Tíminn er takmörkuð auðlind og í hraða nútíma samfélags er hver klukkustund mikilvæg. Með aukinni samkeppni á öllum sviðum hins daglega lífs verður tímastjórnun sífellt nauðsynlegri. Hins vegar eru fjölmargir þættir sem berjast um athygli þína hvern einasta dag sem gerir þér mun erfiðara að nýta tímann til fulls. Flestir kannast eflaust við að eyða full miklum tíma á samfélagsmiðlum eða á Netflix en til þess að koma í veg fyrir að of mikill tími fari í óæskilega hluti, þarftu að breyta sjálfum/sjálfri þér, með það að markmiði að afkasta meiru og lifa árangursríkara lífi.
Hér að neðan eru 7 hlutir sem hjálpa þér að nýta tímann betur og afkasta meiru í þínu lífi.
- Hafðu fastan svefntíma
Það er vel þekkt staðreynd að til þess að vera afkastasöm/samur þarftu að vakna snemma á morgnana, eftir góðan svefn. Fólki reynist það hins vegar oft á tíðum erfitt og mörgum verður á að vaka fram eftir í stað þess að fara snemma í háttinn. Því er nauðsynlegt að koma á fastri rútínu þar sem háttatíminn er hafður tiltölulega heilagur sem tryggir nægan svefn og auðveldar þér að vakna snemma. Það er gott að byrja á því að forðast það að vera í síma eða tölvu seint á kvöldin. Gríptu þér frekar bók, þú ert líklegri til þess að slaka betur á þegar þú blaðar í góðri bók, fremur en að hanga á samfélagsmiðlum. Annað gott ráð er að stilla vekjaraklukku og hafa hana í góðri fjarlægð þannig að þú neyðist til að reisa þig við þegar vekjarinn hringir.
- Skrifaðu niður markmið og verkefni morgundagsins
Áður en þú festir svefn, skrifaðu niður verkefni og markmið morgundagsins. Þetta mun hjálpa þér að vakna með hugann við verkefnin, í stað þess að slá þeim á frest. Reyndu að sjá fyrir þér hvernig þú munt tækla þessi verkefni og hvað það er sem þarfnast vinnu. Sjáðu fyrir þér daginn og hvernig þú vilt að hann gangi fyrir sig. Ef þú vilt fá meiri hvatningu, lestu bók eða grein sem veitir þér innblástur.
- Settu fastan tíma fyrir afþreyingu og slökun
Við eyðum gjarnan stórum tíma dagsins á samfélagsmiðlum, fyrir framan sjónvarpið eða skoðandi fréttamiðla. Þessi tími veitir okkur oft gleði en á sama tíma eigum við það til að eyða of miklum tíma í slíkt. Taktu því frá ákveðin tíma dags sem þú vilt eyða í afþreyingu og aðrar þarfir, s.s. matartíma, æfingar og hugleiðslu. Sem dæmi getur þú ákveðið að vinna að mikilvægum hlutum frá 9-11 og frá 11 – 11:30 getur þú haft frjálsan tíma til þess að skoða samfélagsmiðla, lesa fréttir o.s.fr. Aftur tekur við vinna til 12:30 og þá tekur þú hálftíma hádegisverð. Svona setur þú upp daginn, skref fyrir skref og hámarkar þannig tíma þinn. Ef þú upplifir sjálfan þig vera sífellt að skoða símann þinn eða vafra á netinu, byrjaðu þá að eyða forritum úr símanum þínum eða settu símann upp þannig að hann læsist á ákveðnum tíma dags.
- Hafðu markmið þín hugföst
Hafðu markmið þín á hreinu og skapaðu framtíðarsýn. Skrifaðu niður hvað það er sem þú vilt áorka í lífi þínu og í hvert skipti sem þú vakir fram eftir eða sluggsar skaltu rifja þessi markmið upp. Skapaðu mynd í huga þínum þar sem þú hefur náð árangri og hugsaðu til þess þegar á reynir. Þetta mun gefa kraft og orku til þess að halda þér á réttri braut.
- Borðaðu hollan mat
Að borða hollan og næringarríkan mat er algjörlega nauðsynlegt ef þú vilt komast í gegnum daginn með góðu móti. Hollur matur gefur þér aukna orku og fókus á meðan óhollusta dregur úr þér kraft og sljóvgar þig. Borðaðu hollan og góðan morgunverð sem dugir þér vel fram að hádegi. Gæddu þér á orku ríkum hádegisverð og reyndu að borða kvöldverðin um klukkan 19:00 þannig að líkami þinn fái nægan tíma til þess að melta fyrir svefninn.
- Stundaðu hugleiðslu og æfingar
Bæði hugleiðsla og hreyfing ættu að vera daglegar venjur hjá þér. Þú hreinlega verður að taka frá tíma til þess að hreyfa þig sem og skerpa hugann, þessir tveir þættir eru án alls efa grunnurinn að árangri þínum. Bættu a.m.k. 30 mínútuna æfingu inn í daglega rútínu hjá þér, 5 daga vikunnar. Þá er gott að iðka hugleiðslu daglega í 10-15 mínútur, jafnvel lengur ef þú hefur tíma. Við mælum með Headspace appinu til þess að byrja með, þar sem þú getur tekið 10 mínútna hugleiðslu undir handleiðslu. Þegar líkami þinn og hugur eru í topp standi mun þér reynast auðveldara að leysa verkefni dagsins.
- Verðlaunaðu sjálfa/n þig
Gættu þess að verðlauna sjálfa/n þig þegar þú nærð skammtíma markmiðum. Ef markmið þitt í lífinu er að ná langt í íþróttum eða landa flottu starfi, gættu þess þá að veita sjálfri/sjálfum þér viðurkenningu í hvert sinn sem þú þokast nær markmiðum þínum. Ef þú hefur sett þér markmið að fara snemma í bólið og það hefst í t.d. eina viku, verðlaunaðu þig þá með góðum mat eða keyptu þér eitthvað sem veitir þér gleði. Með þessu móti færðu nauðsynlega hvatningu sem hjálpar þér að ná langtíma markmiðum þínum.
Þessi grein var skrifuð af Josh Felber og birtist á vefsíðu AskMen.