Skip to main content

Samkvæmt nýlegri skýrslu sem birtist í ritrýnda tímaritinu „Annals of Internal Medicine“ eyðir hin hefðbundna manneskja um helming af vöku tíma sínum sitjandi. Til dæmis fyrir framan tölvuskjá, horfandi á sjónvarpið, á leið til og frá vinnu sem og á veitingastöðum og kaffihúsum. Í Bandaríkjunum starfa yfir 34 milljónir manna við skrifstofustörf sem krefjast þess að þeir sitji við skrifborð 8 klst á dag eða lengur.

Hvers vegna er þetta rísandi vandamál í vestrænum samfélögum?

Einfaldlega vegna þess að of mikil kyrrseta hefur skaðleg áhrif á langtíma heilsu okkar. Þannig getur mikil kyrrseta valdið krónískum verkjum í baki, sykursýki, ofþyngd og jafnvel hjarta- og æðasjúkdómum. Auk þess skekkir hún verulega rétta líkamsstöðu okkar sem getur valdið fleiri stoðkerfis vandamálum.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þeir sem horfðu hvað mest á sjónvarp yfir tímabil sem spannaði 8,5 ár voru 61% líklegri til þess að deyja fyrir aldur fram samanborið við þá sem horfðu minna en klst á degi hverjum.

Ef þú telur þig vera í áhættuhópi er ágætt að þekkja einkennin sem geta verið fjölmörg og þeim mun lúmskari. Hér að neðan gefur að líta á lista yfir algengustu einkennin sem fjórir sérfræðingar tóku saman og vefurinn Life Coach Code birti á dögunum.

 

Verkir í hálsi og herðum

Þegar þú hallar þér fram á skrifborðið til þess að stara ofan í tölvuskjáinn setur þú mikið álag á hálsinn, þá sér í lagi aftan á hálsinn á það svæði sem tengir hryggsúluna við höfuðið. Þá eykst álagið einnig á axlirnar sem og bakið sem verður til þess að ákveðnir vöðvahópar spennast óhóflega upp á meðan aðrir slakkna algjörlega niður. Slíkt getur aftur valdið ákveðnum skekkjum og misræmi í hreyfingu þessara vöðva.

 

Minna blóð- og súrefnisflæði til heilans

Þegar við hreyfum okkur reglulega tryggjum við líkamanum aukið blóð- og súrefnisflæði sem hjálpar okkur að halda einbeitingu og skerpu í gegnum daginn. Hins vegar, þegar við hreyfum okkur lítið, til dæmis með því að sitja lengi við tölvuskjáinn, hægjum við á þessu tiltekna flæði súrefnis til heilans, sem aftur sljóvgar heilann og skerðir einbeitingu okkar.

 

Verkir í baki.

Kyrrseta til lengri tíma getur án alls efa leitt til ýmissa vandamála í baki. Sem dæmi getur hin náttúrulega staða hryggsúlunnar skekkst og liðir, brjósk o.fl. skaðast sömuleiðis. Slíkt getur með tímanum leitt af sér liðagigt sem og önnur stoðkerfis vandamál. Það að sitja langan tíma í senn getur einnig aukið álag á hryggsúluna, hálsinn sem og aðra vöðvahópa í bakinu.

 

Vöðvar slakkna og missamræmi eykst

Þegar við sitjum á stól með baki er hætt við því að við slökum algjörlega á magavöðvunum sem og öðrum kjarnavöðvum. Ef þessir vöðvahópar eru lítið notaðir til lengri tíma litið getur það leitt til vöðvarýrnunar, misræmi í lögun hryggsúlunnar, vegna slappra kviðvöðva, sem og leitt til þess að mjaðmir, rass og lærvöðvar stirna upp og mynda óeðlilega spennu. Slíkt getur leitt af sér mörg alvarleg stoðkerfisvandamál.

 

Slæm áhrif á líffæri og eðlilega starfsemi líkamans

Það að sitja tímunum saman getur valdið alvarlegum lífsstíls sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og jafnvel krabbameini, til dæmis í ristli. Þessir skjúkdómar, sem og aðrir, eru afleiðing hreyfingarleysis sem ýtir undir framleiðslu líkamans á auknu magni insúlíns en auk þess hægjir á blóðflæði líkamans til mikilvægra líffæra sem hægt og rólega getur haft neikvæðar afleiðingar. Þá er alltaf hætt við því að aukakílóin geri vart við sig með öllum þeim áhættuþáttum sem því fylgir.

 

Vandamál í fótleggjum

Kyrrseta hindrar eðlilegt blóðflæði til fótleggjanna sem getur orðið til þess að blóðið byrjar að safnast fyrir á ákveðnum stöðum í fótunum sem myndar bólgur og leiðir jafnvel til lífshættulegra blóðtappa. Þá geta beinin í fótleggjunum einnig orðið veikari.

 

Með tilliti til þeirra heilsufarslegu vandamála sem kyrrsetu fylgja ættir þú að nýta hvert tækifæri sem þú hefur til þess að halda þér á hreyfingu í gegnum daginn. Ef þú vinnur skrifstofuvinnu eru borð sem hægt er að standa við gulls ígildi. Auk þess er nauðsynlegt að taka nokkur hlé yfir daginn, helst á klukkustundar fresti hið minnsta, þar sem þú gengur um og teygir úr þér. Með þessu móti færð þú aukna orku og styður við mjóbakið og vöðvahópana þar í kring.