fbpx Skip to main content

Eldra fólk getur vissulega fundið til hinna ýmsu verkja og einkenna sem einnig geta hrjáð yngra fólk en þegar einstaklingur er orðinn 60 ára eða eldri er alltaf hætt við því að viðkomandi finni til verkja sem tengjast með einum eða öðrum hætti hrörnun í liðum hryggjarsúlunnar. Þannig eru tvær algengustu orasakirnar fyrir mjóbaksverk hjá eldra fólki annarsvegar slitgigt og hins vegar hryggþrengsli.

Flestir þeir sem kljást við einkenni hryggþrengsla eru komnir vel yfir fimmtugt. Er þar í flestum tilvikum, eins og áður segir, orsökin einhverskonar hrörnun í hryggsúlunni.  Í einstaka tilvikum geta hryggþrengsli hins vegar komið fram hjá ungu fólki en allra jafna gerist slíkt vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma, erfðagalla eða slysa.

Slitgigt er algengasti sjúkdómurinn í liðum. Orsakir slitgigtar geta verið af ýmsum toga en það sem líklega vegur þyngst eru erfðir, efnaskipti og álag á viðkomandi lið eða liði. Slitgigt hefur það í för með sér að brjóskið í liðunum þynnist og eyðist að lokum alveg. Samtímis bólgnar liðpokinn og vökvinn í liðnum eykst en við það gildna liðamótin.

Hver eru helstu einkenni mjóabaksverkja og hverjar eru orsakirnar?

Hér að neðan gefur að líta á algeng einkenni sem eldra fólk finnur fyrir í bakinu og helstu orsakir fyrir þessum einkennum.

Einkenni: Verkur og/eða stirðleiki í mjóbaki sem er mestur á morgnana og kvöldin

Önnur einkenni geta verið:

 • Verkur sem kemur í veg fyrir góðan nætursvefn

 • Verkur sem er hvað mestur á morgnana, minnkar yfir daginn en eykst aftur að kvöldi dags.

 • Stanslaus verkur sem svíður í mjóbakinu og eykst eftir því sem líkamlegt álag eykst.

 • Stirðleiki og minni hreyfigeta í bakinu, til dæmis sársauki þegar viðkomandi beygir sig fram.

Möguleg orsök: Slitgigt.

Einkenni: Verkur niður í fótleggi sem kemur aðallega þegar viðkomandi stendur eða gengur um.

Önnur einkenni geta verið:

 • Ómögulegt að ganga um án þess að finna til verkja í fótleggjunum

 • Verkur í mjóbaki hverfur fljótlega eftir að viðkomandi sest niður

 • Einkenni sveiflast milli þess að vera mikil (verkur) og lítil sem engin.

 • Einkenni koma fram hægt og rólega með tímanum

 • Þróttleysi, dofi eða stingur sem ferðast um frá mjóbakinu niður í rass og læri.

Möguleg orsök: Hryggþrengsli.

Einkenni: Skjótur bakverður, skert hreyfigeta og líkamshæð lækkar.

Önnur einkenni geta verið:

 • Skjótur bakverkur (verkur sem kemur allt í einu og með hraði)

 • Verkur eykst ef viðkomandi stendur eða gengur um

 • Verkur dofnar örlítið ef viðkomandi liggur á bakinu

 • Líkamshæð lækkar

 • Skert hreyfigeta í hryggsúlu

 • Bæklun

Möguleg orsök: Samfallsbrot í hryggjarlið. Orsök samfallsbrota er oftast beinþynning (osteoporosis) en það er sjúkdómur sem veldur því að beinin tapa kalki og verða stökk og brothætt.

Aðrar óalgengri orsakir mjóbaksverkja hjá eldra fólki.

Fjölmargar aðrar ástæður geta legið að baki verkjum í mjóbaki hjá eldra fólki en þær sem taldar voru upp hér að ofan. Sem dæmi má nefna eftirfarandi orsakir:

 • Sýking

 • Krabbamein

 • Vefjagigt

 • Vandamál tengd rófubeini (Coccydynia)

 • Piriformis syndrome (þrýstingur á taug í piriformis vöðva)

 • Aðrar tegundir gigtar

Að lokum er mikilvægt að nefna það að verkir geta verið mismunandi milli fólks, allt eftir líkamsgerð, hugarfari og aðstæðum. Þá getur streita, þunglyndi og aðrir þættir haft áhrif á getu fólks til þess að sigrast á einkennunum.

Hvernig getur kírópraktík hjálpað?

Í stuttu máli hjálpar meðferð hjá kírópraktor eldra fólki sem þjáist af bakverkjum á nokkra vegu, meðal annars:

 • Dregur úr verkjum og óþægindum

 • Minnkar bólgur

 • Eykur hreyfigetu

 • Eykur liðleika

Þegar kírópraktor meðhöndlar eldra fólk með bakverki er hans helsta markmið að auka hæfni og getu viðkomandi til þess að sinna daglegum verkefnum sínum og lifa lífi sínu án mikilla verkja og skertrar hreyfigetu. Meðferðin getur falið í sér að losa um vefi líkamans, draga úr bólgum, tryggja eðlilegt flæði í taugakerfi og hryggsúlu sem og teygja á liðum og liðamótum. Þannig reynir kírópraktorinn eftir fremsta megni að halda einkennum niðri og draga úr niðursveiflum sem fela í sér verki, skerta hreyfigetu og skert lífsgæði.

Með kírópraktík er öll saga viðkomandi einstaklings einnig skoðuð með viðtölum, líkamsskoðun, mælingum á taugakerfi, mati á líkamsstöðu og röntgenmyndum, ef þörf er talin á. Það gefur viðkomandi kírópraktor aukna innsýn inn í heilsu viðkomandi skjólstæðings og hjálpar honum að meta ástand hans með tilliti til orsaka og einkenna. Sem dæmi, ef um beinþynningu er að ræða hefur kírópraktor tök á því að meta hvaða aðferð hentar best hverju sinni, með það að markmiði að hámarka batalíkur og vellíðan.

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni af vef Spine-Health.

This site is registered on wpml.org as a development site.