fbpx Skip to main content

Nú þegar við höfum tekið fagnandi á móti nýju ári, pakkað niður jólaskrautinu og klárað síðustu konfektmolana úr kassanum (eða jafnvel hent þeim), er ekki úr vegi að huga að komandi tímum og reyna að sjá fyrir okkur allt það sem við viljum áorka á árinu 2019.

Hvort sem við ætlum okkur stóra hluti á árinu eða einfaldlega viljum bæta okkur á ákveðnum sviðum, er alltaf gott að hafa nokkur mikilvæg atriði í huga sem hjálpa okkur að ná settum markmiðum og stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði.

Settu þér vel skilgreind og raunhæf markmið

Ef við viljum ná árangri í lífinu getur verið gott að setja okkur markmið. Án markmiða skortir okkur áherslur og skýra stefnu. Markmið geta þannig veitt okkur aðhald og út frá þeim getum við sett viðmið og mælikvarða sem nýtast okkur til þess að ná settu takmarki. Markmiðasetning er ákveðið ferli sem byrjar með vandlegri íhugun um hverju við viljum áorka og hversu mikla vinnu við ætlum okkur að leggja í vegferðina. Mikilvægt er að markmiðin séu vel ígrunduð og innan ákveðins ramma sem bæði gerir þau raunhæf og ákjósanleg.

Tryggðu góðan nætursvefn

Góður nætursvefn er algjör lykilforsenda vellíðan okkar. Góður nætursvefn leiðir til hinna ýmsu heilsufarslegu ávinninga en þar má til dæmis nefna meiri einbeitingu og framkvæmdagleði, betra líkamlegt form, sterkara ónæmiskerfi, betri félagsleg tengsl en þar að auki minnkar góður svefn líkurnar á mörgum lífstílstengdum sjúkdómum, svo sem þunglyndi, sykursýki og jafnvel krabbameini. Reyndu því eftir fremsta megni að tryggja góðan nætursvefn, til dæmis með því að setja þér fasta svefn-rútínu, halda svefnherberginu temmilega köldu, skilja öll raftæki eftir utan veggja svefnherbergisins, fjárfesta í góðri dýnu og þar fram eftir götunum.

Hugaðu vel að matarræðinu

Við erum það sem við borðum segir einhversstaðar. Ef við borðum mikið af óhollri fæðu fer okkur sjálfkrafa að líða illa, bæði andlega og líkamlega sem hægt og bítandi getur þróast yfir í alvarlega sjúkdóma. Sem dæmi má nefna að of mikil sykurneysla getur aukið hættuna á hjartasjúkdómum, þyngdaraukningu, sykursýki, krabbameini og þunglyndi. Ef við hins vegar tileinkum okkur hollt matarræði fá bæði líkaminn og hugurinn tækifæri til þess að starfa með eðlilegum hætti sem hefur jákvæð áhrif á heilsufar okkar og vellíðan. Hugaðu því vel að matarræðinu á nýju ári með því að draga úr neyslu á sykri, óhollri fitu og einföldum kolvetnum. Þess í stað skaltu borða þeim mun meira af matvælum sem innihalda vítamín, steinefni, prótein, flókin kolvetni og holla fitu.

Hreyfðu þig reglulega

Hreyfing eða líkamsrækt bætir heilsu þína, andlega líðan og gefur þér aukna orku. Í raun eru jákvæðar afleiðingar þess að hreyfa sig það margar að ótækt er að nefna þær allar hér. Hreyfing er ótvírætt mikilvægur þáttur af heilsusamlegu líferni og það besta við hreyfinguna er hversu fjölbreytt hún getur verið. Sumum finnst fátt betra en að taka vel á því í ræktinni á meðan aðrir kjósa sund, hlaup, göngur eða hverskyns bolta- og frjálsar íþróttir. Þá getur hreyfing verið einstaklega skemmtileg í góðra vina hópi og því tilvalið að velja hreyfingu sem hægt er að stunda með góðum vinum.

Dragðu úr streitu og álagi

Öll finnum við fyrir streitu af og til og flest þekkjum við viðbrögðin þegar vöðvarnir spennast upp og hjartað slær hraðar og fastar. Ef þú hins vegar upplifir streitu dag eftir dag og átt erfitt með að ráða við hana getur það leitt af sér alvarleg heilsufarsleg vandamál, til dæmis háan blóðþrýsting, verki og stoðkerfavandamál, veikara ónæmiskerfi, hjartasjúkdóma, kvíða og þunglyndi sem og önnur líkamleg einkenni. Reyndu því eftir fremsta megni að róa taugarnar, anda djúpt, hreyfa þig reglulega, hugleiða og koma röð og reglu á þitt daglega líf.

