áramótum mikill matur og kræsingar hér og þar. Mikilvægt er að halda inni næringarríkum mat á móti þess sem maður fær sér kræsingar. Einnig skiptir það miklu máli að refsa sér ekki eða rífa sig niður eftir að hafa borðað of mikið af kræsingum og mat. Hér er lykilatriði að vera í núvitund, minna sig á að maður var að njóta góðs matar í góðum hópi og ekkert stendur í vegi fyrir því að maður fái sér næringarríka máltíð næst. Reynum að einbeita okkur frekar að því góða sem við borðum og gerum frekar en að draga okkur niður fyrir að misstíga okkur. Gott er að hafa það á bakvið eyrað að reyna að ná inn próteini og trefjum í hverri máltíð, drekka vatnið okkar og taka inn vítamínin okkar. Það er einnig gott ráð að byrja alla daga á næringarríkri máltíð áður en maður fer í jólaboðið, það getur hjálpað til við að halda okkur í hóflegu magni konfekts og kræsinga.
Margir þekkja þá hugsun að ætla sér að taka mataræðið alveg í gegn strax eftir hátíðirnar. Sumum þykir til dæmis gott að skrifa niður það sem þeir borða til að halda ennþá betur utan um næringuna. Sú aðferð getur gefið góða yfirsýn yfir næringuna og hjálpað til við að fá skilning á þörf líkamans á næringu þegar til dæmis kemur að skammtastærðum. Hér eins og svo oft áður er mikilvægt að fara rólega af stað inn í nýja árið. Við mælum frekar með að taka lítil skref í einu í aðlögunarferlinu heldur en að ætla sér að hreinsa út allt strax.
Hreyfing
Þrátt fyrir að margt getur verið í gangi yfir hátíðirnar er einna mikilvægast að ná að halda inni daglegri hreyfingu. Á sama tíma og við viljum halda inni hreyfingu hjá okkur er lykilatriði að svefninn okkar sé góður og í rútínu. Næringarríkt mataræði og hreyfing helst gjarnan í hendur og því getur dagleg hreyfing hjálpað til við gott mataræði og öfugt, því er mikilvægt að halda báðum þeim þáttum inni yfir hátíðirnar. Dagleg hreyfing þarf ekki að þýða að mæta í líkamsræktarstöðina á hverjum degi heldur getur dagleg hreyfing verið göngutúr eða önnur útivist sem dæmi með fjölskyldu eða vinum. Þar er auðvelt að slá tvær flugur í einu höggi með hreyfingu og samverustund á sama tíma.
Raunhæf markmið
Líkt og með mataræðið þekkjum við það mörg að ætla okkur að tækla öll heimsins markmið á nýju ári. Við ætlum okkur að vera dugleg í ræktinni, fara snemma að sofa, flokka rusl og svo framvegis. Allt eru þetta góð og gild markmið en geta þó verið yfirþyrmandi þegar líður á. Þegar kemur að markmiðum fyrir nýtt ár er mikilvægt að hafa þau raunhæf og mælanleg fyrir hvern og einn. Ekki ætla sér of mikið í einu og hrósa sér fyrir vel unnin störf.
Þegar öllu er á botninn hvolft snúast jólin um góðar stundir með okkar nánustu fjölskyldu og vinum. Slíkar samverustundir geta verið margvíslegar, að borða góðan mat, spila spil, afþreying úti í náttúrunni og fleira. Hér höfum við farið yfir nokkur ráð til þess að halda góðri rútínu yfir jólin, en á sama tíma og við höldum rútínu er mikilvægt að leyfa okkur að njóta án samviskubits í þennan stutta tíma. Þegar litið er á stóru myndina snýst heilbrigt líferni um hverjar venjur okkar eru allt árið frekar en nokkra daga yfir jól og áramót eða aðra tyllidaga. Heilbrigt líferni er langhlaup en ekki spretthlaup.
Gleðileg heilsusamleg jól 🙂