Skip to main content

Klemmdar taugar, eða þrýstingur á taugar, getur verið orsök allskyns verkja og óþæginda sem einstaklingur upplifir í líkamanum. Þetta ástand í líkamanum getur skapast þegar aukinn þrýstingur leggst á eina taug eða margar taugar, sem hindrar eðlilega starfsemi þeirra.

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að þrýstingur myndast á taugar og þær klemmast. Sömuleiðis geta einkennin, þ.e. verkir eða óþægindi, verið ýmiskonar, allt frá dofa og óþægindum yfir í mikla verki og sársauka.

Hér að neðan förum við yfir helstu orsakir klemmdra tauga, sem og helstu einkenni þeirra. Þá fjöllum við um hvernig hægt er að ráða bót á vandamálinu með kírópraktík.

 

Orsakir klemmdra tauga

Hér að neðan gefur að líta á helstu orsakir klemmdra tauga og óeðlilegs þrýstings á taugar.

  • Brjósklos: Ein algengasta orsök klemmdra tauga er brjósklos og útbungun í hryggjarsúlunni. Á milli hryggjarliðana liggja hryggþófar, sem virka eins og mjúkir púðar. Þegar um brjósklos er að ræða rifnar trefjabrjóskið í hryggþófunum og kjarninn inn í þeim leitar út, sem aftur þrýstir á nærliggjandi taugar.
  • Mænuþrengsli: Algeng orsök klemmdra tauga hjá eldra fólki. Með aldrinum geta mænugöngin þrengst sem aftur þrýstir á taugar, í mjóbaki og hnakka.
  • Bólgur: Bólgur og fleira sem veldur því að rými taugar minnkar geta valdið því að starfsemi taugar er hindruð. Það sama gerist til dæmis við bjúgmyndun í líkamanum.
  • Slitgigt og kalkmyndun: Stundum geta fylgikvillar slitgigtar falið í sér kalkmyndun sem býr til þrýsting á nærliggjandi taugar.
  • Slæm líkamsstaða: Það að viðahalda slæmri líkamsstöðu, til dæmis með mikilli kyrrsetu, getur leitt til klemmdra tauga. Þannig myndast mikill þrýstingur á taugar, út frá óeðlilegri stöðu hryggsúlunnar, sem valdið getur krónískum verkjum og vandamálum.
  • Slys, meiðsli og sjúkdómar: Ef líkaminn verður fyrir hnjaski getur það leitt til klemmdra tauga, þar sem bólgumyndun, beinbrot, brjósk eða skemmdir í vef, geta haft áhrif á taugar og eðlilega virkni taugakerfisins.

 

Helstu einkenni

Þegar taugar klemmast eða óeðlilegur þrýstingur myndast á taugar, geta einstaklingar fundið fyrir fjölmörgum einkennum. Einna helst má þó nefna:

  • Sársauki: Eitt helsta einkenni klemmdra tauga getur oft verið snarpur og stingandi sársauki.
  • Náladofi: Þegar einstaklingur er með klemmda taug getur viðkomandi oft fundið fyrir doða og náladofa á því tiltekna svæði sem tengist tauginni/taugunum.
  • Verkur sem ferðast um líkamann: Oft geta einstaklingar upplifað verki sem ferðast um líkamann, vegna klemmdra tauga. Sem dæmi; klemmd taug í hálsi getur valdið verkjum í hálsi ásamt einkennum niður eftir handlegg. Klemmd taug í mjóbaki veldur verkjum og stirðleika þar og einkennum niður í fótlegg. Þá getur sem dæmi  klemmd taug í mjóbaki leitt til sársauka í kálfa eingöngu.
  • Skert hreyfifærni: Klemmdar taugar geta skert hreyfifærni og þannig komið í veg fyrir að einstaklingurinn geti hreyft sig með eðlilegum hætti.
  • Minni kraftur og vöðvarýrnun: Klemmdar taugar eða þrýstingur á taugar veldur truflun á taugaboðum, m.a. til vöðva líkamans. Þannig getur einstaklingurinn átt erfitt með að framkvæma ákveðin verk og með tímanum geta vöðvarnir rýrnað þar sem ekki reynir á þá með eðlilegum hætti.

 

Svona vinnur kírópraktík á klemmdum taugum

Kírópraktík er kerfi sem er notað til að meðhöndla líkamann. Þetta kerfi lítur á líkamann sem eina heild, þar sem allir partar hafa sinn tilgang og stuðla að því að heildin virki sem best. Sérstök áhersla er lögð á hrygginn og taugakerfi líkamans, ásamt því að framkvæma  heildarmat á lífsstíl viðkomandi, með tilliti til hreyfingar, mataræðis og almennrar heilsu.

Þegar hafin er meðferð hér á Kírópraktorstöðinni eru framkvæmdar tauga- og hitamælingar, líkamsstöðu próf og röntgen mynd tekin ef þörf krefur. Út frá þessum gögnum er hægt að koma auga á alls kyns vandamál sem tengjast hryggsúlunni og stoðkerfinu, og þar með talið komið auga á klemmdar taugar eða óeðlilegan þrýsting á taugar.

Þegar búið er að greina vandamálið og skoða heilsufarssögu viðkomandi, hefst eiginleg meðferð við að létta á þrýsting og losa um klemmdar taugar. Það er gert, m.a. með því að leiðrétta stöðu hryggsúlunnar og þannig losa um allar skekkjur sem geta valdið þrýsting eða taugaklemmum. Eins er notast við leiðir til þess að bæta líkamsstöðu, lagt til breytingar á mataræði, hreyfingu og lífsstíl, kælimeðferðir og þar fram eftir götunum. Með þessum leiðum er oft hægt að vinna á rót vandans, draga úr verkjum, efla taugaflæði og hægt og rólega koma líkamanum aftur í eðlilegt horf.