fbpx Skip to main content

Þú gætir verið að heyra hugtakið „settaugabólga“ í fyrsta skipti en það eru góðar líkur á að einhver í kringum þig, jafnvel þú sjálf/ur, hafi fundið fyrir verkjum og einkennum sem rekja má til hugtaksins. Umrædd settaugabólga lýsir ástandi þar sem einstaklingur finnur fyrir verk eða dofa sem dæmi, sem kemur út frá stærstu hryggjartauginni í mjóbaki og leiðir út í mjaðmir, rass og niður í fótleggina.

Orsök settaugabólgu

Settaugabólga orsakast alla jafna vegna útbungunar hryggjarbrjósks sem býr til þrýsting á taugina og veldur þannig bólgu, verkjum og í sumum tilvikum dofa í fótlegg. Aðrar orsakir settaugabólgu geta verið brjósklos eða þrýstingur frá vöðvavefjum. Þá geta í einstaka tilvikum alvarleg slys orsakað settaugabólgu, til dæmis í tilvikum þar sem hryggjarbein brotnar eða blæðir inn á nærliggjandi vöðva.

Hægt er að tilgreina nokkra áhættuþætti sem geta aukið líkur á settaugabólgu. Þeir eru einna helst:

·         Aldur: Þegar við verðum eldri getur hryggjarsúlan breyst en ein algengasta orsök settaugabólgu er út frá útbungun hryggjarbrjósks eða brjósklosi, sem einmitt getur verið fylgikvilli öldrunar, ef ekki er hugað vel að hryggjarsúlunni með fyrirbyggjandi meðferðum.

·         Offita: Aukin líkamsþyngd og ofþyngd getur valdið auknum þrýsting á hryggjarsúluna sem aftur getur orsakað þrýsting á taugar og framkallað bólgur.

·         Kyrrseta og starfsumhverfi: Fólk sem situr löngum stundum og hreyfir sig lítið er í aukinni áhættu á að fá settaugabólgu. Sama má segja um þá sem starfa við störf sem krefjast burðar með þyngsli, þar sem viðkomandi þarf jafnvel að snúa mikið upp á bakið á sér, oft með snöggum ómeðvituðum hreyfingum.

Einkenni settaugabólgu

Verkur sem ferðast frá mjóbaki, niður í rass og aftan í læri á öðrum hvorum fótleggnum, er einkennismerki settaugabólgu. Verkinn og óþægindin má gjarnan finna einhversstaðar á þessu svæði og þá getur, eins og áður segir, dofi og þreyta gert vart við sig.

Misjafnt getur verið hversu mikinn verk fólk upplifir, allt frá óþægindum yfir í mikla verki og alvarlegri einkenni. Sumir finna sviðatilfinningu á meðan aðrir finna skjóta verki og jafnvel eins og vægt raflost.

Afar sjaldgæft er að fólk upplifi verki á báðum hliðum og fótleggjum líkamans. Nær oftast myndast settaugabólga einungis öðru megin.

Mikil kyrrseta getur aukið á einkennin og gert ástandið óbærilegra. Sömuleiðis getur verið óþægilegt að hnerra mikið eða hósta.

Meðferðarúrræði og fyrirbyggjandi leiðir

Í sumum vægari tilvikum getur settaugabólga lagast af sjálfu sér á nokkrum vikum. Í öðrum tilvikum gæti þurft að leita til sérfræðings og finna út hvaða meðferð hentar best til þess að losa um þrýstinginn og ná fyrri bata. Kírópraktorar, sem dæmi, þekkja vel til settaugabólgu og með kírópraktískri nálgun má oftast vinna bug á vandamálinu. Þar sem settaugabólga á rætur sínar að rekja til hryggjarsúlunnar getur kírópraktorinn losað um þrýsting og klemmur í hryggnum og aukið sveigjanleika og liðleika mjóbaksins, sem og hryggjarsúlunnar allrar. Þeir hafa góða reynslu af því að greina rót vandans en sem dæmi má nefna að á Kírópraktorstöðinni er notast við hreyfifærnipróf, hita- og taugamælingar og í sumum tilvikum röntgenmyndatöku til þess að greina vandamálið svo hægt sé að tryggja rétta meðferð.

Meðan á meðferð stendur getur kírópraktor einnig kennt viðkomandi skjólstæðing að fyrirbyggja settaugabólgu en af fyrirbyggjandi aðgerðum má m.a. nefna:

  • Regluleg hreyfing – til þess að tryggja liðleika og byggja upp líkamsstyrk. Gott er að huga að kjarnavöðvum líkamans, bak- og kviðvöðvum sem hjálpa okkur að viðhalda góðri líkamsstöðu.

  • Viðhalda góðri líkamsstöðu – þegar þú situr, til dæmis við vinnu, skaltu huga vel að líkamsstöðunni, tryggja góðan bakstuðning, hafa hné í mjaðmahæð og stuðning við hendur.

  • Huga vel að líkamsbeitingu – til dæmis þegar við þurfum að lyfta þungum hlutum. Gætum þess að beygja okkur rétt niður, halda hlutnum vel að okkur og fá kraftinn í lyftuna úr fótleggjunum og rassi, ekki mjóbakinu.

  • Góðar teygjur – til þess að bæta liðleika og sveigjanleika í líkamanum.

  • Nuddmeðferðir – geta hjálpað til þess að losa um bólgur og mýkja vöðva og vefi líkamans.

This site is registered on wpml.org as a development site.