fbpx Skip to main content
shutterstock_538104574 (1).jpg

Það að fara í nudd getur verið slakandi og gott en kostir þess að láta nudda líkamann eru þó talsvert víðtækari en sælutilfinningin ein og sér. Í raun kallar líkaminn okkar á nudd þegar við höfum orðið fyrir meiðslum, hnjaski eða finnum fyrir þreytu í vöðvum og liðum líkamans. Þá gjarnan byrjum við að nudda það svæði sem er undir álagi og vonumst þannig til að losa um stirða vöðva og liði, bólgur sem og aðra þætti sem valda okkur ónotum.

Til eru margskonar tegundir af nuddmeðferðum en þær allra algengustu ná til þess sem allra jafna kallast heilsu- og sjúkranudd. Þá er gjarnan unnið með allan líkamann eða ákveðna líkamshluta, allt eftir þörfum viðkomandi einstaklings.

Hvenær gæti verið ráðlagt að fara í nuddmeðferð?

Eins og áður segir eru kostir þess að fara í nudd fjölmargir en hér að neðan má finna nokkrar góðar ástæður eða einkenni sem gefa tilefni til þess að fara í nudd.

1. Nudd getur dregið úr hausverk

Rannsóknir á síðastliðnum árum hafa gefið til kynna að nudd geti dregið úr hausverk og tengdum einkennum. Ástæðurnar fyrir því geta verið fjölmargar en aukið blóðflæði og minni bólgur, sem jákvæðar afleiðingar af nuddmeðferð, geta dregið úr verkjum í höfði sem og auðvitað á öðrum svæðum líkamans.

2. Nudd veitir slökun í líkamanum

Flest allar nuddmeðferðir eiga það sameiginlegt að geta veitt slökun fyrir stirða og auma vöðva líkamans. Þannig er hægt að flýta fyrir bataferli og koma súrefnis- og blóðflæði fyrr af stað sem hjálpar við endurheimt í vöðvum.

3. Nudd dregur úr verkjum í liðum

Fólk getur fundið til verkja og óþæginda í liðum og liðamótum vegna ótal ástæðna, svo sem vegna gigtar, vegna álags í vinnu, út frá íþróttaiðkun og þar fram eftir götunum. Það að fara reglulega í nudd getur hæglega dregið úr slíkum verkjum og margir læknir og meðferðaraðilar mæla gjarnan með nuddi fyrir skjólstæðinga sína sem finna til slíkra verkja.

4. Það getur hjálpað þér að lækka blóðþrýstinginn

Reglulegar heimsóknir til nuddara geta hjálpað viðkomandi einstakling að draga úr of háum blóðþrýsting. Enn fremur hafa nokkrar rannsóknir sem spönnuðu lengra tímabil leitt í ljós að nudd getur bæði lækkað efri sem og neðri mörk blóðþrýstings.

5. Nuddmeðferðir geta bætt svefninn

Stór hluti fólks í okkar samfélagi hefur á einhverjum tímapunkti í þeirra lífi átt við svefnvandamál að stríða og svefnleysi. Svefnrannsóknir hafa á undanförnum árum leitt í ljós að með vikulegum heimsóknum til nuddara má draga úr líkum á svefnleysi til muna sem og auka líkur á gæðum svefnsins heilt yfir. Með bættum svefni aukast svo líkurnar á sterkara ónæmiskerfi og betri líðan.

6. Nudd getur bætt meltinguna

Meltingin er algjör lykilatriði þegar kemur að heilsunni okkar og þeim mun betri sem hún er þeim mun líklegra er að líkaminn geti starfað með eðlilegum hætti. Rannsóknir hafa gefið til kynna að með því að nudda kvið- og magavöðva sem og tengd svæði, er hægt að draga úr meltingaróþægindum og hjálpa líkamanum að koma í veg fyrir bólgur og óþægindi í meltingarveginum, þörmum og maga.

7. Nudd getur aukið blóðflæði í líkamanum

Þegar við finnum til í líkamanumm, til dæmis í vöðvunum, er mikilvægt að tryggja gott blóðflæði til vöðvanna til þess að aðstoða þá við að ná fyrri styrk. Með því að notast við nuddaðferðir er hægt að auka blóðflæði til vöðvanna og losa um bólgur, stíflur og aðrar óæskilegar afleiðingar meiðsla, sem aftur eykur blóðflæðið og flýtir fyrir bata. Þá er mikilvægt að nefna að nudd getur dregið úr mjólkursýru sem myndast í vöðvunum og vefjum líkamans sem aftur eykur svokallaðan sogæðavökva, þ.e. glær vökvi sem rennur um slagæðar líkamans, fer um alla vefi, hreinsar þá og heldur þeim stinnum og rennur síðan burt í gegnum sogæðakerfið.

8. Nudd getur dregið úr streitu

Streita er án alls efa eitt alvarlegasta heilsufarslega vandamálið í okkar nútíma samfélagi. Mikið álag, líkamlegt og andlegt, getur valdið streitu og krónískum einkennum sem rekja má til streitu. Helstu einkennin eru m.a. ýmsir verkir og stoðkerfavandamál, svo sem stirðir vöðvar og taugaspenna, verkur fyrir brjósti og hausverkur. Auk þess getur streita  leitt til ofþyngdar, hjartasjúkdóma, hás blóðþrýstings, sykursýki og geðsjúkdóma. Með endurteknum nuddmeðferðum er hægt að draga úr streitu með því að losa um spennu og stirðleika í líkamanum, auka slökun og blóðflæði sem aftur veitir aukið vellíðan.

Nudd og kírópraktík

Oft getur reynst mjög ábatasamt að blanda saman ólíkum meðferðum þegar kemur að því að ráða bug á heilsufarslegum vandamálum hjá einstaklingum. Það á svo sannarlega við þegar kemur að nuddmeðferðum og kírópraktík. Nuddmeðferðir hafa þannig slakandi áhrif á vöðvana og dregur úr spennu og stirðleika og slíkt getur gert meðferð hjá kírópraktor þeim mun áhrifaríkari. Þá auðveldar það nudaranum að losa upp mjúkvef líkamans eftir að kírópraktor hefur losað um og samstillt liði og liðamót líkamans. Sí endurteknar heimsóknir til bæði kírópraktors og nuddara getur þannig tryggt eðlilegt flæði í líkamanum og haldið honum heilbrigðum til lengri tíma litið.

Þessi grein byggir á áður birtu efni af vefsíðum Life Hack og Mayo Clinic.

This site is registered on wpml.org as a development site.