Það er á þessum tíma ársins sem við förum óhjákvæmilega að hlakka til komandi sumars og allra þeirra gæðastunda sem því fylgir. Fyrir mörg okkar felast þessar gæðastundir í útiveru, nánar tiltekið á göngu frá teig eitt til átján, dragandi á eftir okkar driver, þrist, pútter og þar fram eftir götunum. Sumarið er tíminn og það er svo sannarlega tími golfarans.
Það er næsta víst að jafnt atvinnu- sem og áhugafólk í golfi reynir eftir fremsta megni að bæta leik sinn ár frá ári og hefst það allra jafna með góðri æfingu og góðu líkamlegu ásigkomulagi. Það getur hins vegar verið nauðsynlegt, fyrir þá sem setja markið enn hærra, að bæta um betur og leita til sérfræðinga þegar kemur að því að bæta styrk og liðleika og þar kemur kírópraktík sterklega til greina.
Flestir golfarar finna á einhverjum tímapunkti til verkja í bakinu, einfaldlega þar sem íþróttin setur mikið álag á bakið og hálsinn. Margir atvinnugolfarar hafa þurft á aðgerðum að halda vegna krónískra verkja í baki eða hálsi. Samkvæmt doktor Tom LaFountain, sem fer fyrir félagi kírópraktora á PGA mótaröðinni, eru 80% allra meiðsla sem golfarar verða fyrir tengd meiðslum í baki. Með kírópraktískri nálgun má hins vegar koma í veg fyrir alvarleg meiðsli í baki og þannig draga úr líkum á því að viðkomandi þurfi að draga sig í hlé frá íþróttinni og jafnvel ganga undir stórar og erfiðar skurðaðgerðir vegna téðra meiðsla.
En hvað er það við kírópraktík sem getur hjálpað golfurum að ná betri árangri?
Í stuttu máli má segja sem svo reglulegar heimsóknir til kírópraktors tryggi hámarks hreyfigetu hryggsins og eðlilegt flæði taugaboða til ólíkra svæða líkamans. Jafnvel þó svo að við eigum erfitt með að greina það sjálf geta ákveðnar hryggskekkjur hindrað eðlilega hreyfigetu líkamans og enn fremur getur hverskyns óeðlileg staða hryggjarliðanna komið í veg fyrir að taugaboð berist hratt og örugglega til vöðva líkamans. Með öðrum orðum, þú veist hvað þú þarft að gera til að slá kúluna, þú gerir þig klára/n í sveifluna en ef hryggurinn er ekki í topp-standi er líklegt að þú náir ekki þeirri nauðsynlegu sveigju á líkamann og þeirri vöðvasamhæfingu sem þarf til þess að ná góðri sveiflu og þar með góðu höggi. Með reglulegum heimsóknum til kírópraktors má þannig finna og leiðrétta hryggvandamál svo taugakerfið þitt geti starfað á hámarksgetu sem allra jafna hjálpar þér að fullkomna sveifluna.
Aðrir þættir kírópraktískrar nálgunar fyrir golf áhuga- og atvinnufólk
Sjálf heimsóknin til kírópraktorsins felst að sjálfsögðu í hnykkingum og öðrum aðferðum sem hjálpa þér að hámarka hreyfigetu þína og koma eðlilegu flæði á taugakerfið og líkamann í heild sinni. En kírópraktísk nálgun snýst líka um aðra þætti utan heimsóknatímanna og þannig má tryggja hámarks árangur meðferðarinnar. Fyrir golf áhugafólk er farið yfir hina ýmsu þætti sem geta verið stór partur af meðferðinni, til dæmis hinar ýmsu teygju og styrktaræfingar.
Hér að neðan má sjá nokkur góð ráð fyrir golfara til þess að bæta liðleika og styrk sem allra jafna bætir sveifluna og vonandi forgjöfina líka!
Teygðu vel á öllum líkamanum: Þegar þú teygir vel á öllum líkamanum, bæði fyrir og eftir golfhringinn getur þú komið í veg fyrir algeng meiðsli sem og aukið hreyfigetu þína, sem aftur hjálpar þér að fullkomna sveifluna. Helstu svæði sem þú ættir að leggja áherslu á eru m.a. kálfvöðvar og hásin, bæði framan á og aftan á læri, mjaðmir og mjaðmaliðir, mjóbak og efra bak, kjarnavöðva, úlnliði og axlir
Leggðu aukna áherslu á kjarnavöðva líkamans: Í hvert skipti sem þú sveiflar kylfunni reynir þú á kjarna vöðva líkamans. Margir gera þau mistök að telja að kjarnavöðvar líkamans séu einungis magavöðvarnir en í raun eru það allir þeir vöðvar sem sitja frá grindarbotninum upp að öxlum. Reyndu því eftir fremsta megni að notast við styrktaræfingar sem reyna vel á þetta svæði.
Æfðu sveifluna utan vallar: Það er ekki nóg að æfa sveifluna einungis á golf vellinum. Nýttu tækifærið hvar sem þú ert og sjáðu fyrir þér kylfuna í höndum þér og hvernig þú getur hámarkað árangur þinn með bættri sveiflu. Með þessu móti heldur þú þér á hreyfingu og æfir auk þess mikilvæga vöðvahópa sem hjálpa þér að fullkomna sveifluna.
Leggðu áherslu á mjaðmirnar: Margir trúa því að golfið sé allt í mjöðmunum, m.ö.o. að bæði styrkleiki mjaðmanna sem og hreyfigeta hafi úrslitaáhrif á hversu góðri sveiflu þú nærð. Með því að styrkja mjaðmirnar og tengda vöðvahópa, sem og teygja vel á þeim, getur þú bæði aukið hreyfigetu þína og þar með dýpt sveiflunnar, sem og komið í veg fyrir meiðsli í mjóbaki og mjöðmunum sjálfum.