Settu tíma með fjölskyldu og vinum í forgang

Það skiptir ekki öllu máli hversu margt fólk þú þekkir. Það sem skiptir raunverulega máli eru tengsl þín við þetta fólk, hversu djúpstæð, tilfinningaleg og einlæg þau eru. Raunveruleg tengsl við fólk getur fært þér aukna hamingju, aukið afköst þín og komið í veg fyrir hina ýmsu lífsstíls tengdu sjúkdóma. Reyndu því eftir fremsta megni að setja tíma með fjölskyldu og vinum í forgang á nýju ári með það fyrir augum að rækta vinskap og tengsl, sjálfum þér sem og þínu fólki til hagsbóta.

Taktu D-vítamín

Á heildina litið spilar D-vítamín stórt hlutverk þegar kemur að heilsunni okkar og því virkilega mikilvægt fyrir okkur öll að fá nægt D-vítamín í skrokkinn. Einkenni D-vítamín skorts geta verið margslungin og oft reynist okkur erfitt að tengja slík einkenni við áður nefndan skort. Sem dæmi um einkenni má nefna þreytu og slen, beinþynningu, verki í beinum og baki, verki í vöðvum, skapsveiflur og jafnvel þunglyndi. Á Íslandi er lítið um sólarljós yfir vetrarmánuðina og því nauðsynlegt að huga vel að D vítamín forða líkamans og tryggja það að þú fáir hæfilegt magn til þess að viðhalda heilsu þinni.

Skapaðu þér nýjar og góðar venjur

Hinar ýmsu venjur hafa óhjákvæmilega mikil áhrif á líf okkar, hvort sem við erum meðvituð um það eður ei. Þessar venjur höfum við skapað okkur í gegnum tíðina og oft getur reynst erfitt að breyta þeim, einfaldlega þar sem þær eru svo ríkur þáttur í okkar lífi. Það getur hins vegar verið gott að leiða hugann að því hvaða venjur, meðvitaðar sem og ómeðvitaðar, við höfum í okkar lífi og með hvaða hætti þær hafa áhrif á líf okkar. Hvaða venjur höfum við til dæmis þegar við vöknum á morgnana, komum heim úr vinnunni á daginn og áður en við sofnum á kvöldin? Með því að tileinka okkur nýjar og betri venjur getum við komið af stað marföldunaráhrifum sem geta gjörbreytt lífi okkar til hins betra.

Tileinkaðu þér nýja þekkingu

Eftir því sem við verðum vanafastari og okkar daglegu verkefni verða einhæfari og síendurtekin, er hætt við því að við glötum ákveðnum eiginleikum og hættum að nýta heilann okkar til þess að leysa krefjandi og framandi verkefni. Það getur því margborgað sig að fara út fyrir okkar eigið þægindasvið og takast á við nýjar áskoranir sem reyna á huga og færni okkar. Við getum hafið nám, sankað að okkur nýrri þekkingu sem við getum svo nýtt í störfum okkar eða leitað á önnur mið með það fyrir augum að skapa okkur nýja þekkingu og víkka sjóndeildarhringinn. Öll hugarleikfimi er af hinu góða og bæði styrkir og veitir okkur aukið sjálfstraust.

Njóttu útiverunnar

Sólarljósið og dagsbirtan hjálpar þér að stilla af þína náttúrulega líkamsklukku og gefur þér aukna orku og eykur vellíðan. Þá er sólin að sjálfsögðu besta uppspretta D-vítamíns í líkama þínum og því gott að eyða sem flestum stundum útivið yfir sumartímann.

Kíktu til kírópraktors

Margir bíða þess að fara til kírópraktors þar til þeir verða fyrir einhverjum stórkostlegum meiðslum eða þróa með sér einhverskonar veikindi eða sjúkdóma. Oft á tíðum, þegar hér er komið við sögu, er verkurinn sem gjarnan fylgir orðinn óbærilegur. Sumum finnst hins vegar fráleitt að fara til kírópraktors nema eitthvað alvarlegt hafi komið fyrir. Kírópraktík, aftur á móti, er álíka góð til þess að koma í veg fyrir meiriháttar meiðsli og veikindi eins og hún er áhrifarík við að hjálpa einstaklingnum aftur af stað, eftir alvarleg slys eða veikindi. Kírópraktík, í eðli sínu, hjálpar líkama þínum að lækna sig sjálfan og aðstoðar þig sömuleiðis við að fá aukin styrk og vellíðan. Þannig má líta á kírópraktík sem hluta af góðum og heilbrigðum lífsstíl sem bæði virkar sem fyrirbyggjandi meðferð sem og meðferð við alvarlegum meiðslum og veikindum.

This site is registered on wpml.org as a development site.