Skip to main content

Verkir í vöðvum, liðum og beinum, svo dæmi séu tekin, geta hrjáð fólk á mismunandi stigum lífsins og fyrir því geta verið ótal margar ástæður. Oft er orsakasamhengi verkjanna nokkuð skýrt, þ.e. við finnum til í líkamanum eftir líkamlegt erfiði, til dæmis þegar við æfum stíft, lyftum þungum hlutum, vinnum langa vinnudaga og svo framvegis. Þá getum við fundið til verkja og eymsla vegna smávægilegra meiðsla. Hins vegar getur orsök verkjanna verið flóknari á köflum, þ.e. þegar undirliggjandi ástæða liggur endilega ekki í augum uppi en í slíkum tilvikum getur verið um sýkingu, óeðlilega líkamsstarfsemi eða alvarleg veikindi að ræða.

Hvort sem orsakasamhengið er skýrt eður ei, hvort sem þú finnur stöðugt til verkja eða af og til, hvort sem þú finnur til verkja á einum stað líkamans eða allur líkaminn liggur undir, er mikilvægt að leita sér aðstoðar sem allra fyrst, þá sér í lagi ef verkirnir eru þrálátir og virðast ekki lagast með tímanum. Gott er að ræða við lækni, kírópraktor, sjúkraþjálfara eða aðra meðferðaraðila, allt eftir eðli verkjanna, til þess að finna orsökina og ráða bug á vandanum. Líf með stöðugum verkjum og skertri hreyfigetu getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar og andlega heilsu.

Þegar þú hefur ráðfært þig við sérfræðing og komið þér af stað í átt að minni verkjum og bættri líðan, getur verið gott að tileinka þér ákveðnar breytingar á lífsstíl þínum, með það að markmiði að styðja við ferlið og auka líkurnar á auknum bata. Hér að neðan má finna nokkur atriði sem einmitt geta haft umrædd jákvæð áhrif á ferlið og aukið téðar líkur. Þú þarft eftir sem áður ekki að umturna lífi þínu á einum degi. Skoðaðu listann og sjáðu hvort þú sért e.t.v. að gera eitthvað af þessu í dag og hugleiddu svo hvernig þú gætir bætt einhverjum atriðum aukalega við þitt daglega líf og líferni.

1.       Hreyfðu þig reglulega

Einfaldir hlutir eins og hreyfing getur haft mikil áhrif á lífsgæði þín. Hreyfing eins og göngur, sund eða jóga getur hjálpað þér að liðka við líkamann með auknu jafnvægi, styrk og leiðleika. Fáðu ráð hjá sérfræðing um hvaða hreyfing hentar þér best. Reyndu að æfa að lágmarki 4 daga vikunnar, hálftíma í senn eða lengur ef þú treystir þér til.

2.       Hugaðu að svefninum

Þegar við fáum góðan nætursvefn líður okkur betur og gerum líkama okkar betur í stakk búinn til þess að berjast við verkina. Þegar við hins vegar fáum ónægan svefn geta verkirnir versnað. Til þess að tryggja nægan svefn er mikilvægt að hafa góða svefnrútínu til staðar, þ.e. sofna á tilsettum tíma og vakna á tilsettum tíma, alla daga vikunnar. Ekki horfa á sjónvarp eða skoða símann rétt fyrir svefn eða upp í rúmi. Hafðu svefnherbergið nokkuð kalt, dimmt, hreint og notalegt. Þá getur verið mikilvægt að huga að dýnunni og koddanum, þá sér í lagi ef þú finnur til verkja í baki og hálsinum.

3.       Farðu reglulega til kírópraktors

Kírópraktík er kerfi sem er notað til að meðhöndla líkamann. Þetta kerfi lítur á líkamann sem eina heild, þar sem allir partar hafa sinn tilgang og stuðla að því að heildin virki sem best. Sérstök áhersla er lögð á hrygginn og taugakerfi líkamans. Þá felur meðferð hjá kírópraktor einnig í sér heildarmat á lífsstíl viðkomandi, með tilliti til hreyfingar, matarræðis og almennrar heilsu. Með því að meðhöndla hryggjarsúluna og aðra liði líkamans, með kírópraktískri nálgun, er hægt að draga úr verkjum. Oft á tíðum má rekja verki og vandamál í stoðkerfinu til stirðleika í liðum eða rangrar líkamsbeitingar sem hefur áhrif á stöðu og styrk hryggjarsúlunnar. Dæmi um slíka verki eru mjóbaksverkir, verkir í hálsi og hausverkur, verkir í útlimum, grindarbotni o.fl.

4.       Borðaðu holla fæðu

Það sem við borðum getur haft mikil áhrif á líðan okkar. Gott jafnvægi í matarræðinu getur þannig hjálpað þér að kljást betur við verkina. Borðaðu vel af ávöxtum og grænmeti, próteini, hollri fitu og hollum trefjaríkum mat. Haltu þig frá matvælum sem innihalda mikinn sykur, eru mikið unnin og innihalda mikið magn af salti, transfitu og öðrum innihaldsefnum sem geta aukið bólgusvörun líkamans. Drekktu vel af vatni og gefðu líkamanum tíma til þess að melta fæðuna.

