fbpx Skip to main content

Ein af grundvallar undirstöðum heilsu okkar er svefninn. Góður nætursvefn skiptir öllu fyrir líkamlega og andlega heilsu okkar en fjölmargar rannsóknir á undanförnum árum og áratugum hafa sýnt fram á tengsl milli svefns og heilsu. Góður nætursvefn leiðir til hinna ýmsu heilsufarslegu ávinninga en þar má til dæmis nefna meiri einbeitingu og framkvæmdagleði, betra líkamlegt form, sterkara ónæmiskerfi, betri félagsleg tengsl en þar að auki minnkar góður svefn líkurnar á mörgum lífstílstengdum sjúkdómum, svo sem þunglyndi, sykursýki og jafnvel krabbameini.

Flestir sérfræðingar á sviði svefnrannsókna mæla með 7-8 klst samfelldum svefn yfir nóttina til þess að líkaminn fái þá hvíld sem hann þarf, bæði líkamlega sem og andlega.

Hins vegar eiga sumir erfitt með að ná þessum viðmiðum og oft getur það stafað út frá verkjum í líkamanum. Sem dæmi má nefna mjóbaksverki, klemmdar taugar, fótapirring, þrýsting á taugar í brjóstbaki og höfuðverk sem stafar út frá hálsinum. Allt eru þetta algengar ástæður sem leiða til svefnleysis til skemmri eða lengri tíma.

Fyrir þá einstaklinga sem þjást af slíkum verkjum er virkilega mikilvægt að leita leiða til þess að draga úr verkjum og óþægindum til þess að tryggja betri svefn og meiri svefngæði. Og þar kemur kírópraktík einstaklega vel að gagni.

Mikilvægi taugakerfisins fyrir svefngæði

Samspil mismunandi þátta taugakerfisins og líkamlegrar starfsemi hefur gríðarleg áhrif á svefninn og gæði hans. Allar truflanir og hindranir sem hafa áhrif á taugakerfið og starfsemi þess getur leitt til svefntruflana, sem undirstrikar mikilvægi þess að tryggja eðlilega virkni taugakerfisins.

Með kírópraktískri meðferð er hægt að:

  • Draga úr verkjum sem stafa af klemmdum taugum og óeðlilegum þrýsting á taugar, sem stafar af skekkjum eða spennu í hryggsúlu
  • Bæta virkni taugakerfisins, einfaldlega með því að tryggja eðlilega virkni hryggsúlunnar og draga úr vöðvaspennu og bólgum. Þannig fær taugakerfið tækifæri til þess að flæða með eðlilegum hætti og boðleiðir til og frá heila, til mænunnar og út í líkamann, ganga smurt fyrir sig.
  • Draga úr vöðvaspennu, en þegar mikil streita og vöðvaspenna er í líkamanum getur það haft áhrif á stöðu hryggsúlunnar sem aftur getur skaðað virkni taugakerfisins.
  • Bæta líkamsstöðuna en með betri líkamsstöðu verður staða og virkni hryggsúlunnar eðlilegri sem aftur stuðlar að betri virkni taugakerfisins.

Kírópraktík er þannig ein allra besta leiðin til þess að vinna með hryggsúluna og tryggja að staða hennar og virkni sé í góðu ásigkomulagi. Hér hjá Kírópraktorstöðinni eru sem dæmi framkvæmdar röntgen myndatökur og taugaskannar til þess að kanna heilbrigði hryggsúlunnar, stöðu hennar, finna út bólgur, skekkjur og þar fram eftir götunum. Í framhaldinu er svo unnið að því hámarka hreyfanleika og stöðugleika hryggsúlunnar og tryggja að taugakerfið starfi með eðlilegum hætti, sem aftur getur haft gríðarleg áhrif á svefn og gæði svefnsins.

