Langar þig að líða betur, hafa meiri orku, forðast veikindi og jafnvel lifa lengur? – Skelltu þér þá á æfingu!
Heilsufarslegir ávinningar þess að stunda einhverskonar hreyfingu eða líkamsrækt eru fjölmargir. Allir njóta góðs af því að hreyfa sig, þvert á kyn, aldur og hreyfigetu. Sum okkar þurfa hins vegar smá hvatningu til þess að komast af stað og halda okkar striki. Þess vegna getur verið ágætt að lesa sér til um jákvæðar afleiðingar hreyfingar og hvaða áhrif hún hefur á líkama okkar.
Hér að neðan eru sjö góðar ástæður fyrir því að hreyfa sig reglulega. Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi en vonandi veitir hann þér innblástur og hvetur þig áfram í átt að heilbrigði og vellíðan.
1. Hreyfing kemur stjórn á þyngdina
Hverskyns líkamsrækt getur bæði hjálpað þér að losna við aukakílóin sem og viðhaldið heilbrigðri þyngd. Þegar þú hreyfir þig brennir þú kaloríum og þeim mun meiri hreyfing þeim mun fleiri kaloríur. Það getur því verið gott að fara reglulega í ræktina en ef þú átt erfitt með að finna tímann til þess getur þú svo sannarlega hreyft þig með öðrum leiðum. Til dæmis hjólað í vinnuna, farið í göngutúr í hádeginu, tekið stigann í stað lyftunnar o.s.fr. Í raun snýst þetta um að reyna eftir fremsta megni að hreyfa þig jafnt og þétt yfir daginn, stunda einhverskonar líkamsrækt og byggja þannig upp þol og styrk sem byggir upp vöðvamassa, brennir fitu og viðheldur eðlilegri þyngdarstjórnun
2. Hreyfing getur komið í veg fyrir sjúkdóma og önnur lífsstílstengd vandamál.
Hefur þú áhyggjur af hjartasjúkdómum eða of háum blóðþrýsting? Það skiptir í raun engu máli hver þyngdin þín er, svo lengi sem þú hreyfir þig dregur þú úr hættulegri fitu í blóðinu (triglycerides) en framleiðir jafnframt meira af „góðu“ kólesteróli. Með þessum hætti tryggir þú að blóðið ferðist eðlilega um líkamann sem dregur úr líkum á hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi og tengdum heilsukvillum. Í raun getur hreyfing komið í veg fyrir fjölda sjúkdóma og annarra heilsufarslegra vandamála og má þar sem dæmi nefna sykursýki 2, þynglyndi, krabbamein og liðagigt.
3. Hreyfing hefur áhrif á andlega líðan okkar
Þarftu á andlegri upplyftingu að halda eða viltu losna við streitu eftir erfiðan vinnudag? Nokkur hress átök í ræktinni eða 30 mínútna göngutúr getur svo sannarlega hjálpað. Þegar þú hreyfir þig kviknar á ákveðnum stöðvum í heilanum sem framkalla gleði, vellíðan og líkamlega slökun. Þá getur hreyfing auk þess veitt okkur aukið sjálfstraust og styrkt sjálfsmynd okkar þar sem við verðum í flestum tilvikum ánægðari með líkama okkar þegar við hreyfum okkur reglulega.
4. Hreyfing veitir þér aukna orku
Ef þú upplifir mikla þreytu eftir stutta búðarferð eða einföld húsverk er líklegt að þolið þitt sé í algjöru lágmarki. Aukin hreyfing í formi æfinga og líkamsræktar getur hjálpað þér að byggja upp vöðvamassa, styrk og þol. Hreyfing kemur súrefni og næringu til vöðva og vefja líkamans og styrkir hjarta- og æðakerfið. Þegar lungun, hjartað og líkaminn í heild sinni eflist veitir það þér aukna orku sem nýtist þér í gegnum daginn.
5. Hreyfing bætir svefninn
Hreyfing getur hjálpað þér að sofna fyrr á kvöldin og leitt til fastari svefns yfir nóttina. Gættu þess þó að taka ekki langa og stranga æfingu rétt fyrir háttatímann þar sem það getur haldið þér vakandi fram eftir nóttu.
6. Hreyfing getur kveikt neistann í svefnherberginu
Finnur þú fyrir þreytu í lok dags sem kemur í veg fyrir líkamlega nánd með maka þínum? Regluleg hreyfing gefur þér aukna orku og aukið sjálfstraust sem getur hjálpað þér að kveikja aftur neistann í svefnherberginu. Hreyfing getur aukið kynhvöt og kynlöngun hjá bæði konum og körlum og þá getur regluleg hreyfing komið í veg fyrir að karlpeningurinn upplifi hin klassísku vandamál sem standa litlu bláu „töfra“ pillunum fyrir þrifum.
7. Hreyfing getur verið skemmtileg og aukið félagsleg tengsl milli fólks
Að hreyfa sig getur verið skemmtilegt og veitt okkur tækifæri til þess að vinda ofan af streitu og þreytu í líkamanum. Það getur verið göngutúr eða skokk undir berum himni, fótbolti með vinunum eða sundferð með makanum. Hreyfing veitir líkama þínum aukið heilbrigði en auk þess getur hreyfing styrkt tengsl þín við vini, fjölskyldu og maka.
Þegar öllu er á botninn hvolft
Hreyfing, í hverskyns formi, er frábær leið til þess að auka vellíðan og lífsgæði. Reyndu eftir fremsta megni að hreyfa þig reglulega og hafðu hreyfinguna sem fjölbreyttasta. Gættu þess að stunda þol- og þrekæfingar, æfðu með eigin líkamsþyngd, notaðu lóð og þyngdir í milli og þar fram eftir götunum. Farðu í sund, göngutúr, ræktina, fótbolta, út að hjóla eða hvaðeina sem hentar þér og þínum markmiðum.