5.       Slakaðu á

Streita og verkir eru nátengd fyrirbæri og helst gjarnan í hendur hjá þeim sem finna til verkja. Þegar við erum undir óhóflegri streitu dag eftir dag, geta líkamleg einkenni látið á sér kræla. Streitan getur þannig vakið upp bólgusvörun, gert vöðva stirða og spennta sem aftur leiðir af sér verki. Sömuleiðis geta miklir verkið valdið mikilli streitu, ótta og kvíða sem aftur býr til neikvæða hringrás verkja og streitu. Það er því algjört lykilatriði í bataferlinu að draga úr streitunni, til dæmis með hugleiðslu, jóga eða öðrum leiðum sem hjálpa okkur að slaka á og draga úr spennu í líkamanum. Gerðu öndunaræfingar, teygðu vel á líkamanum og þar fram eftir götunum.

6.       Fáðu aðstoð í vinnunni

Suma daga geta verkirnir verið það miklir að við ráðum illa við vinnuna okkar og eigum þar með erfiðar um vik með að sinna henni. Láttu því vinnuveitanda þinn vita af verkjunum og fáðu þá hjálp sem þú þarft á vinnustaðnum með það að markmiði að draga úr verkjum og óþægindum meðan á vinnudeginum stendur. Þá gætir þú endrum og eins þurft að taka þér lengri frí og hvíld frá vinnunni. Í slíkum tilvikum getur þú leitað til stéttarfélags þíns eða ráðfært þig við fagaðila varðandi þín réttindi.

7.       Ekki gleyma að taka lyfin þín

Ef undirliggjandi ástæður verkjanna krefjast þess að þú þurfir að taka inn lyf er mikilvægt að þú fylgir því plani sem læknirinn segir til um, sem dæmi ef um sýkingu er að ræða eða önnur alvarleg veikindi. Vertu meðvituð/meðvitaður um hvaða hlutverki lyfin gegna og hvaða mögulegu aukaverkanir geta fylgt lyfjanotkuninni. Vertu í góðu sambandi við lækninn þinn og upplýstu hann reglulega um ferlið og líðan þína. Þá er gott að hafa í huga að verkjalyf veita gjarnan einungis tímabundna lausn við verkjunum og geta ekki ein og sér ráðið bót á vandanum. Því skal nota slíkar lausnir með aðgát þar sem langtíma notkun verkjalyfja getur haft með sér alvarleg heilsufarsleg áhrif.

8.       Eyddu tíma með vinum og vandamönnum

Að eyða tíma með fjölskyldu og vinum er án efa ein af bestu leiðunum til þess að draga úr verkjum sem og veita verkjunum minni athygli. Þá getur verið gott að geta rætt líðan þína, pirring, reiði og gremju, við einhvern nákominn þér sem getur í kjölfarið veitt þér þann stuðning sem þú þarft. Gerðu þannig fólkið í kringum þig meðvitað um þína líðan sem og þína vegferð í átt að bata og fáðu þau þannig í lið með þér.

9.       Dragðu úr reykingum

Best væri auðvitað að hætta alfarið að reykja. Þeir sem reykja sígarettur eru líklegri til þess að finna til verkja í baki, liðum og maga, samanborið við þá sem ekki reykja. Sömuleiðis eru ótal aðrir fylgikvillar reykinga sem hafa áhrif á verki í líkamanum sem og getu líkamans til þess að vinna bug á verkjum. Það að hætta að reykja eða draga úr reykingum er þannig góð leið í átt að bata.

 

10.       Ræktaðu áhugamálin þín

Oft getur verið gott að leiða hugann að einhverju sem okkur þykir skemmtilegt, til þess að reyna að veita verkjunum minni athygli. Því er gott að rækta áhugamálin okkar eins vel og við getum. Þannig eyðum við tímanum í hluti sem gefa okkur orku og gleði, sem án efa virkar sem gott mótefni gegn verkjunum.

11.   Það koma hæðir og lægðir

Endrum og eins munt þú ef til vill upplifa daga þar sem verkirnir virðast nánast yfirstíganlegir. Oft gerist það í kjölfar tímabils þar sem við teljum okkur trú um að ástandið sé að lagast og verður fyrir vikið þeim mun erfiðara fyrir andlega líðan okkar. Það er hins vegar mikilvægt að muna að bataferli er allra jafna langhlaup en ekki spretthlaup. Reyndu að undirbúa þig eins og þú getur fyrir erfiðu dagana, til dæmis með því að lista upp hvað í daglegum athöfunum þínum eykur verkina sem og dregur best úr þeim. Fáðu ráð hjá sérfræðing varðandi leiðir til þess að draga úr verkjunum þegar mest á reynir. Hafðu það einnig hugfast að oft er nauðsynlegt að slaka á og biðja um aukna aðstoð þegar orkan fer þverrandi.

12.   Settu þér raunhæf markmið

Þegar við viljum ná vissum bata getur verið gott að setja okkur markmið sem hjálpa okkur að skilgreina hvernig við komumst þangað. Mikilvægt er þó að markmiðin séu raunhæf og innan tiltekins tímaramma sem gerir þau aðgengilegri. Gættu þess að gefast ekki upp og halda áfram í átt að settu markmiði.