Kírópraktík og svefnvenjur

Auk þess að vinna með hryggsúluna og líkamann í heild sinni, getur kírópraktor veitt góðar ráðleggingar varðandi svefnvenjur og lífsstíl. Meðferð hjá Kírópraktorstöðinni sem dæmi hefst á viðtali þar sem farið er yfir heilsufarssögu viðkomandi og hans helstu venjur eru þar til skoðunar sömuleiðis. Með því að fara yfir þessa þætti er hægt að ráðleggja einstaklingnum um breytingar á hegðunarmynstri. Hvað varðar svefninn getur kírópraktor sem dæmi veitt ráðleggingar varðandi:

  • Val á dýnu
  • Val á kodda
  • Svefnrútína
  • Ráðleggingar varðandi umhverfi
  • O.fl.

Hér getur þú sem dæmi lesið þér nánar til um góðar svefnvenjur og leiðir til þess að sofa betur.

Hreyfigeta og liðleiki – samspil hreyfingar og svefns

Þegar stoðkerfi líkamans er uppfullt af bólgum, stirðleika og skekkjum, eða misjafnvægi, hamlar það getu einstaklingsins til þess að hreyfa sig með náttúrulegum hætti. Með því að meðhöndla hryggsúluna og aðra liði og liðamót í líkamanum, með kírópraktískri nálgun, er hægt að auka liðleika og hreyfifærni hjá einstaklingnum.

Skert hreyfigeta getur haft neikvæð áhrif á svefninn og gæði svefns, þar sem viðkomandi getur átt erfitt með að hreyfa sig, liggja á ákveðnu vegu o.fl. sem raskar svefninum.

Þá er einnig mikilvægt að einstaklingar hafi tök á því að hreyfa sig og stunda einhverskonar líkamsrækt. Regluleg líkamsrækt getur hjálpað til við að stilla líkamsklukkuna og bæta þannig svefnmynstur. Þegar þú hreyfir þig reglulega getur þú upplifað dýpri svefn og meiri slökun. Regluleg líkamsrækt eykur sömuleiðis líkamlega þreytu sem getur gert þér auðveldara að sofna, svo lengi sem hreyfingin á sér ekki stað rétt fyrir svefn.

Það að efla hreyfifærni og leiðleika, sem gerir einstaklingnum kleift að hreyfa sig og stunda reglubundna hreyfingu, er því gríðarlega mikilvægt og forsenda þess að við sofum vel.

Kírópraktík sem verkjameðferð

Eins og áður segir eru verkir ein af algengustu orsökum svefnleysis. Því er oft mjög mikilvægt að vinna bug á verkjunum, finna hvar rót vandans liggur og vinna með hana. Þar kemur kírópraktík aftur til sögunnar.

Hér á Kírópraktorstöðinni, sem dæmi, er farið í ítarlegt ferli við að greina og koma auga á orsök verkja. Sú greining felur í sér viðtal og skoðun þar sem mælingar á taugakerfi, mat á líkamsstöðu og jafnvel röntgenmyndir, ef þess þarf, gefa viðkomandi kírópraktor betri innsýn inn í stoðkerfið og hvað sé að valda umræddum verkjum í líkamanum.

Í kjölfarið hefst meðferð hjá kírópraktor sem getur haft í för með sér leiðréttingu á hryggsúlu og líkamsstöðu, minnka þrýsting/áreiti á taugar, liðka við stirða liði og annað sem tryggir eðlilegt flæði taugaboða, hreyfingar og virkni í líkamanum. Þar að auki er lífsstíll viðkomandi skoðaður og farið í saumana á orsakasamhenginu sem leiddi til þess ástands sem viðkomandi er í. Út frá því er hægt að vinna að langtíma lausn með kírópraktískri nálgun.

Settu svefninn í fyrsta sæti með hjálp kírópraktors

Þegar öllu er á botninn hvolft er svefninn eitt það allra mikilvægasta þegar kemur að heilsunni. Við hvetjum þig því eindregið til þess að setja hann í fyrsta sætið og ef það eru einhver vandamál sem eru að aftra þér frá því að sofa vel á nóttunni, að leita þér aðstoðar.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um svefninn þá munum við halda sérstakan svefnfyrirlestur, hér í húsakynnum Kírópraktorstöðvarinnar, þann 15. maí næstkomandi. Við munum auglýsa viðburðinn og hefja skráningu þegar nær dregur.

This site is registered on wpml.org as a development site.