Kælipokar koma að einstaklega góðum notum við meðhöndlun á meiðslum og bólgum í líkamanum. Hvort sem þú ert íþróttamaður sem þarft reglulega að kæla auma vöðva eða einfaldlega einstaklingur að fást við meiðsli, bólgur eða önnur tengd vandamál, er gott að hafa kælipoka við höndina og þekkja vel leiðir til þess að kæla.
Með því að nota kælipoka er m.a. hægt að:
- Draga úr verkjum
- Minnka bólgur
- Flýta fyrir bata
- Auka hreyfifærni
- Minnka vöðvakrampa (muscle spasm)
Hvernig er best að nota kælipoka?
Eins og sjá má hér að ofan getur notkun kælipoka skipt sköpum. Það er hins vegar mikilvægt að nota kælipoka með réttum hætti. Með rangri notkun gætir þú sem dæmi átt á hættu að fá frostbit á húðina. Þótt frostbit sé hættulítið getur það verið óþægilegt.
Við hvetjum þig því til þess að nota kælipoka með eftirfarandi hætti:
- Notaðu klút eða annað klæði milli kælipokans og líkamans.
- Aldrei setja kælipokann beint á líkamann. Alltaf skal nota léttan klút, eða annað klæði á milli kælipokans og húðarinnar.
- Hugaðu að tímanum
- Það er mikilvægt að huga vel að tímanum þegar verið er að kæla. Best er að hafa kælipokann í fimmtán til tuttugu mínútur í senn til þess að fá sem mesta virkni af kælingunni. Ef þú ferð fram yfir þann tímaramma áttu á hættu að fá frostbit. Sömuleiðis, ef þú ert mikið styttra en fimmtán mínútur mun kælingin ekki virka jafn vel.
- Endurtekningar
- Það er best að kæla um leið og meiðslin eiga sér stað. Eftir það er gott að endurtaka kælinguna, á tveggja til fjögurra klukkustunda fresti. Þessum takti er gott að halda í einn til þrjá daga, eða þar til bólgan er tekin að hjaðna.
- Hafðu hátt undir viðkomandi svæði
- Sem dæmi, ef fótleggurinn hefur orðið fyrir hjaski, skaltu hafa fótinn upp á púða, stól eða öðru nærtæku. Það hægir á bólgumyndun og kemur í veg fyrir vökvasöfnun á meidda svæðinu, þar sem það verður erfiðara fyrir blóðið að streyma upp á við.
- Ekki kæla rétt fyrir hreyfingu
- Forðastu að kæla líkamann rétt áður en þú hreyfir þig. Við kælingu missa vöðvar og liðir fulla hreyfigetu og eru þar af leiðandi viðkvæmari fyrir hnjaski og öðrum meiðslum.