fbpx Skip to main content
shutterstock_289592738 (1).jpg

Þau ykkar sem þekkja okkur vita að heilbrigði og lífsgæði eru okkar hjartans mál. Við reynum að sinna líkama okkar og heilsu eftir bestu getu. Við störfum 14 saman á Kírópraktorstöðinni og við höfum öll svipaðar leiðir til þess að stuðla að okkar eigin heilbrigði, en svo erum við líka með mismunandi aðferðir inná milli. Vegna ástandsins í samfélaginu og í heiminum ákváðu nokkur okkar að setja niður á blað einhverjar af þeim aðferðum sem hafa reynst okkur best til þess að vera í sem bestu mögulegu standi dagsdaglega, óháð covid veirunni. Þetta er s.s. ekki ætlað sem lausn eða ráðlegging við þessum veikindum heldur frekar hugmyndir um hvað hægt er að gera til þess að styrkja ónæmiskerfið sitt almennt og mögulega auka líkurnar á því að veikindin verði ekki eins slæm ef og þegar þau koma.

Okkur þykir vænt um hvert annað og skjólstæðinga okkar sem koma til okkar á Sogaveginn og þar sem heilbrigði er innan okkar áhugasviðs langaði okkur að setja þessar hugmyndir fram með von um að þær nýtist einhverjum.

Svefninn

Númer eitt er að sjálfsögðu svefninn. Frumurnar verða að fá tækifæri til að endurnýja sig með hvíld. Öll dýr þurfa hvíld. Það er athyglisvert í nýlegum rannsóknum hvaða áhrif svefninn hefur á ónæmiskerfið. Við vitum það nú að stuttur svefn og svefnsjúkdómar eykur tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Verið er að skoða þessi áhrif á ónæmiskerfið, einkar og sér í lagi á bólgumyndanir í líkamanum.

Þegar kemur að svefni er mikilvægt að fá 7-9 klukkustundir af samfelldum svefn á sólarhring. Hægt er að beita ýmsum leiðum til þess að auka líkurnar á því að þú fáir nægan svefn.

Sem dæmi getur verið gott að halda skipulagi og fara að sofa á ákveðnum tímum dags sem og vakna á ákveðnum tímum dags. Hafa svefnherbergið sæmilega kalt, dimmt og hljótt. Gæta þess að slökkt sé á ýmsum tækjum og tólum og best er að halda þeim fjarri svefnherberginu. Þá er nauðsynlegt að fá næga hreyfingu sem fær hjartað til að slá hraðar en hreyfing hjálpar þér að ná betri djúpsvefni.

Mataræðið

Til eru fjöldi rannsókna sem sýnir fram á það hvernig matarræðið hefur áhrif á heilsuna okkar og þar með ónæmiskerfið. Rann­sókn­ar­hóp­ur­ í einni rannsókn, svo dæmi séu tekin, bar saman tvo músa­hópa sem fengu mis­mun­andi fæðu. Annar hópurinn fékk fæðu sem inni­hélt mikið af fitu og sykri en lítið af trefjum sem kall­ast í rann­sókn­inni vest­ræn fæða. Hinn hóp­ur­inn, við­mið­un­ar­hóp­ur­inn, fékk hins vegar hefð­bundna fæðu fyrir mýs. Til að meta áhrif fæð­unnar á ónæm­is­kerfi mús­anna voru tekin blóð­sýni innan beggja hópa og hvítu blóð­kornin greind. Í ljós kom að sá hópur sem neytti vest­rænnar fæðu hafði mun fleiri hvít blóð­korn á sveimi í blóð­inu. Hvít blóð­korn eru frumur sem til­heyra ónæm­is­kerf­inu og mik­ill fjöldi þeirra í blóði er oft­ast til­kom­inn vegna sýk­ing­ar. Í þessu til­felli var ekki um sýk­ingu að ræða heldur óhollt og óhefðbundið matar­æði, en lík­ami mús­anna brást við eins og um sýk­ingu væri að ræða.

Þeg­ar frumu­gerð­ir voru greindar kom einnig í ljós að þarna voru aðal­lega á ferð­inni frumur sem sinna fyrstu við­brögðum ónæm­is­kerf­is­ins. Slíkar breytingar á tján­ing­ar­mynstri eru nauð­syn­legar þegar ónæm­is­kerfið þarf að bregðast við sýk­ingu. Því miður virt­ust þessar breyt­ingar ekki ganga til baka, jafn­vel fjórum vikum eftir að mýsnar hættu að fá vest­rænt fæði. Miðað við þessar niður­stöður má draga þá ályktun að með óhollu fæði erum við að ýta undir stöðugt bólgu­svar ónæm­is­kerf­is­ins. Það er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að marga lífstílstengda sjúk­dóma í hinum vest­ræna heima má rekja til stöðugra bólgna í lík­am­an­um, svo sem gigt, sjálfsof­næm­is­sjúk­dóma eða hjarta- og æða­sjúk­dóma. Næstu skref hjá rann­sókn­ar­hópnum eru vænt­an­lega að skoða hvort sam­bæri­leg áhrif vest­rænnar fæðu er að finna í mönn­um, en mögu­lega talar sjúk­dóma­tíðnin þar sínu máli. Það verður spenn­andi að fylgj­ast með kom­andi rann­sóknum á þessu sviði. Þangað til hvetjum við alla til að borða trefj­a­ríka og holla fæðu.

Hreyfing

Í raun setur aldurinn okkur engin mörk hvað varðar árangur af líkamsrækt. Hreyfing í litlum mæli hefur meira að segja fyrirbyggjandi áhrif á hjartasjúkdóma, hættu á blóðtappa og hækkaðan blóðþrýsting og eykur liðleika í vöðvum og liðamótum. Hófleg hreyfing bætir einnig ónæmiskerfið, en líkamsrækt í óhófi virðist hins vegar veikja ónæmiskerfið. Þessu til viðbótar bætir regluleg hreyfing skapið og þeir sem stunda hreyfingu í hóp upplifa allra jafna aukin félagsleg tengsl og jákvæða tengslamyndun.

Vítamín

C-vítamín, (askorbínsýra) er þýðingarmikið fyrir ónæmiskerfi líkamans, en það er m.a. vörn líkamans gegn veirum og bakteríum. D-vítamín, öðru nafni kólíkalsiferól, er fituleysanlegt vítamín. Það myndast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar en það fæst einnig úr fæðu og bætiefnum. D-vítamín hefur mörg mikilvæg hlutverk í líkamanum. Það er til dæmis nauðsynlegt til að stýra kalkbúskap líkamans og er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina þar sem það örvar frásog kalks í meltingarvegi og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði. Einnig eru vísbendingar um að D-vítamín geti haft almenn jákvæð áhrif á heilsu fólks, en D-vítamín viðtaka er að finna í mörgum vefjum líkamans. Rannsóknir hafa leitt í ljós að D-vítamín, sem og skortur á því, tengist t.d. krabbameinum, sjálfsónæmissjúkdómum, vöðvastyrk og veiku ónæmiskerfi.

Flest okkar hafa tileinkað okkur þessi atriði almennt, en við höfum lagt enn ríkari áherslu á að fylgja þeim þessar vikurnar. Við trúum því að við séum betur í stakk búin fyrir vikið. Það eru til mörg ráð til þess að styrkja ónæmiskerfið og við hvetjum alla til þess að fylgja því sem hefur reynst þeim vel til þessa. Ef þú telur að þetta séu góðar ráðleggingar ekki hika við að deila þessu áfram.

Góða heilsu!

This site is registered on wpml.org as a development site.