fbpx Skip to main content

Eins og nafnið gefur til kynna er hlutverk stoðkerfisins það að gera okkur kleift að hreyfa okkur og halda líkamsstöðunni okkar. Það samanstendur af öllum þeim beinum, liðum, brjóski og beinagrindavöðvum sem fyrirfinnast í líkamanum. Heilbrigt stoðkerfi og eðlileg virkni þess er því algjör grundvallarforsenda heilsu okkar, þar sem það gerir okkur kleift að athafnast og sinna öllum þeim verkefnum sem felast í okkar daglega lífi.

Þegar sjúkdómar eða önnur frávik gera vart við sig í flóknu samspili ólíkra þátta stoðkerfisins, getur það leitt til vandamála sem hafa áhrif á heilsu okkar og skert möguleika okkar á að lifa eðlilegu og góðu lífi. Stundum geta þessi frávik og vandamál verið smávægileg, sem dæmi lítil eymsli sem líkaminn vinnur bug á. Í öðrum tilvikum geta vandamálin verið þeim mun alvarlegri og haft stórkostleg áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega og andlega.

Í rannsókn frá árinu 2006, sem birtist í European Journal of Pain, kemur fram að um 50% þátttakenda, sem voru að kljást við langvarandi stoðkerfisverki, voru með verki í baki. Næst á eftir komu verkir í liðum eða hjá 40% þátttakenda. Þá höfðu samanlagt um 20% þátttakanda verki í hálsi og höfði eða í fótum og höndum. Orsök verkjanna var í 42% tilfella vegna liðagigtar eða slitgigtar og var það stærsti hópurinn en þar á eftir var 20% vegna brjósklos og brots á hryggjarliðum.

Hvað er til ráða?

Þegar kemur að verkjum og vandamálum í stoðkerfinu er mikilvægt að greina vel hvert atvik fyrir sig til þess að komast að rót vandans. Ýmsir aðilar og sérfræðingar eru hæfir til þess að greina slík vandamál, til dæmis:

  • Læknar

  • Kírópraktorar

  • Sjúkraþjálfarar

  • Aðrir sérfræðingar

Með kírópraktík, svo dæmi séu tekin, er leitast við að skoða alla sögu viðkomandi einstaklings með viðtölum, líkamsskoðun, mælingum á taugakerfi, mati á líkamsstöðu og röntgenmyndum, ef þörf er talin á. Það gefur viðkomandi kírópraktor aukna innsýn inn í heilsu viðkomandi skjólstæðings og hjálpar honum að meta ástand hans með tilliti til verkjanna. Þá er gjarnan farið yfir allskyns mynstur í okkar daglega lífi s.s. vinnuaðstöðu, svefnvenjur, mataræði, hreyfigetu, tíðni hreyfingar o.fl.

Hvernig er tekið á stoðkerfisvandamálum hjá kírópraktor?

Með kírópraktískri nálgun er helsta markmið kírópraktorsins að auka hæfni og getu viðkomandi skjólstæðings til þess að sinna daglegum verkefnum sínum og lifa lífi sínu án verkja og skertrar hreyfigetu. Meðferðin getur falið í sér að losa um vefi líkamans, draga úr bólgum, tryggja eðlilegt flæði í taugakerfi og hryggsúlu sem og teygja á liðum og liðamótum.

Þegar kemur að meðferðum við liðagit er helsta markmið þeirra að draga úr og koma stjórn á verki. Þannig reynir kírópraktorinn eftir fremsta megni að halda einkennum sjúkdómsins niðri og draga úr niðursveiflum sem fela í sér mikla verki, skerta hreyfigetu og skert lífsgæði.

Hvað getum við sjálf gert?

Það eru ýmsir þættir sem við getum gert í dagsins önn sem geta hjálpað okkur að vinna bug á verkjum í stoðkerfi, þó allt eftir eðli og alvarleika verkjanna eins og gefur að skilja. Öll eiga þó neðangreind ráð það sameiginlegt að bæta almennt heilsu okkar og líðan og ættu því að henta flestum sem finna til verkja.

Styrktu kjarnavöðva líkamans og æfðu reglulega

Sterkir kjarnavöðvar og almennt gott líkamlegt form viðheldur stuðningi við stoðkerfið og kemur í veg fyrir meiðsli. Öll hreyfing eykur blóðflæði í líkamanum og kemur af stað ferli sem hjálpar eðlilegri líkamsstarfsemi, til dæmis vöðvum og liðum í baki, að styrkja og viðhalda sveigjanleika sínum. Ef þú ert á byrjunarreit hvað hreyfingu varðar er mikilvægt að byrja rólega og setja þér raunhæf markmið. Til dæmis að ganga stiga í stað þess að taka lyftuna, fara í göngutúr, sund, sitja á æfingabolta í stað skrifborðsstóls og finna þér hreyfingu sem hæfir þér og þínum áhugamálum.

