Venjurnar okkar eru stór partur af því hvernig við lifum lífinu. Oft erum við ef til vill ekki meðvituð um okkar lærðu hegðun og þær venjur sem við viðhöfum í okkar daglega lífi. Sumar venjur geta verið góðar venjur, til dæmis að hreyfa sig, borða hollt, að leggja sig fram í leik og starfi, huga að fólkinu í kringum okkur o.s.fr. Aðrar venjur, hins vegar, geta haft neikvæð áhrif á líf okkar en veita okkur ef til vill skammtíma ánægju eða hafa fylgt okkur í langan tíma og við eigum í erfiðleikum með að venja okkur af þeim. Dæmi um slíkt er óhollt matarræði, hreyfingarleysi, reykingar o.fl.
Þegar kemur að líkama okkar og þá sérstaklega bakinu geta hinar ýmsu venjur haft slæm áhrif á heilsu okkar. Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um slíkar venjur sem allra jafna leiða til verkja í baki og almenns heilsuleysis. Við hvetjum þig til þess að fara í gegnum þennan lista og sjá hvort þessar venjur eiga við þig og ef svo er, væri þá ekki tilvalið að kveðja þær í eitt skipti fyrir öll?
1. Þú situr lengi í senn og jafnvel með bogið bak (kryppu).
Ef þú situr með bogið bak er hætt við því að hin náttúrulega staða hryggsúlunnar skekkist og liðir, brjósk o.fl. skaðist sömuleiðis. Slíkt getur með tímanum leitt af sér liðagigt sem og önnur stoðkerfa vandamál. Það að sitja langan tíma í senn getur einnig aukið álag á hryggsúluna, hálsinn sem og aðra vöðvahópa í bakinu. Hafðu það hugfast að rétta úr þér, hreyfa hausinn rólega til allra átta öðru hverju og reyna að standa upp og hreyfa þig eins oft og þú getur yfir daginn.
2. Of mikið af góðgæti
Þegar þú velur óhollt matarræði eru góðar líkur á því að líkaminn svari með bólgumyndun þar sem sykur og óhollar fitur sem dæmi geta valdið bólgum í líkamanum. Til þess að viðhalda góðri heilsu þarftu næringarefni eins og prótein, trefjar, hollar fitur, vítamín og steinefni sem þú færð allra jafna úr ávöxtum, grænmeti, heilkornavörum, fiski og kjöti, svo fátt eitt sé nefnt. Veldu því fæðutegundir sem innihalda þessi næringarefni og þannig hjálpar þú líkama þínum að viðhalda vöðvastyrk ásamt því að byggja upp bein og mjúkvef í bakinu þínu.
3. Dýnan sem þú sefur á hentar þér illa
Góð regla þegar kemur að því að velja réttu dýnuna fyrir þig er að hún sé nægilega hörð til að styðja við bakið þitt en nógu mjúk sömuleiðis til þess að koma til móts við líkamslögun þína. Þá getur verið mikilvægt að greina svefnstöðu þína sem og ef þú finnur til verkja í bakinu. Leitaðu ráða hjá sérfræðingum áður en þú kaupir þér nýtt rúm, það getur margborgað sig.
4. Þú sefur á bakinu
Það að sofa á bakinu getur fyrir sumt fólk haft vond áhrif á mjóbakið. Það getur hins vegar verið erfitt að breyta um svefnvenjur þar sem þær hafa gjarnan myndast yfir margra ára tímabil. Ef þú getur ekki vanið þig af því að sofa á bakinu getur verið gott ráð að setja kodda undir hnéin og reyna janframt að finna koddastærð sem hentar undir höfuðið þitt, þannig að þú fáir góða slökun í mjóbakið.
5. Þú sefur á maganum
Það er best að sleppa því að sofa á maganum, sérstaklega ef þú finnur til verkja í bakinu. Þegar þú liggur á maganum myndast áreynsla á hálsinn og mjóbakið. Ef þetta er venja sem þú getur alls ekki vanið þig af er mælst með því að þú sofir með mjúkan eða janfvel engan kodda til þess að taka álagið af hálsinum. Best er að sofa á hliðinni þó og jafnvel með kodda á milli hnjáa. Þá getur verið gott að draga fæturnar örlítið í átt að brjóstkassanum, sérstaklega ef um mjóbaksverki er að ræða sem og fyrir barnshafandi konur.
6. Þú hreyfir þig lítið sem ekkert
Þú ert mun líklegri til þess að fá bakverki ef þú æfir lítið sem ekkert. Hryggsúlan þarf stuðning frá sterkum bak- og kviðvöðvum og því er mikilvægt að stunda einhverskonar hreyfingu. Sem dæmi um slíkt má nefna líkamsrækt, hlaup, göngur, sund, hjólreiðar sem og aðrar íþróttir. Þá geta litlu hlutirnir í okkar daglega lífi einnig skipt máli, svo sem að taka stigann í stað lyftunnar, leggja bílnum lengra frá búðinni, ganga eða hjóla í vinnuna o.s.fr. Gættu þess þó að ofreyna þig ekki þar sem slíkt getur hæglega leitt af sér meiðsli og önnur vandamál.
