Í nútíma heimi hefur atvinnuíþróttafólk flest allt aðgang að nuddara sem hjálpar þeim eftir erfiðar æfingar eða keppnir að milda verki og mýkja líkamann. Við hin þurfum ódýrari leiðir til þess að losa um þessa vöðvaspennu og örva blóðflæði líkamans. Það vill svo skemmtilega til að fyrir minna en 2000 krónur er hægt að kaupa verkfæri í formi nuddbolta til þess að draga úr eymslum í vöðvum og mögulega í kjölfarið bæta árangur í þeirri íþrótt sem stunduð er. Spurningin er þá hvort hægt sé að nota gamlan tennisbolta sem til er heima eða ætti maður að fjárfesta í sérhönnuðum nuddbolta? Í þessari grein ætlum við að fara yfir það hvers vegna gott sé að eiga nuddbolta, hvernig best sé að nota hann og hverju þú ættir að leita eftir í kaupi á slíkum bolta?
Af hverju ættir þú að eiga og nota nuddbolta?
Nuddboltar eru frábær leið til þess að virkja vöðva áður en æfing hefst og einnig til að draga úr spennu þegar þú hefur lokið æfingu. Nuddboltar eru sérhannaðir til þess að ná á og miða að ákveðnum trigger punktum (e. trigger points) á líkamanum. Trigger punktar eru punktar, hnútar eða svæði á líkamanum sem eru aumir og geta í kjölfarið valdið sársauka á öðrum skyldum svæðum líkamans. Nuddboltar eru sérhannaðir til þess að ná á svæði sem getur reynst erfitt að ná á með nuddrúllum og eða -keflum. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að notkun á nuddboltum getur hjálpað til við að koma í veg fyrir vöðvameiðsli og einnig að nuddboltar henta vel til þess að hita upp vöðva fyrir æfingar.
Hvernig á að nota nuddbolta?
Það virðist vera frekar augljóst hvernig nota eigi nuddbolta en að baki þess liggur þó nokkur hugmyndafræði. Nota á nuddbolta á þröng svæði líkamans (e. tight areas) og vænlegast er að nota líkamsþyngdina með því að liggja á boltanum og færa líkamann yfir hann fram og til baka á þeim svæðum sem nauðsyn er á. Einnig er hægt að þrýsta líkamanum á boltann ef staðið er upp við vegg og boltinn þannig færður fram og til baka yfir það svæði eða þann punkt sem verið er að vinna með. Ef það reynist erfitt að halda nuddboltanum á réttum stað þegar staðið er við vegg, þá er hægt að skella boltanum í stóran sokk og halda í endann á sokknum og þannig hafa betri stjórn á staðsetningu boltans.
Þegar mikil spenna er á ákveðnum stað eða trigger punkti er gott að nudda og/eða teygja í kringum svæðið til að byrja með til að létta þrýsting á því svæði sem er að valda sársauka. Það getur reynst mjög óþægilegt að nudda auma punkta en svo framarlega sem sársaukinn er þolanlegur, ef svo má að orði komast, má kalla það eðlilegt. Gott er að reyna að slaka á vöðvanum sem verið er að nudda og ekki spenna hann á móti þrýstingnum sem myndast. Eftir því sem við erum duglegri að nudda auma punkta, því minni verður sársaukinn. Hér snýst þetta um þolinmæði í verki.
Hverju á að leita eftir í góðum nuddbolta?
Þegar versla á nuddbolta í dag getur málið þó vandast. Nuddboltar koma í öllum stærðum og gerðum. Sumir boltar ganga meira að segja undir fjölbreyttum nöfnum á borð við: spennulosunarbolti, jóganuddbolti, liðleikabolti og svo framvegis. Til að gera langa sögu stutta er hugmyndin á bakvið flesta þessa bolta sú sama og því óþarfi að prófa þá alla. Hér er einfaldleikinn oft sterkur leikur.
Stærð:
Stærð boltans fer helst eftir því hvar á líkamann ætlast er til að nota hann. Lítill bolti er þó oftar meðfærilegri í notkun ef nýta á boltann á mörg ólík svæði og nær hann vel á flest svæði líkamans. Ef einungis á að nudda stóra vöðva líkamans er mögulegt að kaupa stærri bolta. Litlir nuddboltar eru hentugir til að hafa í íþróttatöskunni eða veskinu enda fer lítið sem ekkert fyrir þeim og hægt að grípa í þá við ólík tilefni.
Styrkleiki:
Líkt og með stærð þá fer styrkleiki boltans einnig eftir því hvar og hvernig á að nota nuddboltann. Mjúkur bolti gæti ef til vill verið þægilegri en á sama tíma gæti hann átt erfiðara með að losa um spennu á stífum svæðum sem krefjast frekari þrýstings. Að sama skapi geta harðir boltar verið sársaukafullir í notkun svo hér þarf að velja skynsamlega. Sumir kjósa að byrja á því að eiga mýkri bolta og með tímanum færa sig yfir í harðari.
Yfirborðsáferð og ending:
Rétt eins og faglærður nuddari notar ólíka hluti handa og handleggja sinna fyrir ólík svæði líkamans, þá koma nuddboltar með ólíka yfirborðsáferð. Boltar með upphleypt yfirborðssvæði eru hannaðir til þess að grafa sig betur inn á svæði líkamans fyrir dýpra nudd á meðan boltar með slétta áferð eiga auðveldara með að létta á svæðum sem geta verið of sársaukafull fyrir meira og dýpra nudd.
Nuddboltar þurfa að hafa grip svo þeir haldist betur á sínum stað á veggnum eða gólfinu svo auðveldara sé að hafa stjórn á þeim þegar þeir eru í notkun. Eins með þyngd, ef boltinn vegur meira er líklegra að hann haldist þar sem hann á að vera. Það liggur í augum uppi að við ætlumst til þess að nuddboltinn okkar standist langvarandi notkun og því er mikilvægt að velja bolta úr endingargóðu efni sem þolir mikla notkun án þess að brotna niður.
Ætla má að nuddboltar séu forn tækni þar sem forfeður okkar hafa í gegnum tíðina notast við upphitaða- eða kalda steina sem nuddtækni, því má gera ráð fyrir að nuddboltinn sé nokkura þúsunda ára gömul hugmynd. Nuddbolti kemur sér vel fyrir alla sem vilja bæta árangur sinn. Ef nota á bolta fyrir æfingu er hugsunin til að virkja vöðvana, til dæmis axlir og rass. Eftir æfingu er boltinn notaður til þess að losa um spennu en þá er vænlegt að sameina vinnuna með nuddboltanum með djúpum og góðum teygjum.
Til að svara spurningunni um hvort að kaupa þurfi nuddbolta eða það sé vel hægt að nota gamla tennisboltann sem til er heima þá er svarið tiltölulega einfalt. Að sjálfsögðu er hægt að nota tennisboltann og mun hann líklega gera eitthvað gagn, en vel hannaður nuddbolti kemur alltaf til með að skila meiri og betri árangri. Ef draga á saman hvernig nuddbolta við á Kírópraktorstöðinni mælum með, þá ætti hann að vera þokkalega þungur, kringlóttur og með góðu gripi. Einnig mælum við með nettum nuddbolta sem fer vel í íþróttatöskuna og þá frekar líklegri til að vera notaður. Rauði nuddboltinn frá RJR hefur reynst okkur mjög vel.