Getur matarræðið haft áhrif á króníska verki?

mnatgbetcxch5cb41fa2d903a.jpg

Mikið hefur verið fjallað um matarræði fólks og áhrif þess á heilsu okkar á undanförnum áratugum og skyldi engan undra, þar sem tíðni lífsstíls tengdra sjúkdóma hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum í vestrænum samfélögum. Breytt neyslumynstur spilar þar stórt hlutverk sem og almennar breytingar á lífi fólks þegar kemur að matarræði. Skyndbitar og óhollari fæðu valkostir verða sífellt meira áberandi allt um kring og aukin streita og hraði valda því að fólk er líklegra nú en áður til þess að neyta fæðu sem er mikið unnin, full af óæskilegum efnum og inniheldur gjarnan sykurmagn langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

 

En hvað kemur það krónískum verkjum við?

Nýlegar rannsóknir sýna fram á ótvírætt samband milli matarræðisins og bólgusvörunar í líkamanum en krónískir verkir eru gjarnan afleiðing bólgumyndunar í líkamanum. Þannig getur matarræðið haft mikil áhrif á króníska verki og þegar við borðum mikið af mat sem eykur bólgur í líkamanum er afleiðingin sú að við finnum til aukinna verkja. Á hinn bógin getur hrein og holl fæða dregið úr verkjum og mögulega, í einhverjum tilfellum, komið alfarið í veg fyrir verki.

 

Bólgusvörun í líkamanum

Bólgur í líkamanum gegna mikilvægu hlutverki en geta líka verið sökudólgur. Þegar við slösum okkur eða fáum sýkingu, sendir líkaminn boð til ónæmiskerfisins um að senda hvít blóðkorn til þess svæðis líkamans þar sem við slösuðum okkur eða þar sem sýkingin leynist. Einkenni bólgusvars eru roði, sársauki, hiti á bólgna svæðinu og þroti. Stundum bætist fimmta einkennið við sem er starfsmissir vefs eða líffæris, en það fer eftir því hvar og hversu miklar skemmdirnar eru. Með bólgu reynir líkaminn að losa sig við örverur, eiturefni eða önnur framandi efni á „slysstað“ til þess að koma í veg fyrir að þau dreifist til annarra líkamshluta og viðgerð skemmda er sett í gang. Bólgusvar er því aðferð til að reyna að viðhalda samvægi líkamans, það er að segja að viðhalda ástandi hans. Þegar svo loks við höfum náð okkur fyllilega af meiðslunum eða sýkingunni, hverfur bólgusvörun líkamans einnig.

Hins vegar, í sumum tilvikum, kveikir ónæmiskerfið á bólgusvöruninni eftir að við höfum náð okkur fullkomlega af meiðslunum eða sýkingu. Ef bólgusvörunin er viðvarandi í langan tíma getur það valdið skemmdum á heilbrigðum frumum og líffærum og valdið krónískum verkjum í vöðvum og liðum líkamans. Þá getur krónísk bólgsvörun aukið líkurnar á hjartaáfalli, sykursýki, krabbameini og jafnvel alzheimer.

 

Matarræðið og bólgusvörun

Matarræðið getur því haft áhrif á bólgusvörunina og það gengur í báðar áttir. Þannig getur hollur matur stutt við ónæmiskerfið þannig að það sé að starfa af fullum krafti þegar þess þarf. Þvert á móti getur óhollur matur breytt eðlilegri starfsemi ónæmiskerfisins, þannig að það starfar með óeðlilegum hætti, samanber það að mynda bólgusvörun við litlu sem engu áreiti.

Í raun hafa rannsóknir sýnt fram á að ónæmiskerfið bregst við óhollu matarræði á samskonar hátt og það bregst við bakteríu sýkingu. Hins vegar liggur það ekki fyllilega ljóst fyrir hvernig hollt matarræði hefur áhrif á ónæmiskerfið en þó hafa rannsóknir gefið til kynna að skortur á lykil næringarefnum á borð við sink, járn, fólinsýru sem og A, B6, C og E vítamínum, geti raskað eðlilegri starfsemi ónæmiskerfisins. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á með góðum hætti að fæða rík af andoxunarefnum undir heitinu „polyphenols“ geti dregið úr bólgum í líkamanum og komið í veg fyrir króníska verki vegna bólgusvörunar. Slík andoxunarefni má m.a. finna í matarræði sem allra jafna er kennt við miðjarðarhafið, þ.e. frá ávöxtum (þá sér í lagi berjum), grænmeti, hnetum, baunum og heilkorni. Aðrar rannsóknir hafa auk þess sýnt fram á ágæti Omega 3 olíu til þess að berjast gegn bólgum í líkamanum en hana má finna m.a. í feitum fisk og auðvitað lýsinu góða sem við Íslendingar þekkjum vel.

 

Settu stefnuna á hollt og fjölbreytt matarræði

Til þess að styðja vel við ónæmiskerfið þitt og tryggja eðlilega starfsemi þess er mikilvægt að draga úr neyslu á fæðu sem veldur bólgum í líkamanum og þess í stað velja fæðu sem hjálpar líkamanum að starfa eðlilega og þar með talið fæðu sem dregur úr bólgum. Haltu þig frá gosi, sælgæti, unnum mat, hvítu brauði og óhollum skyndibita. Slík fæða inniheldur allra jafna óæskileg efni, eins og sykur, sem getur valdið auknum bólgum í líkamanum og leitt til verkja.

Veldu þess í stað fæðu sem gerir líkamanum þínum gott og þar með ónæmiskerfinu, til dæmis grænmeti, ávexti, fisk, heilsusamlegar olíur, baunir, fræ, heilkorn og hnetur, svo dæmi séu tekin. Þá er mikilvægt að hafa í huga að áhrif af slíkum breytingum á matarræði koma e.t.v. ekki strax fram og því mikilvægt að fylgja matarræðinu í lengri tíma til þess að sjá árangurinn.

 

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni sem og heimildum af vef Harvard Health