Endurhannaðu vinnuaðstöðuna þína

Ef þú vinnur við skrifborð allan daginn geta komið upp verkir í til dæmis baki sem er þá bein afleiðing þeirrar vinnu, þ.e. vinnuaðstöðunnar. Með því að breyta vinnuaðstöðunni, með það fyrir augum að gera hana betri fyrir heilsuna þína, getur þú dregið úr bakverknum og jafnvel komið í veg fyrir hann. Þessi endurhönnun hefst á nokkrum lykilatriðum, svo sem að endurraða hlutum á skrifborðinu, stilla stólinn í rétta hæð sem og skjáinn. Þá er lykilatriði að standa reglulega upp og fá hreyfingu á líkamann.

Borðaðu fæðu sem byggir upp vöðva og bein

Hollt mataræði hefur margvísleg jákvæð áhrif þegar kemur að stoðkerfinu. Í fyrsta lagi ber að nefna að hollt mataræði heldur líkamsþyngd þinni innan eðlilegra marka og því ólíklegra að mikil umfram þyngd leggist á kerfið. Í öðru lagi mun mataræði, sem er ríkt af næringarefnum sem styðja við vöðva og bein, hjálpa þér að byggja upp styrk og viðhalda þannig sterkum beinum og vöðvum. Þá er mikilvægt að halda sig frá matvörum sem auka bólgur í líkamanum, til dæmis matvörur sem innihalda einföld kolvetni, sykur og óhollar fitur.

Finndu góða svefnstöðu sem styður vel við bakið

Að sofa á hliðinni er ein algengasta svefnstaðan sem fólk temur sér. Þegar einstaklingur sefur á hliðinni getur verið gott að setja púða milli fótanna (best er að setja púðann þar sem hnéin mætast) en það tryggir betri stöðu fyrir mjóbakið. Fyrir þá sem sofa á bakinu getur verið gott að leggja púða undir hnéin sem aftur styður við mjóbakið. Flestir sérfræðingar mælast hins vegar gegn því að sofa á maganum, þá sérstaklega þegar um bakverki er að ræða.

Vertu í þægilegum skóm sem veita góðan stuðning

Ein leið til þess að draga úr verkjum og öðrum stoðkerfis vandamálum er að ganga í góðum skóm sem veita fullnægjandi stuðning. Sem dæmi má nefna íþróttaskó og aðra skó með þykkum og mjúkum botni. Þó svo að hælaskór séu e.t.v. ekki besta lausnin er eftir sem áður í góðu lagi að ganga í hælaskóm, svo lengi sem botninn er mjúkur og veitir góðan stuðning þegar gengið er á hörðu yfirborði.

Skelltu þér í jóga

Samkvæmt rannsókn sem birtist í hinu ritrýnda tímariti “Annals of Internal Medicine”, eru sterkar vísbendingar sem benda til þess að jóga geti haft jákvæð skammtímaáhrif þegar kemur að því að draga úr verkjum í líkamanum. Jóga felur í sér mjúkar og hægar hreyfingar sem hjálpa þér að styrkja og teygja á líkamanum, án þess þó að komi til einhverskonar högga eða annars álags sem gæti leitt til frekari meiðsla. Þá getur jóga einnig hjálpað þér að losa um streitu og álag sem gæti losað enn frekar um spennu sem þú viðheldur í líkama þínum. Ef þú ert að glíma við mjög alvarleg meiðsli í stoðkerfi, jafnvel brjósklos, þursabit eða önnur samskonar veikindi, skaltu ráðfæra þig við sérfræðing áður en þú byrjar í jóga.

Lagaðu líkamsstöðuna

Léleg líkamsstaða setur mikinn þunga og pressu á bakið og getur á endanum valdið verkjum og meiðslum sem aftur leiðir út í útlimi líkamans. Þú þarft því að huga vel að líkamsstöðu þinni og gæta þess að hryggsúlan fái að halda sinni eðlilegu stöðu og þannig sinna sínu hlutverki sem er það að halda líkama þínum uppréttum og beinum.

Hvert er hægt að leita vegna stoðkerfa vandamála?

Best er að ræða við sérfræðinga sem geta leitt þig í átt að bata. Hér á Kírópraktorstöðinni sérhæfa kírópraktorar sig í meðferðum við stoðkerfavandamálum og geta því veitt góð ráð og meðferðir í flestum tilvikum. Þú getur haft samband við okkur beint, í gegnum síma 588-8085, með tölvupósti á kiro@kiro.is eða í gegnum samskipti Facebook og Instagram.

This site is registered on wpml.org as a development site.