Næring

64772554.jpg

Veldu mat og næringu sem er góð fyrir líkamann þinn.

Mataræðið þitt ætti að innihalda lífræna ávexti og grænmeti á hverjum degi. Við fáum mikið af vítamínum og steinefnum úr ávöxtum og grænmeti. Ferskt grænmeti inniheldur ensím sem eru líkamanum nauðsynleg, en einnig er grænmeti afar trefjaríkt. Rauðrófur eru járnríkar og radísur eru c-vítamín ríkar. Smart er að hafa allt litrófið á disknum.

Lestu utan á umbúðir. Sneyddu hjá ódýrri og næringarsnauðri fæðu. Lífræn fæða er hreinasta og besta fæðan.

Þú skalt reyna að komast hjá því að neyta fæðis sem inniheldur kemísk efni, rotvarnarefni, þrávarnarefni, tilbúin bragðefni, litarefni, skordýraeitur, hormónalyf og sveppaeyðandi lyf. Í lífrænni ræktun eru þessi efni ekki notuð.

Það er mun betra fyrir líkamann okkar að melta og vinna úr hreinni, lífrænni fæðu í stað þess að þurfa að einbeita sér að því fyrst og fremst að losa sig við eiturefni sem hann fær í sig úr fæðunni. Því hollara sem við borðum, því betur vinnur líkaminn okkar, því betur líður okkur, ónæmiskerfið okkar verður betra, við fáum aukinn kraft og vellíðan.

Nú til dags er mikið úrval til af lífrænt ræktuðum matvælum í verslunum. Það þarf ekki alltaf að leita í heilsubúðirnar, það er hægt að fá ágætis úrval af lífrænt ræktuðum ávöxtum og grænmeti, sem og annarrar fæðu, í hinum ýmsu matvöruverslunum.

Drekktu vatn. Vatn er mikilvægt fyrir líkamann, meðal annars fyrir frumustarfsemina og til hreinsunar.

Borðaðu góða og holla fitu eins og Omega 3, avókadó, kókosolíu, ólífuolíu og hörfræolíu. Holl fita er meðal annars góð fyrir heilann.

Borðaðu próteinríka fæðu. Prótein fáum við úr fiski, kjöti, eggjum og grænu grænmeti.

Borðaðu trefjar, gróðfkorna brauð, heilhveiti, hafra, bygg og hýðishrísgrjón.

Mikið unnin matvæli (hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, hvítur sykur) hafa slæmar afleiðingar á líkamsstarfsemi okkar. Hvítt hveiti, hrísgrjón og sykur hafa verið svipt allri næringu, eru oft menguð eitri sem og ýmsum e-efnum og rotvarnarefnum. Hvítt brauð er óhollara en trefjaríkt heilkornabrauð. Heilhveiti, hveitiklíð og hýðishrísgrjón eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum. Í heilhveiti er að finna lífsnauðsynleg næringarefni og hýðishrísgrjón hafa heilt hýði, þau innihalda trefjar, B-vítamín, E-vítamín og steinefni. Ef uppistaðan í fæði fólks er mest unnar vörur, þá verður þörfinni fyrir lífsnauðsynleg næringarefni ekki fullnægt. Það getur leitt til næringarefnaskorts, sem getur haft slæm áhrif á líkamann.

Borðaðu baunir, möndlur, hnetur og fræ.

Athugaðu skammtastærðir og hversu oft þú borðar. Það hefur mikið að segja.