fbpx Skip to main content

Við þekkjum það flest að finna fyrir streitu einhvern tímann á lífsleiðinni, auðvitað mismikilli eftir aðstæðum og umhverfi hverju sinni. Þó svo að örlítið stress geti endurm og eins vissulega hjálpað okkur, þá getur mikil  streita og streita til lengri tíma haft slæmar afleiðingar á líkamlega- og andlega heilsu okkar. Þannig er væg streita oft af hinu góða á þann hátt að hún getur aðstoðað okkur við að tækla hin ýmsu verkefni, en um leið og hún verður of mikil getur hún haft slæm áhrif á heilsuna. Þetta er fín lína sem oft getur verið erfitt að halda sér réttu megin við.

Streita – orsakir og einkenni

Að uppgötva streitu snemma og grípa strax inn í er lykilþáttur í viðhaldi á góðri heilsu. Þegar líkami okkar er undir stöðugu álagi og streitu getur hann myndað hormón sem geta truflað hefðbundna starfsemi líkamans. Streituviðbrögðum okkar er stjórnað af heilastarfseminni sem er stjórnað af taugakerfinu. Allt eru þetta keðjuverkandi þættir sem geta komið niður á okkar heilsu, bæði líkamlegri og andlegri, ef ekki er hugað nógu vel að þeim. Margir hafa heyrt talað um að allir hlutir hvíli á, eða öll ábyrgð sé á herðum okkar. Það er frekar algengt að streita leiði til líkamlegrar spennu, reyndar er langvarandi streita mjög algeng ástæða fyrir verkjum í baki svo þessi myndlíking á sér ágætar stoðir í raunveruleikanum ef svo má að orði komast.

Streita er hvati sem getur leitt til margra vandamála, þar á meðal kvíða, þunglyndis, veikinda, skorti á svefni (þreytu og slen), slæmrar húðar og fleira. Einkenni streitu geta verið misjöfn, til dæmis í formi verkja, stoðkerfisvandamála, breytinga á skapi og hegðun, veikara ónæmiskerfis sem og annarra heilsufarslegra vandamála. Langvarandi streita getur á margan hátt bæði haft áhrif á heila- og líkamsstarfsemi okkar. Þegar streita herjar á okkur getur verið erfitt að koma hlutum í verk, við getum misst einbeitingu, fengið höfuðverk í formi mígrenis, vöðvaspenna myndast og þar af leiðandi verkir í baki og hálsi. Þegar við erum undir miklu álagi og stressi getur það einnig haft áhrif á öndunina okkar sem getur leitt af sér spennu í baki og öxlum og þar af leiðandi myndað slæma líkamsstöðu.

Vöðvaspenna og streita

Þegar við erum undir miklu álagi og streitu hafa vöðvar okkar tilhneigingu til að dragast saman og við finnum fyrir spennutilfinningu. Þegar vöðvar eru í stöðugri spennu gefst þeim ekki tækifæri til að hvílast og fá endurheimt. Stöðugt spenntir vöðvar geta auðveldlega leitt af sér verki í sinum, liðböndum, liðum og taugum svo eitthvað sé nefnt. Í þessu óeðlilega ástandi geta einnig myndast bólgur. Vöðvaspenna er algeng og jafnvel þeir sem finna aldrei fyrir andlegu stressi dagsdaglega geta byrjað að fá höfuðverk eða aðra verki út frá vöðvaspennu sem myndast við álag.

Streita og kírópraktík

Margir þættir geta haft áhrif á og skapað hjá okkur streitu. Að sama skapi eru margir þættir sem geta aðstoðað við að draga úr streitu. Til dæmis kírópraktísk nálgun. Kírópraktísk nálgun getur til dæmis dregið úr vöðvaspennu en eins og kom fram hér að ofan getur mikil streita leitt af sér mikla vöðvaspennu. Þegar dregið er úr slíkri spennu er líklegra að þreyttur líkami fái meiri ró og hugurinn þar einnig. Þinn kírópraktor getur svo leiðbeint þér varðandi viðeigandi æfingar í takt við áframhaldandi vinnu við spennulosun.

Ýmsar kenningar eru til um hvernig bakverkir geti orsakast í kjölfar streitutengdra vandamála. Kírópraktísk nálgun gengur út á það að koma líkama í jafnvægi. Kírópraktísk meðferð hjálpar smám saman líkamanum að lækna sig og styrkja. Fólk sem þjáist af, sem dæmi, bak- og/eða liðverkjum finnur oft að reglulegar heimsóknir til kírópraktors aðstoða við að öðlast langvarandi létti. Þ.e. kírópraktík getur snúið ferlinu við, gefið líkamanum þá slökun sem hann þarf til þess að lækna sig sjálfur. Þannig geta reglulegar heimsóknir til kírópraktors hjálpað til við að draga úr streitu.

Að komast hjá of mikilli streitu

Við munum flest öll finna fyrir streitu, þó mismikilli, í gegnum lífið. Það sem skiptir mestu máli er hvernig við ákveðum að takast á við þá streitu sem skapast hverju sinni.

Meðal annars er nauðsynlegt að tryggja:

  • Nægan svefn
  • Hollt mataræði
  • Hreyfingu
  • Slökun
  • Viðeigandi verkefnastjórnun
  • Góðan félagsskap

Síðast en ekki síst mælum við með reglulegum heimsóknum til þíns kírópraktors. Eins og áður kom fram er hryggjarsúlan okkar og taugakerfið nátengt sem gerir það að verkum að ásigkomulag hryggjarsúlu okkar getur haft bein áhrif á okkar líðan, bæði líkamlega og andlega. Þinn kírópraktor aðstoðar þig við að viðhalda þinni hryggjarsúlu og hjálpar þannig líkamanum að vinna gegn streitu og öðrum tengdum kvillum.

This site is registered on wpml.org as a development site.