Löng ferðalög geta sannarlega valdið líkamlegum eymslum, sér í lagi hjá þeim sem finna til verkja í bakinu. Í aðstæðum þar sem þú þarft að sitja lengi, til dæmis um borð í flugvél eða í bíl, eiga vöðvar og liðir líkamans það til að stirðna upp, sem aftur eykur hættuna á frekari eymslum og verkjum. Það er því mikilvægt að leita leiða til þess að lágmarka öll óþægindi meðan á ferðalaginu stendur, svo að fríið verið bærilegra fyrir bakið þitt.
Ef þú ert á leiðinni í frí erlendis getur verið gott að fara eftir meðfylgjandi ráðum þegar kemur að ferðalaginu sjálfu.
Bókaðu flugið snemma
Reyndu að bóka flugið þitt langt fram í tímann en þannig eykur þú líkurnar á því að þú getir valið sæti sem hentar þér best. Ef þú hefur tök á því að bóka dýrari fargjöld og fá þannig þægilegri sæti og aukið sætapláss, gæti það svo sannarlega gert ferðina viðráðanlegri. Þá hafa sæti við neyðarútganga aukið fótapláss. Gott er að bóka ávallt sæti við ganginn en þannig getur þú staðið upp að vild og gengið um, sem er algjört lykilatriði þegar kemur að ferðalögum með bakverki.
Athugaðu hvort þú finnir lausa sætaröð
Auðvitað er þessi valkostur ekki alltaf fyrir hendi en ef þú ert svo heppin/n að lenda í flugi þar sem vélin er ekki fullbókuð gætu skapast aðstæður þar sem heilu sætaraðirnar eru lausar. Óskaðu eftir því við flug-þjóninn/freyjuna að fá að setjast í auða sætaröð þar sem þú getur lyft sætisörmunum upp og lagst niður í endilanga sætaröðina.
Vertu tímanlega
Það getur verið gott að reyna að komast í gegnum flugvöllinn, lestarstöðina sem og aðra staði þegar álagið er sem minnst. Það þýðir færri raðir, styttri biðtími og minna stress. Nýttu einnig tækifærið og innritaðu þig í símanum á leiðinni á völlinn. Ef þú ert að ferðast í bíl, reyndu eftir fremsta megni að velja þann tíma dagsins sem hefur sem minnsta traffík.
Stattu reglulega upp úr sætinu þínu
Það að sitja lengi getur valdið stirðum vöðvum og aukinni spennu í mjóbaki, mjöðmum, lærvöðvum og hásin. Stattu því upp á 20 mínútna fresti, gakktu um og teygðu vel úr þér. Þannig eykur þú blóðflæðið í líkamanum sem kemur í veg fyrir bólgumyndun. Þá getur verið gott að leggja á minnið góðar og öruggar teygjuæfingar sem hægt er að framkvæma í vélinni.
Ekki lyfta þungum farangri
Reyndu að fá hjálp frá öðrum ferðalöngum eða þeim sem þú ferðast með, þegar kemur að því að lyfta farangrinum. Ef þú vilt heldur sjá um það sjálf/sjálfur, reyndu þá eftir fremsta megni að lyfta farangrinum í þrepum. Sem dæmi, ef þú þarft að lyfta handfarangrinum upp í geymsluhólfið í flugvélinni, lyftu þá töskunni fyrst upp á sætisarminn, því næst upp á sætisbakið og loks upp í hólfið.
Sendu farangurinn á undan þér
Það þarf ekki að vera svo dýrt að senda farangurinn á undan þér, svo lengi sem þú gerir það tímanlega. Ein eða tvær ferðatöskur með skipi á áfangastaðinn getur sparað þér erfiðið við að drösla farangrinum með þér á flugvöllinn, í lestina og leigubílinn. Hafðu samband við hótelið þitt og fáðu þau til þess að geyma töskurnar í fáeina daga og svo þegar þú mætir loks á hótelið eru töskurnar klárar upp á herbergi hjá þér.
Pakkaðu létt
Reyndu að pakka þannig að töskurnar þínar séu ekki fullar af óþarfa fatnaði, snyrtidóti eða öðrum hlutum. Þá gæti verið þjóðráð að skipta farangrinum í tvær léttari töskur í stað þess að dröslast með eina þunga meðferðis. Ef þú ert að ferðast með fjölskyldu eða góðum vinum, athugaðu þá hvort einhver sé tilbúinn að pakka hluta af dótinu þínu í þeirra töskur.
Notaðu bakpoka
Ef þú þarft á handfarangri að halda er gott ráð að hafa bakpoka í stað hliðartösku. Bakpokar veita mun betri stuðning við bakið þitt. Mundu að stilla ólarnar rétt og fá sem mestan stuðning. Þá er mælst til þess að bakpokinn sé ekki þyngri en sem nemur 10-15% af þinni eigin líkamsþyngd, jafnvel minna þegar um mikla bakverki er að ræða.
Hafðu lyf og önnur hjálpargögn meðferðis
Þetta kann að hljóma ansi augljóst en er eftir sem áður mikilvægt að nefna. Gættu þess að hafa öll nauðsynleg lyf í handfarangri, bæði þau sem þú þarft að nota meðan á fluginu stendur sem og í ferðalaginu sjálfu. Það getur alltaf komið fyrir að innritaður farangur týnist og því algjörlega nauðsynlegt að hafa öll lyf sem þú þarft á að halda við höndina.
Notaðu kælingu
Það getur verið gott að kæla mjóbakið öðru hverju meðan á fluginu stendur. Fáðu flugfreyjurnar eða flugþjónana til þess að setja klaka í poka fyrir þig og skelltu pokanum því næst við mjóbakið þannig að pokinn hvíli milli þín og sætisins. Kældu í um 20 mínútur og endurtaktu eins oft og þú telur þörf á.
Hugaðu að skó valinu
Það er virkilega góð hugmynd að velja skó sem styðja vel við líkama þinn meðan á ferðalögum stendur. Veldu skó með góðum botni sem veita þér aukin þægindi, svo sem hlaupa- eða aðra íþróttaskó. Hvíldu hælaskónna þar til á áfangastaðinn er komið.
Drekktu nóg af vatni
Vatn hjálpar líkama þínum að koma næringarefnum og súrefni til allra vöðva líkamans. Drekktu því nóg af vatni meðan á ferðalaginu stendur svo að líkami þinn þorni ekki upp af vökva og næringarefnum.