7. Þú reykir
Samkvæmt rannsóknum er reykingafólk þrisvar sinnum líklegra til þess að fá verki í mjóbakið. Reykingar geta hamlað blóðflæði líkamans og þar með talið til hryggsins. Slíkt getur valdið því að liðir, brjóskþófar og aðrir mikilvægir þættir hryggsins brotna niður og skemmast. Þá geta reykingar valdið beinþynningu og hægt á bataferli líkamans. Jafnvel hósti vegna reykinga getur valdið bakverkjum. Ef þú reykir dags daglega skaltu hafa sem þitt helsta markmið að hætta því og leita þér viðeigandi aðstoðar við að hætta að reykja.
8. Þú borðar of mikið
Aukakíló geta sett of mikinn þunga á bein og vöðva í bakinu, þá sér í lagi ef þú bætir á þig aukakílóunum á skömmum tíma. Það er góð venja að borða hægt en þannig gefur þú líkama þínum tækifæri á því að skynja að þú sért södd eða saddur. Veldu mat sem inniheldur mikið magn næringarefna þannig að þú upplifir meiri seddu tilfinningu með færri kaloríum. Ef þig langar að nasla, veldu þá gulrætur fremur en kartöfluflögur, svo dæmi séu tekin.
9. Þú setur of mikla þyngd í bakpokann.
Miklar þyngdir geta valdið þreytu í vöðvum sem styðja við hrygginn. Börn á grunnskóla aldri eru sérstaklega í áhættuhóp hvað þetta varðar enda bera þau gjarnan þungar skólatöskur á herðum sér á leið sinni til og frá skólanum. Bakpoki barnsins á aldrei að vera þyngri en 15-20% af heildarþyngd barnsins. Þá geta góðar töskuólar hjálpað til við að dreifa þunganum jafnt yfir líkamann, svo lengi sem þær eru vandaðar og rétt stilltar. Það að bera bakpoka eða veski á annarri öxlinni getur valdið tognun í baki.
10. Hjólið þitt hentar þinni líkamsstærð illa
Hvort sem hjólið er í rangri stærð eða vanstillt getur það haft slæm áhrif á bakið þitt ef þú þarft að sitja álút/ur og teygja þig langt fram til að ná í stýrið. Fáðu hjálp frá sérfræðing um hvaða hjólastærð hentar þér best og láttu stilla það þannig að þú forðist óeðlilega líkamsstöðu á meðan þú hjólar.
11. Þú gengur um á háum hælum
Það að ganga mikið um í hælaskóm getur valdið áreynslu á vöðvum í mjóbaki sem og skaðað eðlilega stöðu hryggsúlunnar, þá sér í lagi þegar við eldumst. Ef vinnan þín sem dæmi krefst þess að þú sért í hælum, taktu þá góða hlaupaskó með þér sem þú getur að minnsta kosti gengið í til og frá vinnu. Þá getur verið gott að nudda tennisbolta undir fótinn til að losa um spennu og styrkja vöðva í fætinum.
12. Ættir þú að stunda jóga?
Of mikil áreynsla og þar með talið jóga getur valdið bakverkjum. Í sumum tilvikum hins vegar getur jóga hjálpað þér að losa um eymsli í bakinu. Ráðfærðu þig við góðan jógakennara til að hjálpa þér að komast í rétta formið. 10-20 mínútur af jóga æfingum, nokkrum sinnum í viku, getur hjálpað þér að auka vellíðan en of mikil áreynsla getur leitt af sér meiðsli. Ef þú finnur til verkja í baki meðan á æfingunum stendur, hættu þá samstundis að stunda þær og ráðfærðu þig við sérfræðing áður en þú heldur áfram.
13. Þú gerir magaæfingar á rangan máta.
Það er mjög mikilvægt að gera magaæfingar með réttum hætti. Þú vilt alls ekki láta mjaðmaliðina, sem tengja mjóbak niður í lærvöðva, gera allar hreyfingarnar. Þegar mjaðmaliðirnir og vöðvahóparnir þar í kring eru of spenntir eða stirðir, geta þeir togað í mjóbakið og neðri hluta hryggsúlunnar, sem veldur meiðslum. Góð leið til að forðast slíka áreynslu er að taka planka æfingar í stað hefðbundinna magaæfinga. Plankinn passar að þú haldir líkama þínum beinum og byggir betur upp kjarna vöðvahópa líkamans.
Þessi grein byggir á áður birtu efni á vef WebMD.